Kosning forseta skv. 1. mgr. 3. gr. þingskapa

Mánudaginn 02. október 1995, kl. 14:20:11 (6)

1995-10-02 14:20:11# 120. lþ. 0.3 fundur 3#B kosning forseta skv. 1. mgr. 3. gr. þingskapa#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Háttvirtir alþingismenn. Ég þakka hæstv. aldursforseta, Ragnari Arnalds, árnaðaróskir í minn garð. Enn fremur þakka ég hv. alþingisþingmönnum fyrir það traust sem þeir hafa sýnt mér með því að endurkjósa mig forseta Alþingis. Ég vænti þess að eiga gott samstarf við alla alþingismenn á því þingi sem nú fer í hönd eins og á síðasta þingi.

Ég nefndi í ávarpi mínu á þingsetningarfundi í vor að ég teldi að bæta þyrfti svipmót þingsins. Í því sambandi lagði ég áherslu á að við þyrftum að bæta okkar eigin starfshætti og þá ekki síst umræður á þinginu, enda ráða umræður í þingsal miklu um þá ímynd sem almenningur hefur af störfum Alþingis. Alþingismenn brugðust mjög vel við þessum orðum mínum og tóku tillit til þeirra. Mikilvægt er að okkur takist á því þingi, sem nú fer í hönd, að viðhalda þeim góða starfsanda sem einkenndi síðasta þing og mun ég sem forseti gera mér far um að svo megi verða. Ég heiti á alla alþingismenn um gott samstarf í þeim efnum sem öðrum.

Ég varpa í þessu sambandi fram þeirri hugmynd hvort mætti á þessu þingi stíga eitt veigamikið skref í þá átt að skipuleggja þinghaldið betur, t.d. með því að þingmenn sameinist um að flytja aldrei lengri ræður hverju sinni en sem nemur t.d. hálfri klukkustund, þó með nokkrum eðlilegum undantekningum. Ég er þá að tala um samkomulag milli þingmanna en ekki lagaboð.

Starf alþingismanna verður sífellt fjölþættara, bæði á innlendum vettvangi og í alþjóðlegu samstarfi. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir þingmenn að skipuleggja störf sín vel, og má þá ekki gleyma fjölskyldum þeirra sem líka þurfa og eiga að fá sinn tíma. En hér ráða þingmenn ekki einir för. Ríkisstjórn hverju sinni þarf að ætla Alþingi rúman tíma til að afgreiða þau mál sem hún leggur fram og vill fá afgreidd. Ég hef því óskað eftir samkomulagi við ríkisstjórnina um framlagningarfrest mála á haustþingi og vorþingi og hefur hæstv. forsætisráðherra lýst sérstökum stuðningi við þessi áform.

Um þessar mundir blása fremur naprir vindar um Alþingi og vísa ég þá til þeirrar hörðu gagnrýni sem alþingismenn hafa mátt sitja undir um kjaramál sín. Vegna þessa tel ég óhjákvæmilegt að fara nokkrum orðum um málið hér og nú. Alþingismenn hafa að sönnu ávallt verið í erfiðri stöðu þegar kjaramál þeirra hafa verið til umræðu, en hafa líklega aldrei sætt jafnharðri gagnrýni og síðustu vikurnar. Málflutningur sumra hefur þar farið út fyrir velsæmismörk og þingmenn kallaðir þeim nöfnum sem ekki er hægt að taka sér í munn hér við þetta tækifæri eða á þessum stað. Verst er þó að fjölmiðlar, sem hafa meiri áhrif á skoðanamyndun í þjóðfélaginu en aðrir og bera því mikla ábyrgð, hafa ekki greint nægilega vel frá og á stundum ýtt undir rangfærslur með óvandaðri umfjöllun um málið.

Þeir sem mest hafa farið í þessari umræðu ættu að íhuga að Alþingi er ekki kjarafélag og að þau starfskjör, sem lög ákveða alþingismönnum og Kjaradómur og forsætisnefnd ákvarða nánar, eru ekki sérstaklega miðuð við hvað þeim kemur sem hér sitja núna. Þau eru almennur rammi um þá mikilvægu lýðræðislegu starfsemi sem þingmennskan er.

