Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

Miðvikudaginn 04. október 1995, kl. 23:08:45 (28)

1995-10-04 23:08:45# 120. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)#, SvanJ
[prenta uppsett í dálka]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Ágætu tilheyrendur. 21. sept. sl. birtist viðtal við einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar í vikublaði hér í bæ þar sem mynd af ráðherranum prýddi forsíðu undir fyrirsögninni ,,Það þarf að aga þessa þjóð.`` Við nánari lestur kemur í ljós að ráðherrann segir þessi orð ekki sjálfur en hefur augljósa velþóknun á þeim sem eru hans skoðanalegu jábræður varðandi það áhugamál hans að hernaður fyrir Íslendinga hefði þau jákvæðu aukaáhrif að aga þjóðina. Ráðherrann segir jafnframt að pólitískir andstæðingar hafi reynt að gera þetta mál tortryggilegt eða hlægilegt.

Nú er ég pólitískur andstæðingur ráðherrans en ætla þó hvorugt að gera því mér finnst hugmyndin um herinn og sú niðurstaða að þurfa að aga þessa þjóð fyrst og fremst dapurleg. Kannski af því að hún sýnir svo ótrúlega lítinn skilning í þeirri lífsbaráttu sem er háð í landinu á hverjum degi og þá ekki síður vegna þeirrar bullandi vanþekkingar sem hugmyndin um agann afhjúpar gagnvart okkar séríslensku herskyldu sem er sjómennskan þar sem stór hópur manna leggur sig daglega í hættu og fjarvistir frá fjölskyldu til að tryggja þá efnahagslegu velferð sem er undirstaða sjálfstæðis okkar, að ég tali ekki um alla þá sem eru og hafa verið mánuðum saman í víking og landvinningum á fjarlægum miðum til að efla og bæta hag þjóðarinnar og tryggja stöðu okkar í samningum um þær auðlindir.

Sá hagvöxtur sem við höfum notið í fyrra og í ár og gumað er af í stefnuræðu ríkisstjórnarinnar á rót sína að rekja til þessara veiða og sjómenn okkar hafa sýnt það á fjarlægum miðum að þeir eru í fremstu röð. En hvernig hafa þau stjórnvöld sem guma af hagvextinum síðan stutt við þá sem hafa verið í þessum víking? Hvernig hafa þau unnið úr landvinningunum?

Á meðan íslenskir sjómenn voru að skapa okkur stöðu til að semja síðar um veiðar eins og í Smugunni hugsuðu íslensk stjórnvöld alvarlega um að banna þær veiðar. Því var afstýrt þá. En nú liggur í loftinu samningur um veiðar í Smugunni langt undir okkar veiðireynslu og á sama tíma gerist það á vettvangi NATO að sóknarmark er sett á rækjuveiðar á Flæmska hattinum. Andvaraleysi íslenskra stjórnvalda gagnvart framtíðarhagsmunum okkar er slíkt að á þeim fundi er íslenska sendinefndin skipuð einum manni sem er auk þess látinn sitja hjá. Við hefðum eins getað sent borðfána, segja íslenskir útgerðarmenn.

Hver er staða okkar til að mótmæla eftir þessa frammistöðu? Hvers lags klúður er þetta? Það er vissulega vandmeðfarið að verja í senn hagsmuni strandríkis og úthafsveiðiríkis og þess að stunda veiðar á úthafinu í kröftugri sókn sem sjómenn okkar gera og að vera málsvarar veiðistjórnar í nafni fiskverndar. Þess vegna má ekkert bregðast. Þess vegna á að beita okkar færasta liði til þess að tryggja hagsmuni okkar. Aðrir verða ekki til þess, ekki lengur. Þeir kaldastríðsáratímar eru liðnir þegar lega landsins ein og sér tryggði stöðu okkar. Nei, nú reynir á okkur sjálf með nýjum hætti sem fullvalda og sjálfstæða þjóð. Þá verðum við öll að berjast saman en ekki þannig að sjómennirnir séu í landvinningum mánuðum og árum saman en stjórnvöld klúðri síðan hugsanlegri vinningsstöðu. Þetta eru utanríkismál okkar, ekki varalið og her. Ég hlýt að spyrja enn: Finnst mönnum stjórnvöld ekki aga þjóðina nægjanlega? Ekki einasta búum við við óblíða náttúru heldur hafa stjórnvöld búið svo um hnúta að lífskjörin eru þannig að fólk með fagþekkingu, m.a. sérhæft fiskvinnslufólk, flýr nú land sakir þess að víðast í okkar nágrannalöndum eru þau kjör sem vinnandi barnafólki eru boðin mun betri en hér. Þegar ég er að tala um kjör er ég ekki einasta að tala um kaupið. Nei, ég er líka að tala um hið félagslega öryggisnet fjölskyldnanna. Þess vegna flýr fólkið líka sem er ófaglært og atvinnulaust. En kaupið eitt er þó ærið tilefni.

