Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

Miðvikudaginn 04. október 1995, kl. 22:47:59 (24)

1995-10-04 22:47:59# 120. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)#, KH
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti, góðir áheyrendur. Stefnuræða forsrh. einkenndist sannarlega ekki af neinu neistaflugi og skapaði ekki þá tiltrú að nú mundi sköpum skipt í þjóðfélaginu. Hún var á hefðbundnum nótum, eins konar hanastél hefðbundinna hátta. Uppskriftin er: Drjúgur kafli um efnahagsmál, dálítið um atvinnumál og loks viðskipti við umheiminn. Hanastél þetta var svo eins og önnur hanastél kryddað af skvettu af hinu og þessu, örfáum orðum um umhverfismál og nokkuð mörgum reyndar um menntamál sem var bragðmesti kaflinn. Það var lítið annað nýstárlegt í þessu hanastéli nema ef vera skyldi ergelsi vegna umfjöllunar fjölmiðla um lagasetningu alþingismanna á sl. vori um sérstök kjör sér til handa, lagasetningu sem hlaut að kalla á hörð viðbrögð í þjóðfélaginu. Orð utanrrh. um sama efni hér áðan voru ólíkt skynsamlegri. Hitt er svo hárrétt hjá hæstv. forsrh. að þessi umfjöllun mun líklega ekki hafa mikil áhrif til lengdar. Kjósendur eru ekki alltaf sjálfum sér samkvæmir og þeir munu sjálfsagt standa með sínum mönnum þegar til kastanna kemur. Samkvæmt skoðanakönnunum síðustu vikna virðast þeir helst vilja refsa þeim sem stóðu gegn stærstu vitleysunni í þessari umdeildu lagasetningu.

Ég saknaði margs úr umfjöllun forsrh. um atvinnumál sem einkum snerust um hefðbundnar greinar, fiskveiðar sem eru auðvitað aðeins einn þáttur sjávarútvegs, landbúnað og stóriðju sem er enn og aftur draumaverkefni ráðamanna. En hann minntist t.d. ekki einu orði á ferðaþjónustu, þá atvinnugrein sem hefur sýnt mesta grósku á undanförnum árum og á samt enn mikla möguleika til áframhaldandi sköpunar starfa og öflunar dýrmæts gjaldeyris sem ekki veitir nú af þegar fiskunum fækkar í sjónum. Af fróðleiksfúsum ferðamönnum er hins vegar nóg í heiminum. Hér á Íslandi höfum við margt að bjóða sem önnur lönd hafa ekki. Við þurfum að móta framtíðarstefnu í ferðamálum og taka þar mið af þeirri staðreynd að jarðhitinn og sérstakt umhverfið, hreint loft og tært vatn eru ómetanlegar auðlindir í heimi sívaxandi mengunar. Við gætum jafnvel auglýst landið okkar sem öndunarvél umheimsins ef rétt væri á málum haldið. Náttúran og varðveisla umhverfis er forsenda áframhaldandi grósku í ferðaþjónustu og fleiri greinum. Því miður bendir fátt til þess að ríkisstjórnin geri sér fulla grein fyrir ábyrgð ríkisvaldins í þessu efni en kvennalistakonur munu áfram sem hingað til reyna að vinna þessari grein það gagn sem þær mega.