Svo virðist sem sumir gagnrýnendur hafi ekki kynnt sér hin nýju lög um þingfararkaup og þingfararkostnað. Þá virðist það útbreidd skoðun, og henni haldið að fólki, að þingmenn sitji í Kjaradómi, fái greidda yfirvinnu, fái greitt fyrir setu í nefndum þingsins og séu að bera laun sín saman við laun þingmanna í öðrum löndum o.s.frv. Allt er þetta misskilningur.

Endurskoðun laganna um þingfararkaup, sem að stofni til voru frá árinu 1964, var orðin mjög tímbær. Nýju lögin voru tiltekt, byggð á því að hafa alla hluti ljósa, gagnsæja og á yfirborðinu. Lögunum var líka víðast fagnað er þau voru samþykkt í júní sl. En nú þegar orð hafa breyst í gerð verður annað upp á teningnum. Kostnaðargreiðslurnar sem mest hefur verið deilt á komu í stað áþekkrar greiðslu áður. Engu að síður vill forsætisnefnd ekki standa í stríði við þjóðina um þessi mál og hefur því ákveðið í samráði við formenn þingflokka að flytja frumvarp um breytingar á lögunum sem taka mið af þessari gagnrýni.

Ég lýk orðum mínum um launa- og kjaramál þingmanna með því að hvetja fólk til þess að gefa sér tíma til að íhuga gaumgæfilega eðli og umfang þeirra starfa sem þingmenn hafa með höndum. Þá mun það öðlast annan og betri skilning á hlutverki og starfskjörum alþingismanna.

Vinnuumhverfi þingmanna markast ekki eingöngu af launa- og starfskjörum þeirra. Í ávarpi mínu í vor nefndi ég að ég teldi það meðal mikilvægustu verkefna nýrrar forustu þingsins að koma húsnæðismálum þess í viðunandi horf. Einn þáttur í þessum efnum eru endurbætur þær er standa yfir á húsum í eigu Alþingis við Kirkjustræti. Á fjárlögum þessa árs er veitt fé til að lagfæra ytra byrði þeirra. Eins og þingmenn hafa séð er þeim framkvæmdum nú lokið og hafa allar áætlanir staðist. Þessu verki þarf að halda áfram, ljúka framkvæmdum innan húss og ganga frá tengibyggingu milli húsanna. Ég lýsi sérstakri ánægju með að þessum gömlu og virðulegu húsum við Kirkjustræti skuli hafa verið forðað frá niðurrifi, það hefði orðið menningarlegt slys. Þessi hús sóma sér vel sem skrifstofur fyrir alþingismenn og starfsfólk Alþingis og bæta nokkuð þá bágu aðstöðu sem margir þingmenn og starfsmenn búa við. Það er nú svo að sú aðstaða, sem sumum alþingismönnum og starfsmönnum er búin hér, teldist ekki boðleg á hliðstæðum vinnustöðum.

Á síðustu árum hefur markvisst verið unnið að því að kynna almenningi störf Alþingis. Mikilvægur þáttur í því kynningarstarfi hefur verið að taka á móti gestum í Alþingishúsinu og er nú orðin veruleg aðsókn frá skólum og félagasamtökum að fá að koma hingað og fræðast um húsið og störf þingsins. Það var því í þessum anda sem forsætisnefnd ákvað að minnast þess 1. júlí sl. að 150 ár voru þá liðin frá því hið endurreista Alþingi kom fyrst saman. Alþingishúsið var þá opið almenningi. Ánægjulegt var hversu aðsókn var mikil. Eitthvað á annað þúsund manns komu í þingshúsið þennan dag og má segja að þá hafi verið þröng á þingi. Ég þakka alþingismönnum er gátu verið hér í Alþingishúsinu þennan dag og frætt gesti um störf þingsins og vinnuaðstöðu. Sömu þakkir flyt ég starfsfólki þingsins er undirbjó og tók þátt í að gera þennan dag jafnánægjulegan og raun bar vitni. Það var alveg ljóst að mörgum þótti til þess koma að ganga inn í Alþingishúsið. Fyrir þá var það sérstæð stund að koma í fyrsta sinn í þinghúsið. Ég hafði það á tilfinningunni að fólk hafi litið á Alþingi sem lokaðan stað og að húsið væri aldrei opið almenningi. Ég tel því að dagar sem þessi séu til þess fallnir að efla tengsl þingsins við þjóðina og það getur aðeins orðið Alþingi og starfinu hér til góðs.

