Náttúruvernd

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 20:22:09 (7334)

1996-06-05 20:22:09# 120. lþ. 161.10 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[20:22]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Hv. 4. þm. Austurl. beindi til mín nokkrum spurningum og ég vona að ég hafi náð þeim niður að mestu. Hinu lofa ég ekki að mér takist að svara þeim öllum eins ítarlega og hv. þm. óskar eftir en reyni að sjálfsögðu að gera mitt besta í því.

Fyrst spurði hann um viðhorf mitt almennt til stjórna opinberra stofnana. Ég fór reyndar svolítið yfir það áðan að það viðhorf sem ríkti væri ekki almennt skýrt. Það er mjög misjafnt frá einni stofnun til annarrar. Það er sjálfsagt misjafnt milli ráðuneyta þó að ég þekki það ekki nákvæmlega en ég veit að það er misjafnt innan þeirra ráðuneyta sem heyra undir landbrn. og umhvrn. Sem dæmi er engin stjórn yfir hvorki Skógrækt ríkisins né Landgræðslu ríkisins svo tekin séu dæmi. Það er engin formleg stjórn yfir stórum stofnunum eins og Vegagerðinni. Síðan er hins vegar stjórn yfir fremur lítilli stofnun sem heyrir undir landbrn. eins og Veiðimálastofnun, þar er fimm manna stjórn með tilnefningum alls staðar að svo að þetta er mjög misjafnt.

Skoðun mín hefur verið sú að það sé eðlilegt og æskilegt að hafa stjórnir yfir þessum stofnunum en ég tel að þær eigi þá að vera þannig að þær séu skipaðar af ráðherra ef það er eins og eðlilegt hlýtur að teljast að þessar stofnanir heyri undir ráðherra, hann er ábyrgur fyrir stofnununum. Þá er t.d. mjög óeðlilegt eins og ég tók dæmi af áðan í stuttu andsvari að þing kjósi stjórn fyrir stofnun, stjórn stofnunar ræður t.d. síðan forstjóra stofnunarinnar en ráðherra ber svo ábyrgð á stofnuninni. Það er mjög flókið stjórnarform þannig að ég held að það sé ekki góður kostur.

Ég hef almennt verið þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt, það þurfa kannski ekki að vera fjölmennar stjórnir, ekki fimm eða sjö manna stjórnir en kannski þriggja manna stjórnir sem eru ráðherra til ráðuneytis í sambandi við verkefni stofnananna vegna þess m.a. að ráðuneytin eru því miður oftar en ekki svo veik að þau hafa e.t.v. ekki þann möguleika sem æskilegur væri til þess að fylgja eftir starfsemi stofnananna.

Hv. þm. spurði mig síðan einnig um hvort það form sem hér er upp sett væri það sem ég teldi æskilegast og hvort ég teldi að ætti að skipa Hollustuvernd ríkisins stjórn og hvernig sú stjórn ætti að vera. Það er einmitt eitt af því sem er í gangi hjá umhvrn. nú að endurskoða lög um Hollustuvernd ríkisins. Ég hef áður lýst viðhorfi mínu um það að ég tel að það sé eðlilegt að þar sé stjórn. Það getur alltaf verið álitamál hvernig stjórnirnar eigi að vera skipaðar, hvernig á að tilnefna í stjórnirnar ef það er gert eða hvort ráðherra á sjálfur að velja einstaklingana sem þar sitja. Mér finnst ekki óeðlilegt að það geti verið með einhverjum hætti blanda af slíku eins og hér er lagt til að eiga aðild að málaflokknum og það séu tilnefningar frá aðilum og á hinn bóginn að ráðherra skipi einhvern hluta án þess að fá tilnefningar.

