Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

Miðvikudaginn 04. október 1995, kl. 22:10:32 (21)

1995-10-04 22:10:32# 120. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)#, SJS
[prenta uppsett í dálka]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það mun vera svo að Davíð Oddsson forsrh., hafi hér flutt okkur fyrr í kvöld sína sjöundu stefnuræðu á rúmum fjórum árum. Þetta voru tvær ræður árið 1991, síðan ein hvert árið 1992, 1993 og 1994 og nú aftur tvær á þessu ári. Þetta er mikið af stefnuræðum og væntanlega mikið af stefnum.

Af þessu merka tilefni varð ég mér úti um þetta hugverkasafn og er með það hér. Það væri of mikið að segja að ég hafi lesið það mér til gamans en ég lagði það á mig og það var merkilegt fyrir margra hluta sakir, m.a. vegna þess að í gegnum þessar stefnuræður birtist ákveðið ferli, ákveðinn hringur. Þannig er, eins og menn muna, að á árunum 1991, 1992 og að miklu leyti árið 1993 sá hæstv. forsrh. Davíð Oddsson ekki annað en svart. Stefnuræðurnar fjalla að mestu leyti um fortíðarvanda, um sjóðasukk og um Framsóknarflokkinn. Hvað hann sé og hafi verið lengi spilltur og slæmur flokkur. En svo ber svo til í ræðunni 1994 að það birtir skyndilega upp og hæstv. forsrh., sem ekkert hafði séð nema myrkur í mörg ár, sér allt í einu við sjóndeildarhringinn bjarta rönd og hún gengur upp yfir himininn og hæstv. forsrh. talar um efnahagsbata og góðæri í hvers manns ranni. Svo langt var gegnið að í ræðunni um haustið 1994 segir á bls. 4 ef ég man rétt, að nú sé svo komið að öll þjóðin skynji efnahagsbatann nema stjórnarandstaðan. ,,Öll þjóðin skynjar efnahagsbatann,`` sagði hæstv. forsrh. haustið 1994. En þá var orðið stutt í kosningar eins og einhverjir muna. Síðan koma tvær ræður í ár. Í vor og aftur nú. Og þá er svo merkilegt að það er aftur farið að draga úr þessu. Nú er efnahagsbatinn orðinn brothættur. Nú verður hagvöxturinn því miður minni á næsta ári en áður var ætlað. Og nú er atvinnuleysið, sem mikið var talað um að væri á niðurleið fyrir kosningar, því miður vaxandi. Það er að vísu ekki talað mikið um fortíðarvanda enda er forsrh. nú orðið málið skylt. Og það er af einhverjum ástæðum, mér óskiljanlegum, ekkert talað illa um Framsóknarflokkinn í þessum ræðum en að öðru leyti er það alveg ljóst að það er byrjaður nýr hringur hjá hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni. Fingurnir hafa aftur færst upp af hvítu nótunum upp á þær svörtu. Þannig er nú það.

En hvar er svo stefnan í þessari stefnuræðu? Hvar eru úrræðin gagnvart helstu vandamálum líðandi stundar? Hvar er leiðsögn þjóðarinnar í baráttunni við atvinnuleysið? Hún er ekki í stefnuræðunni. Hvar er stefnan varðandi bág lífskjör og vanda heimilanna sem Framsóknarflokkurinn taldi að væri hrunin fyrir kosningar? Ekki orð um það hér í stefnuræðunni. Hvar er til að mynda leiðsögnin í efnahagsmálum varðandi okurvextina? Ekkert um það í stefnuræðunni. Enda er þessi stefnuræða meira og minna innantómt blaður. Það er ekkert slíkt í henni. Og gott dæmi um það er hvernig hæstv. forsrh. afgreiðir þá umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu undanfarið um bág lífskjör og yfirvofandi landflótta. Lítum aðeins á það. Á bls. 4 segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þjóðfélagsumræðan á Íslandi virðist gjarnan vera sveiflukenndari en víðast hvar annars staðar, a.m.k. í nálægum löndum.`` --- Það er nú ekki fullyrt að þetta sé sveiflukenndara heldur en kannski einhvers staðar fjær okkur. --- ,,Stundum er eins og svartnætti grípi þjóðina fyrirvaralítið og þá ekki síst fjölmiðla og dökkna þá flestir litir litrófsins undraskjótt. Það vakti athygli margra er einstakir fjölmiðlar, jafnvel þeir sem vilja láta taka sig alvarlega`` --- jafnvel þeir. Skyldi það vera Morgunblaðið sem vill láta taka sig alvarlega? --- ,,byrjuðu skyndilega að hamra á því að lífskjör Íslendinga væru mjög bágborin í samanburði við aðrar þjóðir og landflótti væri geigvænlegur.``

