Náttúruvernd

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 18:43:44 (7326)

1996-06-05 18:43:44# 120. lþ. 161.10 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[18:43]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð út af efnistökumálinu. Það er rétt sem hv. þm. segir. Ég hef líka lýst því yfir að það sé nauðsynlegt að taka á því máli og reyndar fleirum sem hann nefndi í sinni löngu og ítarlegu ræðu. Það er margyfirlýst af minni hálfu að það verður farið í þessa heildarendurskoðun og það eru engin undanbrögð í því sem mátti kannski aðeins skilja í upphafi máls hv. þm. fyrr í dag að kynni að vera að hugur fylgdi ekki máli. Það eru engin undanbrögð í því. Það er fullur vilji að fara í það strax og taka rösklega til hendi. Ég hef hins vegar álitið að það mundi taka lengri tíma en hv. þm. hefur stundum látið að liggja í ræðum sínum og álitið að þar væri hægt að vinna hraðar.

Þar verður að taka á efnistökumálinu og þar verður að taka á almannaréttarmálinu sem hv. þm. fjallaði ítarlega um í ræðu sinni áðan. Um það er ekki ágreiningur en ég tel að það eigi heima þar og það sé mjög nauðsynlegt að gera það og má kannski segja þótt fyrr hefði verið en því vísa ég þá til þeirra sem hafa lengur fjallað um þennan málaflokk en ég hef þó gert.

Hv. þm. beindi ekki mörgum spurningum til mín um viðhorf mitt til náttúruverndarnefnda sveitarfélaganna. Ég minni aðeins á að ákvæðin í 10. gr. frv. um náttúruverndarnefndir sveitarfélaganna og héraðsnefndanna eru nokkurn veginn efnislega óbreytt frá því sem er í gildandi lögum þannig að ekki er um að ræða breytingar í sjálfu sér. Það er nýtt að ætla þessum nefndum eða fulltrúum þeirra að hittast einu sinni á ári og ég teldi að það gæti orðið fróðlegur og mikilvægur fundur ef hægt er að halda slíkan fund og ég mun auðvitað reyna að gera eins og lög kveða á um verði þetta frv. að lögum.

Um náttúruminjaskrá sem hv. þm. taldi að væri óhæft að væri útgefin á aðeins fjögurra ára fresti held ég að ég fari rétt með að það sé þannig í gildandi lögum. Hitt getur svo sjálfsagt verið rétt hjá hv. þm. að eðlilegt væri að hún væri gefin út oftar, ég skal ekki fullyrða um það að óathuguðu máli. Það er þá eitthvað sem þarf að taka til athugunar í heildarendurskoðuninni.

Að lokum vil ég segja að við erum ósammála a.m.k. að hluta til hvað varðar málefni með gjaldtökuna. Ég er þeirrar skoðunar að það beri að fylgja fram því ákvæði sem hér er í frv. og í brtt. meiri hluta nefndarinnar.