Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

Miðvikudaginn 04. október 1995, kl. 21:51:04 (19)

1995-10-04 21:51:04# 120. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)#, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Ríkisstjórnin setti fram í stjórnarsáttmála helstu markmið sem stjórnarflokkarnir voru sammála um að ættu að hafa forgang á þessu kjörtímabili. Hæstv. forsrh. hefur sett fram fyrir okkar hönd á greinargóðan hátt hvað ríkisstjórnin ætlast fyrir. Verkefnalisti ráðuneyta verður gefinn út innan skamms og í gær var lagt fram fjárlagafrv. sem markar tímamót í íslenskum stjórnmálum. Stefnuræðan, verkefnalistinn og fjárlagafrv. bera stefnumálum og framtíðarsýn þeirra flokka, sem að ríkisstjórninni standa, ljóst vitni. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að tryggja framtíð velferðarkerfisins, eflingu menntunar, baráttuna gegn atvinnuleysi ásamt því að létta skuldabyrði heimilanna.

Átak í þessum málum á sér sameiginlegan upphafspunkt, hallalaus fjárlög. Allar aðgerðir ríkisvaldsins eru bæði marklitlar og máttlausar nema hinn fjárhagslegi grunnur sé traustur. Hlutverk stjórnvalda er að sjá til þess að einstaklingum og atvinnulífi séu búin skilyrði til vaxtar og þroska án þess að gengið sé á möguleika komandi kynslóða til velsældar í landinu. Stefnu ríkisstjórnarinnar sem endurspeglast í fjárlagafrv. verður best lýst með því að þar er gengið eins langt og hægt er í þjónustu við þegnana á sama tíma og fullt tillit er tekið til framtíðarhagsmuna. Ríkisstjórnin ætlar sér að ná tökum á ríkisfjármálunum og eyða fjárlagahallanum.

Jöfnuður á ríkissjóði mun leiða til lækkunar raunvaxta og aukinnar fjárfestingar í atvinnulífinu. Þessi fjárfesting er forsenda hagvaxtar og aukinnar atvinnu. Aukinn hagvöxtur og aukin atvinna er forsenda bættrar afkomu heimilanna á komandi árum. Áframhaldandi halli á ríkissjóði leiðir til hærri raunvaxta og mikils samdráttar í fjárfestingum atvinnulífsins. Hagvöxtur minnkar þá og atvinnuleysi eykst. Aukin skuldasöfnun ríkissjóðs leiðir þjóðina inn í vítahring sem erfitt eða ómögulegt verður að brjótast út úr. Komandi kynslóðir þyrftu þá að horfast í augu við vaxandi atvinnuleysi og minnkandi tekjur.

Herra forseti. Sú dökka mynd sem blasir við ef ríkisstjórnin grípur ekki til aðgerða er að halli ríkissjóðs yrði 11 milljarðar 1996 og 16 milljarðar árið 1999. Skuldir ríkisins ykjust um um það bil 70 milljarða á kjörtímabilinu og vaxtagjöldin ein yrðu 18 milljarðar á síðasta ári kjörtímabilsins. Afleiðingar alls þessa yrðu hrikalegar fyrir einstaklinga og atvinnulíf. Raunvextir rjúka upp og hrun yrði í fjárfestingum atvinnulífsins, hagvöxtur lítill sem enginn, tekjur minnka og atvinnuleysi gæti aukist til muna. Vonandi vill enginn bera ábyrgð á slíkri stefnu. Vaxandi atvinnuleysi og tekjumissirinn, sem af því leiðir, orsakar fjöldagjaldþrot og skuldabaggar komandi kynslóða yrðu óbærilegir.

Velferðarkerfið endurspeglar réttlætiskennd þjóðarinnar og þessi sama réttlætiskennd krefst þess að samneyslan í dag verði ekki greidd af börnum okkar á morgun. Aðhald og ábyrgð í ríkisrekstri hafa óhjákvæmilega í för með sér að fjárveitingar til ýmissa mála verða minni en margir hefðu viljað. Þegar skorið er niður rísa upp þrýstihópar um ýmis nauðsynjamál og reyna að tryggja aukinn hlut til þeirra mála sem þeir bera fyrir brjósti. Ef undan verður látið verða göfug markmið að engu og hrunadansinn hefst á ný.

