Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

Miðvikudaginn 04. október 1995, kl. 21:05:52 (15)

1995-10-04 21:05:52# 120. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)#, JóhS
[prenta uppsett í dálka]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar, hlýtur þjóðin að spyrja eftir þessa ræðu. Svarið er að ríkisstjórnarflokkarnir hafa enga stefnu nema þegar kemur að niðurskurði á velferðarkerfinu eða einkavæðingu í þágu fjármagnseigenda. Sjálfstæðisflokkurinn hefur dregið Framsóknarflokkinn á asnaeyrunum eða hann svikið sína kjósendur nema hvort tveggja sé. Kjörorð framsóknarmanna í kosningabaráttunni var Fólk í fyrirrúmi. En nú hafa þeir sýnt sitt rétta andlit. Fólkið er ekki í fyrirrúmi, heldur sauðkindin. Afnumið er að bætur atvinnulausra, öryrkja og gamla fólksins hækki í samræmi við verðlags- og launaþróun. Annað gildir um sauðkindina, þar er allt verðtryggt. Sjúklingar skulu nú greiða fyrir aðgerðir á sjúkrahúsum. Auk þess á að taka upp sérstakt gjald fyrir fólk á biðlistum eftir aðgerðum. Með öðrum orðum virðist eiga að fara að selja aðgang að biðlistaaðgerðum á sjúkrahúsum og einkavæða í heilbrigðiskerfinu. Boðað er einnig að skerða lífeyri heimavinnandi fólks og öryrkja sem ekki hafa greitt í lífeyrissjóð. Og ekki er látið þar við sitja. Bætur tryggingaþega skornar niður um tvo milljarða króna, Framkvæmdasjóður fatlaðra um 150 millj. og framlög til húsnæðismála um 1.300 millj. kr. Skattbyrði einstaklinga eykst og samdráttur í fjárfestingum fjölgar atvinnulausum um 1000 manns. Í því máli sem heitast brennur á þjóðinni, kjaramálunum, hefur ríkisstjórnin enga skoðun. Ráðherrarnir hafa ekki enn áttað sig því eftir hveitibrauðsdagana að það hefur orðið trúnaðarbrestur milli þeirra og þjóðarinnar. Hæstv. forsrh. sagði ekki orð um kjaramálin áðan eða kjarastefnu ríkisstjórnarinnar annað en að barma sér mjög yfir hvað fjölmiðlar væru vondir og ósanngjarnir í kjaramálaumræðunni. Forsrh. sagði þó í febrúar sl.: Það er ekki vafi í mínum huga að þessir samningar sem ná til langstærsta hluta vinnumarkaðarins, þess hluta sem lýtur lögmálum þjóðarteknanna meira en aðrir, verða algerlega fordæmisskapandi fyrir aðra samninga. Algerlega fordæmisskapandi, sagði forsrh. þá. Nú nokkrum mánuðum síðar gerir hann lítið úr málinu og er með yfirlýsingar sem hljóta að kynda undir átökum á vinnumarkaðnum. Inntak kjarasamninganna í febrúar var krónutöluhækkun, ekki prósentuhækkun launa, þannig að þeir fengju mest sem lægst hefðu launin. En nú nokkrum mánuðum síðar virðist þessi jafnlaunastefna gleymd og grafin. Lægst launaða fólkið sem fékk 1.000 kr. meira á mánuði en aðrir í febrúar á nú bara að una því þótt hálaunaaðallinn hjá hinu opinbera hækki um allt að 100.000 kr. á mánuði. Hækkun sem ein og sér jafngildir tveggja mánaða launum tekjulægstu hópanna. Siðferðiskennd þjóðarinnar hefur verið misboðið og hún sættir sig ekki við að ríkisstjórnin ætli bara að láta eins og ekkert sé og treysta á að þetta sé eins og hvert annað dægurmál sem fólkið í landinu gleymi óðar. Það má öllum vera ljóst að sáttmálinn sem gerður var við fólkið í landinu hefur verið rofinn. Það hljóta allir að sjá að úrskurður Kjaradóms er stefnumarkandi en honum ber að hafa hliðsjón af launastefnunni á vinnumarkaðnum, ekki móta hana eins og segir í lögunum. Verði úrskurðurinn látinn standa og sú ákvörðun látin ganga yfir að tugir þúsunda króna gangi til þeirra betur settu hjá hinu opinbera eru dagar þjóðarsátta á enda. Ný kjarastefna hefur orðið til í landinu. Kjarastefna sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á ætli hún að skila auðu í þessu máli. Það eru þá skýr skilaboð til þjóðarinnar frá ríkisstjórninni um að þjóðarbúið þoli launahækkanir sem margir hljóta að fagna. Það er lítilsvirðing við launafólk í landinu og fádæma sjálfumgleði ráðamanna að halda að láglaunafólkið sætti sig við að þjóðarsáttin nái bara til þeirra. Þessi kjaradómur hefur líka enn staðfest þær ógöngur sem lífeyrismál þjóðarinnar eru í. Lífeyrisréttindi ráðherra geta hækkað um 30.000 kr. á mánuði vegna þessa úrskurðar, þannig að hann getur nú numið allt að 200.000 kr. eftir úrskurð Kjaradóms. Þessi 30.000 kr. hækkun á mánuði til ráðherra eftir sex ára starf er ekki óalgeng mánaðargreiðsla lífeyrisþega eftir að hafa greitt í 25 ár í lífeyrissjóð.

