Munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 11:46:47 (7294)

1996-06-05 11:46:47# 120. lþ. 161.3 fundur 369. mál: #A munur á launum og lífskjörum á Íslandi og í Danmörku# beiðni um skýrslu frá forsrh., KH
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[11:46]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er mikill sannleikur í því sem stendur á bls. 5 í skýrslunni að lífskjör manna hafa margar víddir og enn fremur segir þar, með leyfi forseta, að neysla er engan veginn einhlítur kvarði. Frítími er mikilvæg gæði í huga hvers manns þótt iðjuleysið sé án efa fáum að skapi. Tekjuauki sem til verður vegna aukinnar yfirvinnu er engan veginn jafngóður og sá sem fæst án viðbótarvinnu. Ýmis gæði sem teljast til lífskjara er trauðla hægt að meta í peningagildum. Þar má nefna hreina náttúru, lága glæpatíðni, langlífi og fleira. Þetta eru mikil sannindi og ég er ánægð að sjá þau á þessum stað. Lífskjör eru vitaskuld annað og meira en laun fyrir unnin störf. Hitt er svo alveg jafnsatt að sanngjörn laun fyrir hóflega vinnu er mikilvægur þáttur í lífskjaravefnum og af þeirri rót er skýrslan sprottin og fyrir hana ber að þakka, svo og þeim sem áttu frumkvæði af því að fá hana gerða um leið og tekið er undir gagnrýni á það að hún segir okkur auðvitað takmarkaða sögu þar sem skortir talsvert á sundurgreiningu ýmissa þátta, svo sem kynjaskiptinguna og fleira.

Það sem fyrst grípur athyglina er niðurstaða skýrsluhöfunda í upphafi hennar sem hefjast á þeirri ágætu fullyrðingu að lífsjör séu góð á Íslandi þegar horft er til kennileita í alþjóðlegum samanburði eins og þar er sagt.

Vondu fréttirnar eru svo það hvað landinn þarf að leggja á sig til þess að ná þessari stöðu. Þannig er alltaf á bak við hverja niðurstöðu sem varpar ljósi á málið eða kannski er réttara að segja að það varpi skugga á niðurstöðuna, a.m.k. í sumum tilvikum. Það kann t.d. að hljóma vel í eyrum einhverra að hér er bílaeign mikil á alþjóðlegan mælikvarða, aðeins 5 þjóðir af 18 samanburðarlöndum slá okkur við í því efni. Sú staðreynd er þó auðskiljanleg og kemur fjárráðum ekki við nema að hluta til. Ástæðan er sú að menn komast illa af án bíls í þessu stóra og strjálbýla landi allra veðra þar sem almenningssamgöngur eru ekkert til þess að státa af. En það sem situr skýrast eftir í huganum eftir lauslega yfirferð og lestur skýrslunnar er sá gríðarlegi munur sem er á fjölskyldustefnu íslenska samfélagsins og þess danska. Hér er staðfest sem mörgum var svo fyrir löngu ljóst að íslenskt samfélag er ekki fjölskylduvænt. Eins og margir hv. þingmenn, þá kann ég fleiri en eina og fleiri en tvær sögur að segja fólki sem dvalist hefur á Norðurlöndunum við nám eða starf um nokkurra ára bil með fjölskyldu sinni og þetta fólk verður hreinlega fyrir áfalli þegar það flyst hingað heim og þarf að aðlagast þeim aðstæðum sem hér er að finna og sætta sig við það verðmætamat og þau lífsgildi sem hér eru ríkjandi. Sumum er þetta ofraun og þeir hrökkva hreinlega til baka. Sem betur fer eru þeir reyndar tiltölulega fáir því að það eru aðrir þættir í dæminu sem menn meta einnig mikils. Þess vegna bíta flestir á jaxlinn og eru fyrr en varir komnir í vítahring vinnusýkinnar og lífsgæðakapphlaupsins, búnir að axla öll óþægindin af yfirvinnu, ósveigjanlegum vinnutíma, komnir í spretthlaupið sem sumir kalla þjóðflutningana miklu á milli dagmæðra og barnaheimila, farnir að hengja húslykla um háls barnanna sinna og dotta fyrir framan sjónvarpið á kvöldin.

Herra forseti. Ég fagna þessari skýrslu og tel okkur geta dregið af henni gagnlegan lærdóm. Ég ítreka það og undirstrika að við endurskoðun á lífskjörum okkar þarf að leggja höfuðáherslu á hag fjölskyldunnar í víðu samhengi. Þar ætti að hafa forgang í stjórnmálum landsmanna að koma á fjölskylduvænu samfélagi.