Eitt af því sem fylgdi með í umfjölluninni um launa- og starfskjör alþingismanna er samanburður við það sem gerist í öðrum löndum sem við gjarnan berum okkur saman við. Um tíma skildist þjóðinni að réttlæting á hækkun launa þingmanna og ráðherra fælist aðallega í þeirri staðreynd að kjör þingmanna í nágrannalöndunum væru betri. Auðvitað var það tilefni enn meiri ólgu meðal launafólks því að það er þeirrar skoðunar að sá þjóðarhagur sem skammtar því lífskjörin sé jafnframt sá þjóðarhagur sem helstu ráðamenn þjóðarinnar hljóti að búa við og taka tillit til þegar röðin kemur að kjörum þeirra.

En landflóttinn raskar ekki ró ríkisstjórnarinnar þegar litið er til stefnuræðunnar. Það svífur yfir vötnum að svo megi böl bæta að benda á annað verra. Fólk hefur flúið land áður og þetta með lakari lífskjörin eru bara ýkjur vondra manna.

Það hefur stundum verið talað um það að menn greiði atkvæði með fótunum eða hvað voru þeir tæplega 600 sem fluttu af landi brott bara núna í september að hugsa? Þeir vissu líklega ekki svo að ég endurtaki hér orðrétt skýringar hæstv. forsrh. í ræðunni hér að framan, með leyfi forseta, ,,að heildarmælikvarðar svo sem landframleiðsla á mann og einkaneysla segja ekki heldur alla söguna en gefa þó miklu skýrari mynd af lífskjörunum heldur en sá villandi samanburður sem ég gerði að umtalsefni.``

Þessi huggunarorð lýsa einkar næmum skilningi ríkisstjórnarinnar á stöðu mála. Jú, vissulega fluttu til landsins á sama tíma 335 manns eða u.þ.b. helmingur hinna brottfluttu. Brottflutningurinn í september samsvarar því að eitt þorp á landsbyggðinni þurrkist út. Og gott fólk. Nettóstaðan er sú að um síðustu mánaðamót hafa rúmlega 1.000 manns flutt frá landinu það sem af er þessu ári umfram þá sem komu. Allt síðasta ár voru það 800 þannig að allt bendir til þess að straumþunginn aukist. Niðurstöður sem fengnar eru með því að bregða mismunandi mælistikum á hinar ýmsu stærðir efnahagslífsins breyta engu þar um.

En sjáum við þá merki þess að verið sé að takast á við vandann? Þann vanda að fólk vantar trú á framtíðina? Þann vanda að íslenskt atvinnulíf er ekki samkeppnisfært? Bendir nýgerður búvörusamningur eða útfærsla íslenskra stjórnvalda á GATT-samningnum til þess að framtíðin og lífskjör launafólks hafi verið höfð að leiðarljósi? Hvað með fjárfestingar og annan uppgang en þann sem við njótum vegna úthafsveiðanna? Hvar er íslenskur sjávarútvegur að fjárfesta? Jú, hann fjárfestir í útlöndum.

Við breyttar aðstæður hafa íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi leitast við að ná nýjum og áhugaverðum viðskiptasamböndum og haslað sér völl á nýjum mörkuðum. Liður í því er samvinna við erlend fyrirtæki sem fyrir eru í greininni eða að hafa þá þekkingu sem okkar fólk þarf til að ná betri árangri í hörðum heimi samkeppninnar. En það samstarf fer ekki fram á Íslandi. Áhrifin berast hingað einungis óbeint því að erlend fyrirtæki mega ekki hasla sér völl á Íslandi í þessari grein, hvorki ein né í samvinnu við íslensk fyrirtæki. Í stað þess að þau séu staðsett á Íslandi og örvi íslenskt atvinnulíf verða þau að starfa erlendis því við viljum ekki að fyrirtæki með aðild útlendinga hversu lítil sem hún er séu íslensk. Þar fer fram þróunarstarf. Þangað safnast unga fólkið með metnaðinn og þekkinguna.

Ég hlýt líka að spyrja: Er ekki kominn tími til landvinninga á Íslandi? Er það ekki ótrúlega hrokafull og gamaldags forgangsröðun að fresta ákvæðum um greiðslu skaðabóta til þolenda ofbeldisverka en nota háar upphæðir til kaupa á nýjum ráðherradrossíum?

Góðir áheyrendur. Þessi ríkisstjórn, sem getur setið fram undir aldamót, ætlar að staðsetja sig kirfilega hérna megin aldamótanna. Það verða aðrir að taka að sér að verða hin nýja aldamótakynslóð, boðberar nýrra tíma hvort sem er í íslensku atvinnu-, efnahags- eða stjórnmálalífi.

Góðir landar mínir. Það er sannarlega verk að vinna. Takk fyrir.