Það er skoðun þingflokks Þjóðvaka að forréttindasjóði sem færa hæstu embættismönnum, bankastjórum, alþingismönnum og ráðherrum margfaldan lífeyri á við aðra, beri að leggja niður og munum við flytja um það tillögu á Alþingi. Himinháar lífeyrisgreiðslur til forréttindastétta í þjóðfélaginu sem eru úr öllu samhengi við það sem almennt gerist á vinnumarkaðnum verður að afnema. Hvaða réttlæti er í því að bankastjórar ríkisbankanna fái 350.000 kr. á mánuði í lífeyri eftir fimm ára starf sem bankastjórar meðan algeng lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru um 38.000 kr. eftir 25 ára starf og enn minna í almennu lífeyrissjóðunum?

Góðir áheyrendur. Það er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af því sem er að gerast í íslensku þjóðfélagi. Samhjálp, jöfnuður, samstaða með alþýðu fólks; hinum siðferðilega mælikvarða hugsjónanna hefur verið vikið til hliðar fyrir græðgi og kaldri gróðahyggju þar sem hver er sjálfum sér næstur. Það hefur orðið alvarlegur trúnaðarbrestur milli fólksins í landinu og ráðamanna. Kornið sem nú fyllir mælinn eru allt að 100.000 kr. launahækkanir til æðstu ráðamanna þjóðarinnar og sérlög um skattfríðindi sem Þjóðvaki einn flokka mótmælti í vor og þjóðin einum rómi gerir nú kröfu um að gangi til baka. Á meðan er 1.000 kr. rétt að láglaunafólki í nafni einhverrar láglaunastefnu og jafnlaunastefnu og ráðist með fullum þunga í fjárlagafrumvarpinu að kjörum atvinnulausra, öryrkja og sjúkra. Þarf okkur að undra á því þótt mikil reiðialda hafi gripið um sig í þjóðfélaginu? Skattskráin í ár sýnir að algengar mánaðartekjur ráðamanna í þjóðfélaginu eru á bilinu 400--800 þús. Þessara sömu manna og réttu láglaunafólki svo örlátlega 1.000 kr. aukalega í síðustu kjarasamningum. Kjör láglaunafólks eru í hrópandi ósamræmi við það að Ísland er sett á bekk með ríkustu þjóðum heims. Og hvar er auðurinn? Er hann hjá verkafólki, iðnaðarmönnum, námsmönnum, umönnunarstéttum á spítölum og í skólum, eða verslunar- og skrifstofufólki? Nei, hann liggur hjá þeim sem hafa komið sér vel fyrir í skjóli valdsins, hvort sem eru æðstu embættismenn eða forsvarsmenn atvinnulífsins.

Hæstv. forsrh. staðfesti í ræðu sinni hér áðan að Ísland væri í hópi auðugustu þjóða heims, auðugra en sjálf Bandaríki Norður-Ameríku, sagði forsrh. Það er þyngra en tárum taki að þess skuli ekki sjást stað í kjörum hins almenna launamanns. Þessi auður leitar aðeins í vasa þeirra betur settu í þjóðfélaginu. Kannski eins og vínið og rósirnar sem forsrh. nefndi í samanburðarfræði sinni um lífskjörin.

Það er líka nöturlegt að svo skuli komið hjá einni auðugustu þjóð heims að lág laun séu notuð sem helsta aflið til þess að fá útlendinga til að fjárfesta hér á landi. Það er ekki síst nýsköpun í atvinnumálum og aukin framleiðni atvinnuveganna sem þjóðin þarf á að halda. Íslenskt þjóðfélag lýsir sér í hnotskurn í því að atvinnuleysi hefur aukist. Eftirvinna hefur dregist saman hjá þeim sem hafa vinnu. Kjör hafa versnað hjá lág- og millitekjufólki en batnað hjá hálaunahópunum. Allt of margir þurfa að lifa af launum sem eru við hungurmörk. Fullvinnandi fólk þarf í auknum mæli að leita á náðir félagsmálastofnana. Öryrkjar og atvinnulausir verða sífellt stærri hluti þjóðarinnar. Stöðu þorra launafólks á almennum vinnumarkaði svipar æ meir til þrælahalds nútímans. Landflótti er orðinn vaxandi vandamál. Útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis er orðið að þjóðarböli.