Sá hópur sem ekki heyrist í en á mesta kröfu og réttmætasta eru kynslóðirnir sem erfa eiga landið. Framtíðin á sér fáa málsvara. En nú hvílir sú skylda á stjórnmálamönnum og öðrum sem hafa forræði yfir fjármálum ríkisins og auðlindum þjóðarinnar að gæta betur að sér í ákvörðunum sem nú þarf að taka en varða langa framtíð. Við verðum að taka sameiginlega ábyrgð á framtíðinni.

Herra forseti. Það er rétt að Framsfl. sagði í kosningabaráttunni að það þyrfti að skapa 12.000 störf fyrir aldamót enda er atvinnuleysið ósamrýmanlegt hugmyndum okkar um félagslegt réttlæti. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar verða til þess einar og sér að 9.200 ný störf verða til á almennum vinnumarkaði til aldamóta samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar. Sérstakar aðgerðir og erlend fjárfesting geta skilað einhverjum þúsundum starfa til viðbótar svo að það er líklegt að hægt verði að ná þessu markmiði ef vel og skipulega er unnið. Talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa greinilega enga trú á því að þetta geti gerst og hvetja fólk hér nánast til þess að flytja úr landi, tala um skjaldbökuríkisstjórn. Það er svo skrýtið með skjaldbökuna að hún mun víst geta lifað í ein 200 ár. Það getur ríkisstjórnin ekki. En ég ætla að vona að sú stefna ríki í 200 ár að afstaða gagnvart framtíðinni sé ábyrg og menn hrúgi ekki upp skuldum hvað sem því svo líður að kratar komist í boðað stríð og geti breytt þorski í síld.

Nýr búvörusamningur milli bænda og ríkisstjórnar kemur í veg fyrir hrun byggðarinnar í sveitum landsins sem hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar á alla þjóðfélagsgerðina. Á sama tíma og dregið er úr útgjöldum ríkisins er bændum hjálpað til sjálfsbjargar og þeim gert kleift að framleiða landbúnaðarvörur á hagkvæmari hátt sem tryggir neytendum lægra verð og hvetur til útflutnings. Ríkisstjórnin leggur áherslu á veg hagnýtrar menntunar og rannsókna. Kennslustundum verði fjölgað og skólastarf bætt enda er menntun undirstaða allra framfara. Með traustri menntun í landinu tökum við ábyrga afstöðu gagnvart framtíðinni.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar leiða til aukins kaupmáttar og lægri vaxta sem verður til mikilla hagsbóta fyrir heimilin í landinu. Sérstakar ráðstafanir fyrir fjölskyldur í greiðsluerfiðleikum eru í burðarliðnum eins og Framsfl. lagði áherslu á í kosningabaráttunni, það er rétt og hefur verið rifjað hér upp, og sett var fram í stjórnarsáttmála. Þannig hefur Framsfl. í mjög góðu samkomulagi við hinn stjórnarflokkinn lagt drögin að efndum á þeim atriðum sem bar hæst í kosningabaráttunni, bæði af hálfu Sjálfstfl. og Framsfl.

Herra forseti. Öflug viðskipti Íslands við umheiminn hafa verið ein af meginforsendum velferðar í landinu. Alþjóðasamningar sem við erum aðilar að gefa okkur öll þau sóknarfæri sem við þurfum til að tryggja framhald góðrar lífsafkomu. Sívaxandi alþjóðleg samkeppni leggur mikla ábyrgð á herðar íslensku atvinnulífi, bæði hvað varðar aukna verðmætasköpun og markaðsstarf. Árangur í því starfi skilar sér fljótt í meiri hagvexti og minna atvinnuleysi. Það er sameiginlegt verkefni allra þeira sem starfa að því að tryggja hagsmuni Íslands á erlendum vettvangi að hafa eflingu íslensks atvinnulífs að leiðarljósi og þar með að leggja sitt af mörkum til atvinnuskapandi starfsemi. Það er sá boðskapur sem ég flutti ræðismönnum Íslands á fjölmennri ráðstefnu sem nú stendur yfir hér á landi. Þar verður einnig að koma til virkara samstarf ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja sem að þessum málum koma. Verið er að efla og samhæfa markaðsstarfsemi utanrrn., Útflutningsráðs, Ferðamálaráðs og markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar. Sérstök áhersla verður lögð á að auka þjónustu og tengsl utanrrn. við útflutningsfyrirtækin og beita utanríkisþjónustunni meira á þeim vettvangi.