Hér hefur verið nokkur umræða af hálfu hv. þingmanna sem tekið hafa þátt í umræðunni hvort eðlilegt sé að samgrh. eigi aðild að þessari stjórn. Nú er það svo eins og margoft hefur komið fram og kemur fram í greinargerð frv. og þarf ekki að ítreka að það er álit okkar sem að þessu stöndum að þar sé um verksvið að ræða sem sé æskilegt að tengist stjórnun náttúruverndarinnar. Þar vil ég fyrst og fremst draga fram ferðaþjónustuna og ferðamálin og tel að þar sé nauðsynlegt að skapa jákvæð viðhorf milli náttúruverndar og ferðaþjónustu og það sé hluti af því sem þarna þurfi að gerast. Þess vegna lít ég svo á að sú skipan sem hér er gerð tillaga um sé ásættanleg og geri tillögur um hana með því að flytja þetta frv. eins og það lítur út. Varðandi Hollustuverndina teldi ég hins vegar að þar gæti verið um mikla hagsmunaárekstra að ræða varðandi það sem hv. þm. nefndi, að iðnrh. skipaði þar fulltrúa í stjórn. Ég teldi það ekki æskilegt. Þannig að ég tel að þessi mál þurfi að skoða í hverju einstöku tilviki.

Hv. þm. spurði einnig hvort ég teldi að það væri ekki ofgert að láta ferðamálasjóðinn koma líka að Náttúruverndarráði. Það finnst mér ekki. Það má auðvitað velta því fyrir sér hverjir eiga að tilnefna fulltrúa í Náttúruverndarráð af því að þar eru fimm tilnefningar og síðan einn skipaður af ráðherra án tilnefningar og það má spyrja hvort Bændasamtökin eigi að tilnefna þar. Eru þar hagsmunaárekstrar eða eru það eðlileg sjónarmið að Bændasamtökin eigi þar aðild? Ég hef talið það með því að gera þetta að tillögu minni sem hér liggur fyrir.

Síðar spurði hv. þm. um aðild skipulagsstjóra ríkisins að Náttúruverndarráði. Ég tel að það geti verið kostir í því en ég geri ráð fyrir því einnig gæti verið um hagsmunaárekstra að ræða. Þá ber fulltrúa skipulagsstjóra að víkja úr ráðinu ef ráðið þarf t.d. að gefa umsögn um mál sem getur skarast við verkefni stofnunarinnar samkvæmt almennum stjórnsýslulögum.

Ég hef að vísu ekki fyrir framan mig álit Sambands ísl. sveitarfélaga en ef ég man rétt þá held ég að Samband ísl. sveitarfélaga teldi að það þyrfti að gera athugasemd við að verið væri að boða fulltrúa náttúruverndarnefndanna til sameiginlegs fundar einu sinni á ári fremur en það hafi beinlínis verið athugasemd frá sambandinu um það form sem ég hef þarna greint frá. Og eins og ég hef áður sagt, þá er það nokkurn veginn efnislega óbreytt frá því sem er í gildandi lögum.

[20:30]

Hv. þm. spurði hver tilnefndi fyrir hönd Háskóla Íslands og af hverju Háskóli Íslands væri tilnefndur frekar en aðrar háskólastofnanir. Háskóli Íslands er ótvírætt stærsta háskólastofnunin og er með rannsóknarstofnanir á ýmsum sviðum undir sínum verndarvæng. Þegar talað er um Háskóla Íslands verð ég að gera þá játningu að ég þekki ekki nægjanlega vel til innviða hans en ég ímynda mér að þar kæmi háskólaráð eða einhver önnur stjórn þeirrar stofnunar til greina. Ég ítreka aftur að ég segi þetta með fyrirvara, en ég teldi eðlilegast að það væri háskólaráðið. Annars hlýtur að vera á því eitthvert form. Ég ímynda mér að minnsta kosti að Háskóli Íslands komi til með að tilnefna í ýmsar, ég veit ekki hvort ég á að segja ýmsar stjórnir, en ég ímynda mér að í ýmis verkefni komi tilnefningar frá háskólanum þannig að það hljóti að finnast eðlilegur farvegur.

