Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

Miðvikudaginn 04. október 1995, kl. 22:03:40 (20)

1995-10-04 22:03:40# 120. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)#, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Oft er talað um að ný ríkisstjórn eigi sér sína hveitibrauðsdaga. Hveitibrauðsdagar þessarar ríkisstjórnar sem nú leggur fram sitt fyrsta fjárlagafrv. voru fáir. Sá raunveruleiki sem við blasir gerði það að verkum að strax þurfti að hefjast handa við bústörfin til að forða alvarlegum uppskerubresti. Það sem við mér blasti í heilbr.- og trmrn. var að fjárlög ráðuneytisins voru byggð á sandi og í málaflokkinn vantaði einn milljarð til að endar næðu saman. Þessi blákalda staðreynd kallaði á skjót viðbrögð, viðbrögð sem koma víða niður og eru engan veginn sársaukalaus. Ég hef lagt til að áður boðuðum nýframkvæmdum verði frestað því það er ekki skynsamlegt að byggja ný hús þegar ekki er fé til að reka þá starfsemi sem fyrir er. Sífelldar sumarlokanir deilda koma þungt niður á sjúklingum og lengja biðlista eftir mikilvægum aðgerðum. Þrátt fyrir að þrem milljörðum meira sé áætlað á fjárlögum fyrir árið 1996 en áætlað var fyrir árið 1995 gefur það ekki svigrúm til nýrra framkvæmda þar sem laun hafa hækkað umtalsvert innan málaflokksins. Um heilbrigðis- og tryggingamál hefur lítill friður ríkt af margvíslegum ástæðum. Hér er mikið verk að vinna og ég tel allra mikilvægast að ná sem viðtækastri sátt.

Í upphafi kjörtímabilsins var hörð rimma milli stétta innan heilbrigðisþjónustunnar og þau átök beindust mjög að heilbrrn. Við höfum náð starfsfriði með samningum og samráði við viðkomandi aðila og það er vel. Lyfjaverð hefur lækkað tvo sl. mánuði, bæði hlutur ríkisins, en ekki síður hlutur sjúklinga. Þetta er samvinnuverkefni lækna, lyfsala og ráðuneytis sem tekist hefur vel. Ýmsar aðgerðir sem boðaðar eru með fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar vekja ekki sérstaka hrifningu. En miklar væntingar eru innan heilbrigðisþjónustunnar sem lýsa sér best í því að fyrstu vikur mínar í embætti fékk ég nýjar beiðnir um þjónustu og framkvæmdir upp á 32 nýja milljarða.

Í þeim aðgerðum sem boðaðar eru í fjárlagafrv. er reynt eftir megni að komast hjá að þær bitni á sjúklingum og þjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Gert er ráð fyrir að auka enn samvinnu milli sjúkrahúsa, sérstaklega á Stór-Reykjavíkursvæðinu og auka þannig hagkvæmni. Einnig eru tillögur um að auka samvinnu sjúkrastofnana á landsbyggðinni með einni yfirstjórn í hverju kjördæmi. Sú breyting getur átt sér stað um áramótin 1997 og er þegar hafinn undirbúningur að þeirri vinnu.

Á næstu dögum mun ég kynna áætlun varðandi forvarnir, reglugerð um forvarnasjóð var samþykkt í ríkisstjórn í morgun en um 25--30 millj. verður ráðstafað til sérstakra átaksverkefna. Í heild yrði því varið 50 millj. kr. til áfengis- og vímuefnavarna. Ég tel það mikilvægt því auk þess að forða fjölskyldum og heimilum frá mikilli ógæfu eykur fátt hagvöxt okkar meira en ef okkur tekst að sporna gegn þeirri vá sem áfengis- og vímuefnavandinn er.

Aðrir mikilvægir forvarnaþættir verða teknir föstum tökum. Ég vil sérstaklega nefna mikilvægi þess að auka fjármagn til rannsókna á giktsjúkdómum en afleiðingar þess sjúkdóms kosta samfélagið um átta milljarða króna árlega. Þá verður átak gert til að kynna skaðsemi reykinga og aðstoða fólk sem vill hætta að reykja.

Undanfarið hefur verið mikil umræða um nauðsyn þess að forgangsraða innan heilbrigðisþjónustunnar með markvissum hætti. Ég hef ákveðið að verða við sameiginlegri áskorun læknaráðs Landspítala og Borgarspítala og setja af stað vinnu við að skoða leiðir til markvissrar forgangsröðunar sem sátt geti náðst um í þjóðfélaginu. Einnig er að hefjast vinna við forgangsröðun framkvæmda innan þess málaflokks, enda er ljóst að við erum a.m.k. á sumum sviðum búin að fjárfesta of mikið. Ég stefni að því að leggja framkvæmdaáætlun fyrir Alþingi næsta haust.

Ég hef hér á undan eingöngu rakið þá þætti er varða heilbrigðis- og tryggingamál, en þau taka til sín um 40% af fjárlögum íslenska ríkisins.

Vert er að minna á að þriðji stærsti útgjaldaliður ríkisins á eftir heilbrigðis-, trygginga- og menntamálum er vaxtakostnaður. En það eru 12% fjárlaga, 14 milljarðar kr., sem fara í vaxtagreiðslur. Því er til mikils að vinna að ná niður þeim kostnaði og það kæmi sér vel að eiga þá peninga til frekari þjónustu í heilbrigðismálum. Velferðarkerfið verður ekki rekið með lánum til framtíðar.

Ég geri mér vel grein fyrir því að í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar er margt sem auðvelt er að gagnrýna. Aðalatriðið er að í þessu fjárlagafrv. er ekki ætlunin að íþyngja sjúklingum með nýjum gjöldum á heilsugæslu eða sérfræðiþjónustu heldur verður jafnaður sá munur sem er í dag hjá sjúklingum sem greiða háar upphæðir fyrir sína læknisþjónustu og þeirra sem ekkert greiða. Við munum tryggja að enginn þurfi að hugsa sig um tvisvar til að fá nauðsynlega læknishjálp vegna fjárskorts.

Virðulegi forseti. Ég minntist á hveitibrauðsdaga hér í upphafi. Sá sem tekur lán fyrir hveitibrauðsdögum á ekki mikið öryggi í framtíðinni. Það er staðföst trú mín að með því að koma fjármálum ríkisins á traustan grunn munum við tryggja velferð til framtíðar.