Morgunblaðið svarar hæstv. forsrh. í dag með frétt um að brottfluttum fjölgi jafnt og þétt og hafi aldrei verið fleiri mánuð eftir mánuð núna síðsumars og í haust. Hátt á þriðja hundrað manns umfram þá sem flytja til landsins fara úr landi á mánuði hverjum. Það er svar Morgunblaðsins. Og með svipuðum hætti afgreiðir hæstv. forsrh. samanburð á lífskjörum hér og í öðrum löndum. Nöldur í fjölmiðlum. Hvað eru fjölmiðlar líka að fjalla um fréttir sem koma sér illa fyrir ríkisstjórnina? Jafnvel ábyrgir fjölmiðlar sem vilja láta taka sig alvarlega. Er þá þessi stefna í stjórnarsáttmálanum? Eru úrræðin þar? Eru efndirnar þar? Nei. Að vísu er gefið mjög snöfurmannlegt loforð á fyrstu blaðsíðu stjórnarsáttmálans. Það er svohljóðandi: Með aðgerðum sínum á kjörtímabilinu hyggst ríkisstjórnin gera landsmönnum kleift að ganga bjartsýnir og með reisn inn í 21. öldina. Þetta er myndarlegt loforð. Að vísu er ekkert sagt hvernig á að standa við það. Manni dettur í hug að þarna hafi Framsóknarflokkurinn loksins náð að koma marki sínu á stjórnarsáttmálann og þetta hafi hrotið niður á blaðið áður en kosningaloforðaæðið var runnið af Framsóknarflokknum í vor. Loforðið um að landsmenn geti gengið uppréttir inn í 21. öldina er eina loforðið sem eitthvað munar um í þessu plaggi og eiginlega það eina bitastæða.

Herra forseti. Hvar er Framsóknarflokkurinn? Ég lýsi eftir Framsóknarflokknum. Hann fór að heiman frá sér daginn eftir stjórnarmyndun klæddur í gráan selskinnsjakka og hefur ekki sést síðan. Hvar eru efndirnar á kosningaloforðum Framsóknarflokksins? Hvar eru hrikalegustu, myndarlegustu, stórtækustu kosningaloforðin sem gefin hafa verið, sennilega á öldinni? Við þekkjum þetta, góðir þingmenn, en það sakar ekki að minna á hvernig þetta var. Brýnustu verkefni stjórnmálanna fram til aldamóta, atvinna fyrir alla, og hvað var sagt? Það var sagt: Við munum. Þar eru engir fyrirvarar. Við munum skapa 12.000 ný störf. Er það upphafið að efndunum, hæstv. utanríkisráðherra, að fækka þeim með niðurskurði á fjárlögum um 1.000? Á að fjölga störfunum með því að byrja á því að fækka þeim? Það er út af fyrir sig hugmyndafræði. Hvað var sagt um húsnæðismálin? Hvar eru efndir framsóknarmanna á húsnæðismálunum? Endurreisn heimilanna, það var hvorki meira né minna sem Framsókn lofaði. Við munum, var sagt fyrir kosningar, setja lög um greiðsluaðlögun, við munum grípa til víðtækra skuldbreytinga sem fela í sér að vöxtum og/eða lánstíma sé breytt, og takið nú eftir, skuld sé lækkuð eða fryst. Framsóknarflokkurinn gaf fólkinu í landinu jafnvel fyrirheit um niðurfellingu skulda í húsnæðiskerfinu. Hvar eru efndirnar? Hefur einhver fengið lánin sín lækkuð nýlega? Ég bið þá að gefa sig fram við mig á skrifstofu minni eða hringja í mig næstu daga.