Auðvitað hefur hv. þm. og þeir þingmenn báðir sem tóku þátt í umræðunni áður rætt um fjárveitingar til Náttúruverndarráðs. Þeir velta því fyrir sér hvort fjárveitingar til málaflokksins í heild séu nægjanlegar og síðan fjárveitingar til Náttúruverndarráðsins sérstaklega og þess hlutverks sem því er ætlað. Ég vísa til þess sem segir í greinargerð frv. og kostnaðaráætlun frá fjmrn. sem unnin er m.a. með fulltrúum eða samkvæmt upplýsingum frá umhvrn. Við getum alltaf verið með vangaveltur um það hvort fjárveitingar eru nægar til einstakra málaflokka. Mér heyrist oftast nær að menn telji að það sé ekki nóg og það sé aldrei nóg. Það er a.m.k. það viðhorf sem blasir við okkur oftast þegar við erum að glíma við fjárlagagerðina. En þetta er hins vegar auðvitað fjárlagamál hverju sinni. Hér er tilgreind sú upphæð sem ætti að renna til ráðsins. Það eru 1,5--2 millj. kr. sem mönnum sýnist að gæti verið sú upphæð sem ráðið ætti að fá til sinnar starfsemi.

Ég hef ekki fallist á að það ætti að geta um það í lögum að ráðinu væri sköpuð starfsaðstaða, t.d. ráðinn framkvæmdastjóri eða forstöðumaður fyrir Náttúruverndarráð, þar sem ég tel að það sé ekki eðlilegt að það séu tvær stofnanir starfandi lögum samkvæmt sem fjalla um þessi mál. Ég hef hins vegar sagt í umræðum um þetta mál að ég teldi að það væri nauðsynlegt að skoða það þegar kemur að fjárlagagerðinni hvaða fjármuni við getum tryggt Náttúruverndarráðinu. Það kann að vera að þessi upphæð sem hér er nefnd sé í lægri kantinum, það væri nauðsynlegt að líta á það nánar.

Ég hef líka lýst því yfir og er þá ekki alveg sammála hv. þm. þar um að ég tel að það komi til greina að ráðið fái starfsaðstöðu annaðhvort hjá Náttúruvernd ríkisins eða hjá umhvrn. Það eru dæmi um það að nefndir sem starfa sem ráðgjafarnefndir fyrir ráðuneytið hafi þar starfsaðstöðu. Ég nefni t.d. nefnd sem starfar samkvæmt lögum um veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Sú nefnd hefur haldið fundi hjá umhvrn.

Hv. þm. spurði um akstur utan vega og ákvæðin sem eru í frv. um þann þáttinn. Það er skoðun okkar sem stöndum að frv. og breytingartillögunum eða þeirra fulltrúa nefndarinnar sem standa að breytingartillögu við málið að þar sé verið að styrkja þetta ákvæði frekar en veikja. Staðreyndin er sú að við þurfum að horfast í augu við dálítið sérkennilega umferð sem er ný í landinu, þ.e. umferð á snjó, umferð á ís, umferð á hjarni og umferð að vetrarlagi. Það þarf að sníða reglurnar að henni svo slík umferð og slík ferðaþjónusta geti blómstrað. Vegna þessa ákvæðis vil ég sérstaklega árétta við hv. þingmenn og minna á fyrirhugaða almenna endurskoðun á lögunum, efnisendurskoðun. Ég tel að allt sem í frv. er falli undir þá endurskoðun. Ef í ljós kemur við slíka heildarendurskoðun að menn telja ákvæði, sem hér stendur til að lögfesta samkvæmt þessu frv. og eiga ekki að vera miklar efnisbreytingar umfram stjórnunarþáttinn, gölluð koma þau að sjálfsögðu til eðlilegrar endurskoðunar í heild sinni. Það sama á við um spurningu hv. þm. varðandi 28. gr. frv. um friðlýsingu landsvæða sem ég hygg að sé óbreytt frá gildandi lögum. Varðandi framkvæmd málsins held ég að það verði ekki mikil breyting við þetta frv. sem hér er til umfjöllunar og verður vonandi samþykkt áður en allt of langt líður.

