Náttúruvernd

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 20:47:29 (7337)

1996-06-05 20:47:29# 120. lþ. 161.10 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[20:47]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það frv. sem hér er verið að greiða atkvæði um ber yfirskriftina ,,Frumvarp til laga um náttúruvernd``. Það eru röng skilaboð frá þeim sem flytja málið vegna þess að þetta er að verulegu leyti endurflutningur á óbreyttum ákvæðum um náttúruvernd þannig að ekki er um neina viðhlítandi heildarendurskoðun laganna að ræða. Þetta á m.a. við um 1. gr., markmið náttúruverndar þar sem ekki er breytt neinu frá því sem verið hefur í gildandi lögum um aldarfjórðungsskeið þrátt fyrir öll þau nýju viðhorf sem fyrir liggja í umhverfismálum og náttúruvernd á þessu tímabili.

Ég tek ekki afstöðu til þeirra greina sem eru fluttar óbreyttar heldur sit ég hjá við þá atkvæðagreiðslu en ég mun koma að einstökum þáttum í atkvæðaskýringum síðar.