Herra forseti. Það er ekki svo mikið sem fyrirheit um efndir í stefnuræðu forsrh., í stjórnarsáttmálanum eða fjárlögunum. Það eina sem hæstv. félmrh., Páli Péturssyni hefur dottið í hug, hvort sem það snjallræði kom yfir hann í göngum á Auðkúluheiði eða annars staðar er að lengja í húsbréfalánunum hennar Jóhönnu. Lengja í hengingarólinni. Það er það sem er á döfinni fyrir utan það að einhverjir nýir þingmenn hjá Framsókn hafa verið settir í nefndir. Það breytir ekki stöðu fólks varðandi vanskil á húsnæðislánum þó ágætir þingmenn fari í nefndir. (Gripið fram í: Þeir hafa þá komið fram.)

Nei, herra forseti, að svo miklu leyti sem um stefnu er að ræða er hún hér í fjárlagafrumvarpinu. Þetta eru samdráttar-, niðurskurðar- og afturhaldsfjárlög. Þetta eru hefðbundin kyrrstöðuafturhaldsfjárlög helmingaskiptaríkisstjórnar. Ef það er eitthvað sem þessi ríkisstjórn er um þá er hún um óbreytt ástand á Íslandi. Þá er hún um stöðnun, uppgjöf gagnvart atvinnuleysinu og þeim erfiðleikum sem hér hefur verið við að glíma. Það vottar ekki fyrir framsækinni stefnumótun, tillögugerð eða fjárveitingum í nokkru tilliti sem eru til þess fallin að taka á vandamálum íslensku þjóðarinnar. Kveðjurnar sem ýmsir fá í þessu frumvarpi eru líka athyglisverðar eins og aldraðir, öryrkjar og atvinnulausir sem hafa um langt árabil búið við þá tryggingu að bætur þeirra eða lífeyrir fylgja launaþróun í landinu. Nú boðar hæstv. forsrh. að einhver von sé um að kaupmáttur aukist, laun hækki. Hvað er þá gert? Þá á að taka þessa tryggingu úr sambandi og skerða þennan lífeyri. Þar hefur ríkisstjórnin fundið hóp sem hún getur þjarmað að. Ég, herra forseti, hvet til víðtækrar samstöðu í þjóðfélaginu gegn þessari ríkisstjórn. Róttæk stjórnmálaöfl, verkalýðshreyfingin, samtök aldraðra, samtök öryrkja og önnur félagsmálasamtök, sem bera hag almennings fyrir brjósti, eiga að berjast gegn þessari stefnu. Við eigum að sýna ríkisstjórninni að við viljum ekki að fólk þurfi að kaupa sig inn á sjúkrahúsin. Það er ekki stefna sem við viljum hafa á Íslandi. Við sættum okkur ekki við uppgjöf gegn atvinnuleysinu, bág lífskjör og landsflótta. Það sem þarf að koma til er uppbyggingarstefnan, er sóknarstefnan og það þarf að telja kjark í fólkið í landinu til þess að takast á við þessi vandamál en spila ekki á svörtu nóturnar eins og hæstv. forsrh. vill nú gera. Fyrir þessu mun Alþb. berjast af fullum krafti á næstu mánuðum og ég skora á ykkur sem flest að ganga í lið með okkur. Ísland er ríkt land og Ísland er gott land. Við höfum alla möguleika á því að halda áfram að byggja upp og þróa það velmegunar- og velferðarsamfélag sem við viljum sjá hér í landinu. Herra forseti, það er að mínu mati aðeins spurning um tíma hvenær skapast á nýjan leik pólitískar forsendur til þess á Íslandi að halda slíku starfi áfram.