Ég hygg að það viðhorf mitt hafi komið fram við 1. umr. um frv. í framsöguræðu minni varðandi 29. gr. að ég tel eðlilegt að eiga möguleika á því að land sem fer undir þjóðgarða sé ekki skilyrðislaust ríkiseign. Í frumvarpsgreininni segir, með leyfi forseta: ,,Landsvæði þjóðgarða skulu vera í ríkiseign, nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli umhverfisráðherra og landeigenda.`` Ég held að ég hafi líka lýst því yfir við 1. umr. að það þyrfti að ganga mjög vel frá saningum af þessu tagi og það yrði sjálfsagt ekki einfalt. Ég lít ekki svo á að þetta verði einhver almenn regla heldur undantekningarregla og ég hef ekki í huga einhver ákveðin einstök svæði eða eignir, en ég held að hv. þm. hafi spurt að því.

Varðandi gjaldtökuna hef ég lýst því viðhorfi mínu að ég tel að það sé æskilegt og nauðsynlegt að hafa þessar heimildir. Það kann að vera að þær verði ekki nýttar og auðvitað liggur ekkert fyrir um að það skuli nýta þær eða þær verði nýttar, heldur er þetta heimild sem ég tel að sé æskileg. En ég endurtek það sem kom fram áðan í stuttu andsvari að það kann að vera að aðstæður séu á fáum stöðum slíkar að hægt sé að nýta þessa heimild. Á það verður að reyna.

Varðandi náttúruminjaskrána er það vafalaust rétt sem hv. þm. benti á að það séu ekki ákvæði í gildandi lögum um að hún skuli gefin út fjórða hvert ár. Ég hélt að þetta væri óbreytt, en hitt er svo annað mál að ég svo sem veit ekki hvort það er endilega ástæða til þess að þessi ákvæði séu endurskoðuð árlega eða á tveggja ára fresti. Hér er gerð tillaga um endurskoðun á fjögurra ára fresti. Þetta er viðamikil útgáfa og það kostar töluverða fjármuni að gefa út náttúruminjaskrá. Þótt það eigi kannski ekki að ráða, er a.m.k. í lagi að hafa það í huga, líka við slíka útgáfu.

Að lokum spurði hv. þm. um náttúruverndarþingið. Í ákvæðum til bráðabirgða með frv. segir, með leyfi forseta:

,,Náttúruverndarráð það sem lætur af störfum við gildistöku laga þessara skal undirbúa þingið.``

Ég sé ekki að það geti verið svo miklum vandkvæðum bundið eins og mér heyrist að hv. þm. hafi áhyggjur af ef við gerum ráð fyrir því, eins og segir í frv., að lögin öðlist gildi frá og með 1. janúar 1997. Þar er gert ráð fyrir því að fyrsta náttúruverndarþingið verði í janúar og er það sitjandi Náttúruverndarráð sem skal undirbúa það þing. Það er þá líka hlutverk þess að semja þær fyrstu reglur sem lagðar verða fyrir þetta nýja þing. Það er ákvæði í frv. sjálfu til bráðabirgða að það sé hlutverk sitjandi Náttúruverndarráðs að undirbúa fyrsta náttúruverndarþingið og um það ætti ekki að vera nein óvissa.

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort ég hef náð öllum spurningunum. Ég vona að svo hafi verið, en ég er ekki svo bjartsýnn að ímynda mér að ég hafi svarað þeim öllum fullnægjandi að mati hv. þm. Ég vona þó að ég hafi náð að svara allflestu af því sem hann spurði um.