Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

Miðvikudaginn 04. október 1995, kl. 22:22:09 (22)

1995-10-04 22:22:09# 120. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)#, MF
[prenta uppsett í dálka]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Við höfum fengið að heyra stefnu ríkisstjórnarinnar hér í kvöld. Ræða hæstv. forsrh. var tiltölulega hugljúf og margt í henni sem hægt er að taka undir. Hún var vel flutt, fas hæstv. forsrh. og viðmót orðið nokkuð agað, jafnvel hlýlegt á köflum. En ræðan sjálf var hins vegar ekki merkileg og sagði svo sem ekki mikið um stefnu ríkisstjórnarinnar. Í henni voru engin markverð nýmæli og lítil framtíðarsýn. Satt að segja lýsti hún metnaðarlausri ríkisstjórn sem virðist hafa stöðnun að leiðarljósi. En það var vissulega gott að heyra forsrh. enn og aftur boða að stefnt sé að hallalausum fjárlögum. Um það markmið geta allir verið sammála. En við skulum minnast þess að þetta er fimmta árið í röð sem sami hæstv. forsrh. boðar að ríkissjóður verði rekinn hallalaus innan tíðar. Lái mér hver sem vill fyrir að taka hæfilega mikið mark á boðskap forsrh. Þrátt fyrir slæma reynslu verður hann samt sjálfur borubrattari með hverju árinu sem líður, með hverri nýrri stefnuræðunni sem flutt er. En sagði hann ekki hér áðan orðrétt, með leyfi forseta: ,,Á næsta ári munu heildarútgjöld ríkissjóðs lækka nokkuð að raungildi og hlutfall útgjalda af landsframleiðslunni mun lækka umtalsvert og ekki hafa verið lægra í átta ár. Þetta er mikill árangur.`` Þetta er mikill árangur, sagði hæstv. forsrh. rétt eins og tölurnar í frumvarpi til fjárlaga væru niðurstöðutölur úr ríkisreikningi. Mér þykir rétt að minna hann á að ekki er um neinn árangur að ræða enn þá nema ef vera skyldi það þrekvirki að hafa sett þessa áætlun á blað og boða hana hér. Hingað til hafa áform hæstv. forsrh. í ríkisfjármálum brugðist og þess vegna finnst mér hann fullfljótur á sér að fullyrða að árangur hafi nú þegar náðst. En eins og ég sagði var fátt bitastætt í ræðunni og lítið um nýmæli eða ferska hugsun enda líklega til of mikils mælst að búast við frískleika af þessari hæstv. ríkisstjórn.

