Náttúruvernd

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 18:41:19 (7325)

1996-06-05 18:41:19# 120. lþ. 161.10 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, Frsm. minni hluta HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[18:41]

Frsm. minni hluta umhvn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sjálfsagt má finna ýmislegt til málsbóta og ég ætla hæstv. ráðherra ekkert sérstakt í sambandi við þetta mál umfram það sem ég vék að. Það voru ekki aðdróttanir. Hins vegar hlýtur það að hafa verið á vitorði hæstv. umhvrh. að í þinginu var flutt frv. sem var vísað til umhvn. sem varðar þetta svið sem er um að ræða. Hafi verið áhugi hjá hæstv. ráðherra að fá fram endurbætur á ákvæðum náttúruverndarlaga að því er varðar efnistöku lágu þarna fyrir tillögur sem njóta víðtæks stuðnings og sem höfðu fengið skoðun ýmissa opinberra stofnana, þar á meðal á vegum umhvrn. og sem hæstv. ráðherra hafði haft mjög góð orð um á ráðstefnu í nóvember sl. Það er þetta sem ég er að vísa til þannig að ég tel að þarna skorti viljann. En hvort það var að forminu til, ég ætla ekkert að skera úr um það hvernig samskipti hæstv. ráðherra og formanns umhvn. eru frá degi til dags.

Varðandi samskipti milli ráðuneyta um þá stöðu sem er uppi að hæstv. ráðherra gegnir tveimur ráðuneytum, landbrn. og umhvrn. eru það bara vandkvæði sem eru formlegs eðlis. Ég treysti núv. hæstv. umhvrh. ekkert síður að glíma við þann vanda að þjóna tveimur herrum. En það sem ég er að gagnrýna er það að ætla einum og sama ráðherra að sinna þessum ólíku málaflokkum þar sem frá degi til dags hlýtur að draga til hagsmunaárekstra, hlýtur að draga til árekstra milli sjónarmiða og auðvitað er möguleikinn að sinna skyldum miklu minni. Ég tel að það gildi ekkert síður um umhvrn. en fjmrn. að það komi ekki til greina að deila því upp á milli fleiri ráðherra. Þetta eru slík lykilráðuneyti sem verða að geta starfað óháð.