Náttúruvernd

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 20:43:29 (7336)

1996-06-05 20:43:29# 120. lþ. 161.10 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[20:43]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Það er rétt hjá hv. þm. að við leysum ekki hér allan okkar ágreining sem kann að vera um málið. Við hefðum væntanlega ekki þurft að sitja svo lengi yfir þessu í dag ef við værum algerlega sammála um allt í málinu. Ég hef ekki skoðað það hvort ekki séu einhvers staðar fordæmi fyrir því að fulltrúar í stjórnir í hinu opinbera kerfi kunni að vera skipaðir frá tveimur ráðuneytum. Ég fullyrði ekki neitt um það, en mér finnst eiginlega með ólíkindum ef þetta er eina fordæmið í því sambandi.

Að lokum ítreka ég að ég er ósammála því að við kveðum á um starfsaðstöðu fyrir Náttúruverndarráðið í lögunum, en auðvitað þarf að huga að því að Náttúruverndarráð hafi fjármuni til að sinna því lögbundna hlutverki sem því er ætlað.