Enn einu sinni eru málefni orkufreks iðnaðar á dagskrá. Og einu sinni enn er sagt að vaxtarbroddur í atvinnulífinu felist í litlum eða meðalstórum fyrirtækjum. Þangað sé flest ný störf að sækja og mesta verðmætasköpun. Undir þessi orð er hægt að taka og vonandi reynast þau sannari nú en oft áður. Það hefur áður verið stefna stjórnvalda og þar með síðustu ríkisstjórnar sem hæstv. forsrh. leiddi einnig að auka veg lítilla og meðalstórra fyrirtækja, ekki síst í fiskvinnslu. Nýir markaðir hefðu opnast og möguleikar okkar til að nýta þá áttu að aukast. Staðreyndin er hins vegar sú að þrátt fyrir yfirlýsta stefnu stjórnvalda hafa möguleikar til að koma slíkum rekstri á fót ekki aukist. Aðgangur er t.d. mjög takmarkaður að áhættufjármagni. Sá sem ætlar í nýjan atvinnurekstur verður að eiga veð í steinsteypu, eiga kvóta eða ríka ættingja sem geta lánað til þess að fá þá fyrirgreiðslu sem að þarf til að koma rekstrinum af stað. Í þessum efnum hafa ríkisbankarnir ekki fylgt yfirlýstri stefnu stjórnvalda. Ég hef reyndar verið hugsi yfir því hvert markmiðið er með því að reka tvær bankastofnanir með sérstökum stuðningi ríkisins ef þær eru á engan hátt bundnar af því að styðja stefnu stjórnvalda. Velta má fyrir sér hvort ekki verði réttara að reka hér aðeins einn öflugan ríkisbanka sem fylgir stefnu stjórnvalda hverju sinni og að ríkið einbeiti sér frekar að nýsköpun í atvinnulífinu, t.d. með því að stofna öflugan áhættulánasjóð atvinnulífsins sem verulega er þörf fyrir ef takast á að endurreisa atvinnulífið og útrýma því mikla atvinnuleysi sem við búum við. Því miður er ekkert í stefnu ríkisstjórnarinnar sem bendir til þess að á atvinnuleysinu verði tekið, þvert á móti. Eflaust eru margir þeirra sem nú eru án vinnu og jafnvel á leið úr landi að hugsa til þess að ákveðinn og metnaðarfullur Framsóknarflokkur talaði fyrir kosningar um 12.000 störf og boðaði stefnu þar sem fólk væri í fyrirrúmi. En þessi sami flokkur er nú metnaðarlaus og bíður upp á sömu gömlu úrlausnirnar sem þýða í raun að þeir sem minnst hafa verða að bera meira. Hæstv. forsrh. sagði reyndar að það þyrfti ekki að fara mörgum orðum um þetta landflóttatal. Landflóttinn væri að stærstum hluta tilbúningur fjölmiðla. Því til staðfestingar sagði hann orðrétt, með leyfi forseta, að óyggjandi tölur liggi fyrir um það atriði og sýna þær að oft áður hafa fleiri flutt af landi brott umfram þá sem hingað flytja en gerst hefur upp á síðkastið. Því fer ekki á milli mála að meintur landflótti er ýktur stórlega, sagði hæstv. forsrh. Þetta er merkileg fullyrðing og fróðleg. Ég hvet hæstv. forsrh. að skoða tölur sínar vel því að þær ættu að hringja varúðarbjöllum í huga hans. Það er rétt að landflóttinn hefur verið svipaður þrisvar áður. Fyrst árin 1969 og 1970 á síðustu árum viðreisnarstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn fór fyrir, næst árin 1976 og 1977 þegar að hér ríkti stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar undir forustu Sjálfstæðisflokksins og loks árið 1989 eftir að samstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar- og Alþýðuflokks hafði sett atvinnulífið í rúst og hrökklast frá. Þetta er afrekalistinn sem hæstv. forsrh. minnti á og ætti að vera honum til varnaðar í stað afsökunar. Ég get ekki betur séð en að á bresti landflótti þegar að Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með forustu í ríkisstjórn í einhvern tíma. Varla er það afleiðing af góðri stjórn efnahagsmála.

Virðulegi forseti. Það sem mér fannst merkilegast í ræðu hæstv. forsrh. áðan var það sem hann sagði ekki. Tóku menn t.d. eftir því að hann nefndi varla á nafn verkefni tveggja ráðuneyta sem fara þó með tvo mjög stóra og mikilvæga málaflokka, þ.e. heilbr.- og félmrn. Það var ekkert um úrlausnir í húsnæðismálum, ekkert um skuldastöðu heimilanna, ekkert um jafnréttismál, ekkert um málefni fatlaðra, aldraðra eða öryrkja, ekki orð um stefnuna í heilbrigðismálum eða um almannatryggingakerfið. Vissulega kom ein setning um það markmið að bæta lífskjör allra heimila í landinu, að kaupmáttur ráðstöfunartekna mundi aukast nokkuð á þessu ári og því næsta. Það er rétt að halda þessu til haga. En hvað segja þessi orð um það hvers við megum vænta? Nánast ekki neitt. Frumvarpið til fjárlaga, sem lagt var fram í gær, segir okkur hins vegar meira um þessi mál enda birtist þar hin raunverulega stefna ríkisstjórnarinnar. Þar sjáum við að ef kaupmáttur lægstu launa hækkar mun sú hækkun að einhverju leyti hverfa í greiðslu fyrir þjónustu til heilbrigðisstofnana. Það á enn að skera niður framlög heilbrigðisstofnana stefnulaust. Ekki er búið að skilgreina hlutverk hverrar stofnunar fyrir sig og taka ákvörðun samkvæmt því um það hvers konar þjónustu hver stofnun á að veita. Heildarstefna til einhverra ára hefur ekki verið sett, enn er skorið niður af handahófi og flatt sem engum árangri mun skila til lengri tíma litið, aðeins skaða þessar stofnanir og þá þjónustu sem þær veita. Eina stefnumið á þessu sviði sem sjáanlegt er í frumvarpi til fjárlaga fyrir utan það að auka þjónustugjöldin er ætlun ríkisstjórnarinnar að einkavæða sérhæfðar deildir sjúkrahúsanna. Að dómi ríkisstjórnarinnar virðist það ekki vera samfélagslegt verkefni að bjóða sérhæfða læknishjálp á sjúkrahúsum landsins. Þetta er ný hugsun að ,,há-effa`` sjúkrahúsin svo að ég noti nú málfar sumra framsóknarmanna og dæmi hver fyrir sig um ágæti hennar. Það er engu líkara en að hæstv. heilbrrh. hafi gengið í björg þeirra sjálfstæðismanna og ég verð að viðurkenna að ég sakna hennar úr okkar hópi.