Hvar er vonin? Vonin um öfluga atvinnuuppbyggingu og lífvænleg kjör handa börnum okkar í framtíðinni? Liggur hún í að vinna í frystihúsum í Hirtshals eða slá upp fyrir húsum í Norður-Noregi? Nei, framtíðarsýn okkar er önnur. En til þess verður að ráðast í breytingar. Án breytinga hjakkar allt í sama farinu og sjálfumgleði ráðamanna mun halda áfram.

Góðir áheyrendur. Sjávarútvegur er í ákveðinni kreppu og þar má ekki mikið út af bera. Þjóðvaki vill koma á veiðileyfagjaldi sem renni til þjóðarinnar en ekki örfárra kvótaeigenda eins og nú gerist. Auk þess þarf allur fiskur að fara gegnum fiskmarkaði og rýmka þarf heimildir útlendinga til fjárfestinga í sjávarútvegi. Sömuleiðis er nauðsynlegt að kanna samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs með tilliti til þess gífurlega styrkjakerfis sem sjávarútvegur bæði í ESB-löndunum og Noregi búa við. Þetta eru skynsamlegar tillögur, en stjórnin hefur unnið það eitt í sjávarútvegsmálum að klúðra með óskiljanlegum hætti hagsmunum okkar við rækjuveiðar á Flæmska hattinum.

Landbúnaðarmálin hafa verið í samfelldri vitleysu hjá ríkisstjórninni. Þingmenn Þjóðvaka bentu ítrekað á í vor að útfærsla GATT-samningsins fæli í sér ofurtolla og verið væri að verðleggja innfluttar landbúnaðarvörur út af markaðnum. Slíkt væri bæði fjandsamlegt neytendum, bændum og skattgreiðendum. En allt kom fyrir ekki. Öllu var stjórnað eftir hagsmunum fortíðarinnar.

Nýi búvörusamningurinn er af sama toga. 12 milljarðir eru lagðir á skattgreiðendur næstu árin í sauðfjárrækt eingöngu, sem er sama fjárhæð og kostar að reka alla grunnskóla og framhaldsskóla landsins. Sú stefna sem Þjóðvaki hefur boðað í þessu máli, er stefna sem svarar bæði kröfum neytenda og bænda, enda hafa t.d. sunnlenskir bændur knúið á um svipaðar hugmyndir.

Íhaldssemin er einn helsti þrándur í götu breytinga. Ástæðan er sú að hagsmunir of margra felast í því að viðhalda ríkjandi ástandi. Það er ein meginástæða stöðnunar og kyrrstöðu í þjóðfélaginu og þess, að róttækar og nauðsynlegar þjóðfélagsumbætur ná ekki fram að ganga. Það á við um atvinnulífið svo sem sjávarútveg, landbúnað, erlenda fjárfestingu og aðlögun vegna breytinga í alþjóðlegu umhverfi, svo ekki sé minnst á breytingar á lífeyriskerfinu eða á kjördæmaskipaninni.

Góðir Íslendingar. Því er ekki að leyna að þær skoðanakannanir sem birst hafa að undanförnu um fylgi flokkanna hafa valdið okkur Þjóðvakafólki vonbrigðum. Auðvitað verða þær okkur tilefni til að staldra við og spyrja hvort við höfum ekki svarað þeim væntingum sem kjósendur gerðu til okkar. Til hvers ætlast kjósendur? Við höfum reynt að fylgja málum okkar fram í samræmi við þær áherslur sem við kynntum í kosningabaráttunni. Vissulega er tilvist í stjórnarandstöðu oft erfitt hlutskipti, ekki síst þegar ný samtök eru að hasla sér völl, þá er við því að búast að skiptist á skin og skúrir. Og þó okkur hafi hingað til e.t.v. ekki tekist að komast í gegnum þagnarmúrinn, þá munum við halda áfram því dropinn holar steininn. Við höfum miklu aðhaldshlutverki að gegna og við munum halda áfram að vinna að uppstokkun flokkakerfisins og sameiningu jafnaðarmanna í voldugt bandalag sem breytt gæti valdahlutföllum á Íslandi til frambúðar og það mun takast.