Mér er hugleikið að efla tengsl þingsins og almennings enn frekar og nefni þá þingsetningarathöfnina. Með endurreisn Alþingis fyrir 150 árum komst á sú venja sem einkennt hefur þingsetningarathöfnina síðan. Samkvæmt 42. gr. tilskipunarinnar um endurreisn Alþingis skyldi halda opinbera guðsþjónustu áður en Alþingi væri sett. Að henni lokinni gengu alþingismenn til fyrsta þingfundar. Þetta hefur verið í föstum skorðum og eðlilegt að við virðum þær hefðir og venjur sem um þessa athöfn hafa myndast enda mikilvægur þáttur sögulegrar arfleifðar okkar.

Mér hefur hins vegar þótt að þingsetningarathöfnin mætti skipa meiri sess í þjóðlífinu. Kemur þar tvennt til. Í fyrsta lagi er þessi hátíðlega athöfn of lokuð. Guðsþjónustan er eingöngu sótt af þingmönnum, æðstu embættismönnum Stjórnarráðsins auk fulltrúa erlendra ríkja og starfsfólki þingsins og nokkrum öðrum gestum. Ég vil tengja almenning betur setningarathöfninni og gera hana þannig að stærra þætti í þjóðlífi okkar. Í öðru lagi þykir mér ekki síður mikilvægt að hlúa að þeirri arfleifð er tengir okkur við hið forna Alþingi á Þingvöllum og þar með sögu okkar sem þjóðar, enda eru Alþingi og Þingvellir tengd órofa böndum. Til þess að glæða lífi þau tengsl sem eru milli Alþingis og Þingvalla og til að gefa almenningi færi á þátttöku í þessari athöfn varpa ég fram þeirri hugmynd að setning Alþingis fari fram á Þingvöllum.

Eins og kunnugt er voru mjög skiptar skoðanir um það meðal landsmanna á síðustu öld hvort aðsetur hins endurreista Alþingis skyldi vera á Þingvöllum eða í Reykjavík. Til að forðast allan misskilning tek ég fram að ég er ekki að leggja til að aðsetur Alþingis verði flutt til Þingvalla. Ég er einvörðungu að tala um þingsetningarathöfnina og þá viðburði er efna mætti til í tengslum við hana. Aðstæður gera það að verkum að óhentugt er að þingsetning á Þingvöllum fari fram 1. október. Heppilegra væri að hún færi fram að sumri, t.d. fyrsta laugardag í júlí, sem ekki víkur mjög frá hinum forna þingsetningardegi. Hin nýja skipan, að Alþingi situr allt árið, gerði þessa nýbreytni auðveldari, en á fundinum mætti auk sjálfrar þingsetningar, sem er í höndum forseta Íslands, kjósa forseta, varaforseta og fastanefndir, en fresta síðan fundum þingsins til 1. október. Þingsetning á Þingvöllum kallar ekki á miklar framkvæmdir þar. Eðlilegt væri að athöfnin færi fram undir beru lofti líkt og áður tíðkaðist. Athöfn sem þessi, sem almenningur sækti, gæti orðið að viðburði í þjóðlífinu. Í tengslum við hana væri fleira gert en að setja þingið. Í þessu sambandi minni ég á að þegar Alþingi var háð á fyrstu öldum Íslandsbyggðar voru Þingvellir ekki aðeins samkomustaður þar sem forustumenn þjóðarinnar settu lög og kváðu upp dóma heldur flykktist þangað fjöldi fólks frá öllum landshornum. Þingið varð því þjóðarsamkoma. Aðstæður á Þingvöllum eru til þess fallnar að þar megi efna til þjóðarsamkomu árlega. Ég hvet til þess að alþingismenn, og almenningur allur, ræði þessa hugmynd enda þarfnast hún góðs undirbúnings ef okkur á að takast að gera slíkan dag að einhverju meira en þingsetningardegi. Ég ætla að til slíkrar venju mætti stofna á Þingvöllum um aldamótin. Þá hljótum við að minnast þess einmitt þar að 1000 ár verða liðin frá því að samþykkt var á þingfundi á Þingvöllum að kristni skyldi lögtekin svo sem sögur okkar herma.

Ég endurtek þakkir mínar til þingheims fyrir að trúa mér fyrir þessu embætti. Það er ásetningur minn að eiga gott samstarf við alþingismenn.