Frv. sýnir að það á að skerða bótagreiðslur elli- og örorkulífeyrisþega og ef ríkisstjórnin fær að ráða skulu þær ekki lengur fylgja almennum launabreytingum. Þessi skerðing kemur til viðbótar annarri skerðingu sem gerð var á styrkjum til þessa hóps með nýlegri reglugerð.

Það er ekki verið að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur og ég spyr því hvaða fólk eigi að vera í fyrirrúmi að dómi þeirra framsóknarmanna. Ég hef í höndum fjöldamörg bréf frá öryrkjum þar sem þeir lýsa fjárhagsstöðu sinni og þeirri tekjuskerðingu og útgjaldaaukningu sem þeir hafa orðið fyrir á undanförnum árum. Lífsafkoma þessa fólks er erfið og það sama má segja um stóran hóp aldraðra sem einnig fá að kenna á hnífnum og hugmyndir eru um að hækka aldursmark þeirra sem njóta afsláttar á lyfjakostnaði og læknishjálp. Aukin gjaldtaka fyrir innlagnir á sjúkrahús og fyrir einstakar aðgerðir mun bitna af fullum þunga á þessum hópum sem og öðrum sem búa við lág laun í þjóðfélaginu. Á þessa hópa og aðgerðir sem bitna á þeim var ekki minnst í ræðu hæstv. forsrh.

Ég sagði áðan að stefna ríkisstjórnarinnar væri hugmyndalaus. Það er hún reyndar ekki. Það þarf alveg sérstakt hugmyndaflug og reyndar sérstakt hugarfar til að finna sífellt nýjar leiðir til að taka frá þeim sem minnst hafa og það virðist ríkisstjórnin hafa gert ef marka má frv. til fjárlaga því að þar kemur hin raunverulega stefna fram.

Á skuldastöðu heimilanna var heldur ekki minnst í ræðu hæstv. forsrh. Var það mál þó oft á dagskrá að mig minnir hjá öðrum stjórnarflokknum á síðasta kjörtímabili og í kosningum í vor en þá hafði Framsfl. stefnu.

Virðulegi forseti. Þessi umræða snýst um stefnu eða stefnuleysi ríkisstjórnarinnar. Ég segi ekki að það hafi verið miklar væntingar gerðar til hennar. En ég átti þó von á að hér birtust einhver úrræði varðandi vaxandi atvinnuleysi og versnandi afkomu þeirra sem lægst hafa launin, að tekið yrði með einhverjum hætti á misskiptingu tekna í þjóðfélaginu og misrétti kynja á því sviði. Þessi von beindist skiljanlega ekki að Sjálfstfl. en miðað við málflutning framsóknarmanna sl. fjögur ár og í kosningabaráttunni gerði ég mér nokkrar vonir um breytingar. Ræða forsrh. gerði þessar vonir að engu. Hann staðfesti þó í ræðu sinni að nóg væri til skiptanna. Hér væru lífskjör yfir meðaltali annarra iðnríkja og Ísland sjöunda auðugasta ríki heims, auðugra en sjálf Bandaríki Norður-Ameríku, fyrirmyndin sjálf. Meðaltölin segja ekki alla söguna hér frekar en í Bandaríkjunum. Þessar upplýsingar staðfesta, og það ætti ríkisstjórnin að hafa í huga, að hér á landi ríkir ójöfnuður sem brýnt er að lagfæra. Á það minntist hæstv. forsrh. hins vegar ekki. Alþb. er sammála því markmiði að ná fram hallalausum ríkisrekstri. Við erum hins vegar ósátt við þá leið sem ríkisstjórnin hefur valið að þessu marki, ósátt við þann ójöfnuð sem hér ríkir, ósátt við atvinnuleysið, ósátt við stefnuleysið. Við munum leggja okkar tillögur fram, tillögur sem miða að jöfnuði og réttlæti í þjóðfélaginu. --- Ég þakka fyrir áheyrnina.