Á umliðnum áratugum hafa verið gerðar nokkrar tilraunir til að umbreyta flokkakerfinu og sameina jafnaðarmenn og félagshyggjufólk í eina breiðfylkingu sem gæti boðið Sjálfstfl. byrginn og tekið forustuna í landsmálum. Krafan um slíkan valkost þar sem kjósendum væri boðið upp á sameinaða jafnaðarmenn og félagshyggjufólk andspænis hinni gömlu, þreyttu hagsmunapólitík Sjálfstfl. og Framsfl. vex fiskur um hrygg þessa dagana og vikurnar. Uppstokkun flokkakerfisins og aukin völd og áhrif kvenna á stjórnmálasviðinu er forsenda nauðsynlegra breytinga í þjóðfélaginu. Það er einfaldlega vegna þess að konur hafa meiri hagsmuni af breytingum og sjá í þeim meiri þjóðfélagsumbætur og breytingar á stöðu sinni í þjóðfélaginu en karlarnir gera. Kvennabaráttan er ógnun við ríkjandi ástand. Fleiri konur í valdastöðum er krafa um breytingar. Fleiri konur í fremstu forustu stjórnmálanna þýðir einfaldlega atlögu gegn ríkjandi ástandi því ég tel að þær muni gera kröfu til breytinga og muni ekki vernda óbreytt ástand.

Góðir Íslendingar. Launastefna sem mótuð var af launafólki árið 1990 var keypt því verði að launafólk tók á sig skatta af atvinnurekstrinum sem ber nú lægstu skatta í Evrópu. Og í síðustu kjarasamningum niðurgreiddi ríkið launin um fjóra milljarða fyrir atvinnurekendur. Þessi láglaunastefna gengur ekki lengur. Hún dregur niður sjálfsvirðingu fólks. Hún er líka orðið efnahagsvandamál þegar fólk getur hvorki keypt vörur né þjónustu atvinnulífsins. Niðurgreiðsla launa og slök kjör geta ekki verið til frambúðar verðið fyrir stöðugleikann því að þannig átti þetta ekki að vera.

Nú er komið að fyrirtækjunum sem mörg hver skila miklum hagnaði og greiða litla skatta að auka sína framleiðni og skila henni í launaumslög fólksins. Væri ekki líka ástæða fyrir verkalýðshreyfinguna að skoða breytingar á skipulagi kjaramála, sameina til að mynda opinbera starfsmenn og launafólk á almennum vinnumarkaði í sama starfsgreinafélag sem síðan yrði lögformlegur aðili um kaup og kjör með vinnustaðinn sem grunneiningu. Koma síðan á atvinnulýðræði þannig að starfsfólk fengi fulltrúa í stjórn fyrirtækja. Og ekki veitir af að hreinsa til í verktakavinnunni þannig að stemmt verði stigu við misnotkun á verktakafyrirkomulagi í þeirri mynd að launafólk sé í reynd skyldað til að gerast verktakar og þar með svipt ýmsum félagslegum réttindum. Sameinaðir þurfa jafnaðarmenn og félagshyggjufólk líka að ráðast gegn tvöfalda launakerfinu á vinnumarkaðnum sem felur í sér sporslur og fríðindi til þeirra betur launuðu, sem heldur niðri kjörum láglauna- og millitekjuhópa. Sameiginlega þurfum við líka að sporna við því, sem íhaldsöflin hér og víðar gæla við, að taka á atvinnuleysinu með því að fara bandarísku leiðina og fjölga lægst launuðu störfunum og hlutastörfunum sem og að draga úr réttindum og kjörum launafólks á vinnumarkaðnum.

Skattamálin verður einnig að taka til gagngerðrar endurskoðunar og lækka tekjuskatt á millitekjuhópum auk þess sem hækka þarf vaxta- og barnabætur og einstæðir foreldrar og tekjulág heimili verða að geta nýtt sér ónýttan persónufslátt barna sinna. Þetta væru raunverulegar kjarabætur sem skiluðu sér til launafólks.

Góðir Íslendingar. Forseti Alþingis sagði nú við setningu þingsins að naprir vindar léku nú um þessa virðulegu stofnun. Herra forseti, það næða líka naprir vindar um mörg heimili landsins þar sem atvinnuleysið hefur knúið dyra og fullvinnandi fólk á ekki fyrir framfærslu barna sinna. Þess vegna hriktir nú í stoðum þjóðfélagsins. Þegar við blasir að jafnlaunastefnan og þjóðarsátt hefur verið brotin á bak aftur af hálaunahópum þjóðfélagsins. Það þarf þjóðarsátt um nýjar leikreglur, þar sem gefið verður upp á nýtt og þjóðarkökunni skipt með öðrum hætti en nú er. Um annað verður aldrei sátt eða friður í landinu. --- Góðar stundir.