Í tengslum við opinbera heimsókn forseta Íslands til Kína var í utanrrn. undirbúin vandleg dagskrá fyrir íslenskt viðskiptalíf. Það er mál manna að vel hafi tekist til. Svipuð tækifæri verða notuð í framtíðinni á sama hátt. Það er mikil ástæða til að þakka forseta Íslands fyrir frábæra frammistöðu og góðan málflutning í þessu tilviki sem og öðrum á erlendum vettvangi.

Það er ljóst að auðlindir þær sem við byggjum helst afkomu okkar á eru takmarkaðar. Varðveisla þeirra verður að mótast af framsýni og skynsemi. Liður í því er að gæta réttmætra hagsmuna Íslands við veiðar á alþjóðlegum hafsvæðum. Framtíðarlausn í þeim málum verður einungis fengin með samningum og að því er nú unnið af fullri festu. Úthafsveiðisamningurinn mun þar koma að góðum notum. Þetta er flókið mál sem þarf að taka á af gætni. Við verðum að nýta okkur alla möguleika sem við höfum á alþjóðavettvangi til að tryggja hagsmuni okkar bæði hvað varðar utanríkishagsmuni, viðskipti og öryggismál, enda þessir málaflokkar samofnir. Við eigum margvíslega möguleika og það er engin ástæða til að óttast einangrun.

Mikill órói hefur að undanförnu verið í þjóðfélaginu vegna launahækkana til alþingismanna. Ýmislegt í máli þessu hefur verið heldur klaufalegt en vonandi tekst að finna þá lausn á málum sem er í samræmi við réttlætiskennd okkar sjálfra og þjóðarinnar. Hitt er annað mál að ýmsar spurningar hafa vaknað sem kalla á svör. Stjórnendur fyrirtækja, flestir verkalýðsforingjar, alþingismenn, ráðherrar og fjölmargir aðrir aðilar hafa margföld laun á við þá sem lakast eru settir, það er staðreynd. En hverju er um að kenna að ekki hefur tekist að gera lægstu launin mannsæmandi? Hvernig stendur á því að launamunur er svo mikill sem raun ber vitni? Er það Alþingi að kenna? Hefur verkalýðshreyfingin e.t.v. brugðist? Vilja atvinnurekendur hafa þetta svona? Auðvitað bera allir mikla ábyrgð. En málið er miklu flóknara en margir vilja vera láta. Ég tel að stjórnmálamenn, verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur eigi að setjast niður að ráða ráðum sínum. Ekki til að semja um krónur eða prósentur, heldur til að reyna að finna siðferðilegan grunn sem kjarasamningar framtíðarinnar gætu byggt á. Er t.d. hægt í samfélagi frjálsra samninga að setja einhverjar þær leikreglur sem tryggja aukið réttlæti í launamálum? Geta allir aðilar máls fallist á að einungis verði um fastar krónutöluhækkanir að ræða næstu árin? Það verður erfitt að finna réttu svörin. Það verður meira að segja erfitt að finna réttu spurningarnar en tilraun þarf að gera.

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Framsóknarflokkurinn telur að þessi ríkisstjórn sé á réttri leið og í ríkisfjármálum eru raunar ekki aðrar leiðir færar. Við tökum því fulla ábyrgð á þeirri stefnu sem hér hefur verið kynnt og teljum að með því höfum við framtíðina að leiðarljósi.