Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

Miðvikudaginn 04. október 1995, kl. 23:03:15 (27)

1995-10-04 23:03:15# 120. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)#, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það hefur um margt verið athyglisvert að hlýða á málflutning stjórnarandstöðunnar í gær eftir að fjárlagafrv. kom fram og hér í umræðunni í kvöld. Í gær sögðu þeir um fjárlagafrv. að þeir væru sammála meginstefnunni. Ágreiningurinn var nú ekki meiri en sá að þeir voru sammála meginstefnunni. En þeir belgdu sig þessi lifandis ósköp þegar þeir fóru að telja þjóðinni trú um að þeir hefðu bara viljað ná markmiðunum með öðrum hætti. Hvað sögðu þeir í því efni? Jú, þeir voru á móti því að skera svona mikið niður í fjárfestingu. Þeir vildu skera meira niður í rekstri. Hvers vegna? Vegna þess að þannig fækkaði störfunum ekki eins mikið.

Hvernig á nú að skilja þessi orð? Vita þeir ekki, talsmenn stjórnarandstöðunnar, að á bak við framlög til skólamála eru störf kennara? Á bak við framlög til lögreglunnar eru störf lögreglumanna og á bak við framlög til sjúkrahúsanna eru störf lækna og hjúkrunarfræðinga. Ég held satt best að segja að þeir viti þetta og þeir viti meira en þeir láta í veðri vaka um þessi efni. En hvernig á þá að skilja þessi ummæli? Vilja þeir fækka þessum störfum? Vilja þeir fækka læknum og hjúkrunarfræðingum? Vilja þeir fækka kennurum og lögreglumönnum? Er það hin nýja stefna hv. þm. Ögmundar Jónassonar að skera niður útgjöld á þessum mikilvægu þjónustusviðum? Ég held satt best að segja að það sé heldur ekki stefna þeirra.

Þá hlýtur maður að koma að þeirri spurningu: Hver er stefnan eftir allar þessar upphrópanir? Hæstv. heilbrrh. markaði þá skýru og skynsömu stefnu við mótun fjárlaganna í sumar að stöðva fjárfestingar á sviði heilbrigðismála til þess að þurfa ekki að skera jafnmikið niður í rekstri og tilfærslum til trygginganna. Ef maður hefði skilið málflutning stjórnarandstöðunnar í gær rétt var boðskapur þeirra sá: Byggið þið fleiri sjúkrahús. Skerið þið meira niður af framlögum til sjúkrahúsanna og tryggingabótanna. En þeir meintu þetta ekki enda komu þeir hér hver á fætur öðrum í dag og sögðu: Við erum alveg hneykslaðir niður í tær, að þið skuluð vera að skera niður í heilbrigðiskerfinu og á ýmsum öðrum sviðum í ríkisrekstrinum þó að sá niðurskurður hefði orðið miklu meiri ef farið hefði verið að óskum þeirra í gær að eyða meiru í fjárfestingu og skera meira niður í rekstri. Hvaða ályktanir getur maður dregið af þessum málflutningi? Ég get ekki dregið af honum aðrar ályktanir en þær að á bak við hann er engin hugsun, á bak við hann er engin stefnumörkun. Þetta er botnlaus málflutningur og marklaus með öllu. Það er auðvitað grátlegt fyrir þá þrjá krataflokka sem skipa sér hér í stjórnarandstöðu með Kvennalista.

En hver er nú árangurinn af þeirri ríkisfjármálastefnu sem mótuð hefur verið? Hann kom fram strax í dag. Vextir af skammtímabréfum ríkissjóðs lækkuðu um 0,5% vegna þess að ríkisstjórnin náði við framlagningu þessa fjárlagafrv. þeim markmiðum sem sett voru. En svartagallsraus talsmanna krataflokkanna og Kvennalistans heldur hér áfram. Þeir sjá engan árangur. En þessi árangur kom fram strax í dag.

Þannig er um málflutning stjórnarandstöðufokkanna á öllum öðrum sviðum. Það hefur verið eins og rauður þráður í gegnum ræður þeirra. Stöðnun, stöðnuð ríkisstjórn, stöðnun í þjóðlífinu, stöðnun í atvinnulífinu. En hvað segja nú þeir mælilkvarðar sem segja okkur nokkuð til um það hvort þjóðfélagið er í stöðnun eða framför?

Hver er hagvöxturinn í þjóðfélaginu? Er hann ekki að aukast um meira en 3% á þessu ári? Er það stöðnun? Hver hefur verið aukning kaupmáttar ráðstöfunartekna á mann? Er það ekki um rúmlega 3%, lítið eitt meira en hagvöxturinn? Er það stöðnun? Hver er fjárfesting atvinnuveganna? Hefur hún ekki verið að aukast um 13% á þessu ári og eru ekki horfur á að hún muni aukast á næsta ári um 10%? Er það stöðnun? Nei, atvinnulífið á Íslandi er í sókn. Auðvitað getum við gert betur og auðvitað þurfum við að gera betur. En þeir sem ganga svo á svig við raunveruleikann í íslensku þjóðfélagi eru staðnaðir sjálfir. Þeir sem tala eins og hv. talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa gert um fjárlagafrv. eru staðnaðir.

Þessir þrír flokkar hafa verið að tala um það í 50 ár að ég held að þeir sameinast. Þeir héldu sameiningarfund í sumar og hver varð niðurstaðan af honum? Þeir fundu ekkert mál til að sameinast um. Er nokkuð annað dæmi betra um pólitíska stöðnun en málflutningur þessara þriggja krataflokka og Kvennalistans? Ég held ekki. Íslenskt þjóðfélag er hins vegar í framför og sókn. Skilaboðin frá iðnaðinum í dag voru gróska, meiri vöxtur en áður. Staðan í sjávarútveginum er hagnaður þrátt fyrir minni afla, sókn á erlenda markaði. Það eru framfarir í íslensku þjóðlífi hvað sem um svartsýni og stöðnun stjórnarandstöðunnar er að segja.