Nú er vitaskuld ekki hægt að grípa á öllum málum í einni ræðu sem takmarkast af tilsettum tíma. En stefna ríkisstjórnarinnar birtist víðar en í stefnuræðu forsrh. eins og margsinnis hefur komið fram í kvöld. Hún birtist ekki síst í fjárlagafrumvarpinu sem okkur barst í hendur fyrst í gær. Frá sjónarhóli kvenna er sú stefna lítið fagnaðarefni. Þar er það staðfest svart á hvítu að ekki er ætlun ráðherranna að gera neitt stórátak til eflingar mannréttindum kvenna. Ég kalla það ekki stórátak þótt þar sé nefnt í greinargerð að fjrmh. ætli að taka jafnrétti karla og kvenna í kjaramálum til sérstakrar skoðunar án þess að það sé skýrt frekar á nokkurn hátt. Augljóslega er áfram saumað að ýmsum þáttum velferðar sem skipta konur afar miklu máli. Ljóst er að fram undan eru átök um áherslur þar sem brýnt er að gæta hagsmuna láglaunafólks, einstæðra foreldra, aldraðra, öryrkja, atvinnulausra og annarra sem bera skarðan hlut frá borði. Ég ætla þó að leyfa mér að gleðjast yfir því hér og nú að í fjárlagafrumvarpinu er að finna örlítinn vott þess að baráttan fyrir bættri meðferð fórnarlamba nauðgara skilar smám saman árangri. Í því er sem sagt lagt til að ákveðinni upphæð verði varið til að kosta lögfræðiþjónustu við neyðarþjónustu vegna nauðgana. Smátt en mjög mikilvægt atriði. Þannig eru hægt og bítandi að komast í framkvæmd hinar ýmsu tillögur nefndar sem skipuð var fyrir 11 árum að frumkvæði Kvennalistans til að gera tillögur að úrbótum í þessum efnum. Hitt er sárara að fá það staðfest sem fréttist fyrir nokkrum dögum að ríkisstjórnin vill fresta gildistöku laga um bótagreiðslur ríkisins til þolenda afbrota. Þessi lög sem eiga að taka gildi 1. jan. nk. og ná jafnframt til brota sem framin voru eftir 1. jan. 1993 eru sem björgunarhringur fyrir þá sem verða fyrir tjóni af mannavöldum en slíkt tjón er jafnan örðugt að fá bætt úr hendi afbrotamannsins. Þessi lagasetning er því mikilvæg réttarbót fyrir þolendur ofbeldisbrota og fyrirætlun ríkisstjórnarinnar um frestun er eins og enn eitt hnefahöggið framan í það fólk.

Við munum ræða fjárlagafrumvarpið nánar næstu daga. Í þeim umræðum mun ég m.a. krefjast svara um þetta mál og þá enn fremur um áhrif frestunar á afturvirkni laganna ef af frestun verður sem Kvennalistinn mun beita sér gegn eftir mætti.

Virðulegi forseti. Þögn forsrh. um mannréttindi kvenna í þessari stefnuræðu er vægast sagt æpandi. Konur í öllum flokkum og á öllum sviðum þjóðlífsins kalla eftir skilningi, viðurkenningu og aðgerðum. En forsrh. landsins heyrir ekki þótt hátt sé kallað. Formaður stærsta flokks landsins heyrir ekki og hann sér eitthvað illa líka. Hann virðist að minnsta kosti ekki hafa séð opið bréf formanns jafnréttis- og fjölskyldunefndar Sjálfstæðisflokksins sem birtist í Morgunblaðinu fyrir nokkrum vikum en þar var lýst eftir viðhorfum formannsins til jafnréttis. Því hefur ekki enn verið svarað og því var ekki svarað í stefnuræðunni. Þannig mega konur þessa lands enn einu sinni kyngja vonbrigðum sínum. Þrátt fyrir vaxandi umfjöllun um mannréttindi kvenna um rétt þeirra til sambærilegra launa og aðstæðna á við karla um aðgerðir gegn ofbeldi, um nauðsyn þess að auka áhrif og völd kvenna sér forsrh. ekki ástæðu til að víkja að þessum málum einu orði í stefnuræðu sinni nú fremur en fyrr. Og maður spyr sig: lásu hinir ráðherrarnir ekki stefnuræðuna? Þeir eru þó alltént búnir að heyra hana nú. Eru þeir virkilega sammála þessum áherslum? Hvað með ráðherra jafnréttismála? Og er eina konan sem titluð er herra svo önnum kafin í skurðstofu heilbrigðisráðuneytisins að hún hefur ekki tíma til að minna oddvita sinn á kvennabaráttuna? Reyndar hlýt ég að gera þá játningu að ég átti ekki von á miklu. Ég átti ekki von á öðru en að núverandi ráðherrar myndu bíða aðgerðarlitlir eftir hugarfarsbreytingunni sem þeir uppgötvuðu fyrir nokkrum vikum að þjóðin þyrfti á að halda. Stefna stjórnvalda í þessum málum mun ekki breytast fyrr en konur koma að stjórn landsins. Ekki bara ein og ein, heldur margar saman. Raunverulegur árangur næst ekki fyrr en konur halda um stjórnvölinn. Það er nákvæmlega reynsla annarra þjóða sem náð hafa lengra en við í því að jafna stöðu kynjanna og við höfum einnig glöggt dæmi þess hér í næsta húsi þar sem konur taka til hendinni við stjórn borgarinnar. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.