Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

Miðvikudaginn 04. október 1995, kl. 23:19:03 (29)

1995-10-04 23:19:03# 120. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)#, RG
[prenta uppsett í dálka]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Undir lok umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra leiði ég hugann að því hvort þessi skoðanaskipti undir augliti þjóðar, um stefnu og áform ríkisstjórnar, skili sér til þeirra er heima sitja. Hvort okkur alþingismönnum takist það ætlunarverk að kryfja til mergjar stefnu eða stefnuleysi stjórnvalda og hvort umræða af þeim toga er til þess fallin að stuðla að endurheimt virðingar Alþingis. Það er brýnt að við alþingismenn höfum það markmið að leiðarljósi í öllum störfum okkar.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur átt makindalega hveitibrauðsdaga. Í sumar hefur hvergi örlað á gjörðum sem sýna framsýni eða kraft og ekkert bólar á efndum þeirra kosningaloforða sem Framsóknarflokkurinn gaf kjósendum sínum í vor af miklu örlæti.

Þegar atvinnuleysið náði hámarki í júlí dró félagsmálaráðherra athyglina með nýstárlegum hætti frá þeirri óþægilegu staðreynd. Hann lokaði á atvinnuleyfi útlendinga og bauð atvinnulausum lausnir í verbúðum fjarlægra byggðarlaga.

En nýju 12.000 störfin láta á sér standa og forseti Alþýðusambandsins gagnrýnir harkalega að fjárfestingar minnka og að störfum mun fækka um 1.500. Það urðu hátt á þriðja þúsund ný störf til á síðastliðnu ári og búast mátti við áþekkri fjölgun á þessu ári að óbreyttu. Framsóknarflokkurinn notar sem afsökun vegna fækkunar starfa að það verði samt til um 1.700 ný störf á næsta ári auk þess sem markmiðið sé hallalaus fjárlög. Það markmið hefur legið fyrir í fjögur ár. Nýju störfin sem Framsóknarflokkurinn boðaði umfram það sem fyrir lá gáfu til kynna stórhuga áform um sértæka atvinnuuppbyggingu. Unga fjölskyldufólkið, sem á samdráttartímum hafði baslað við að koma yfir fjölskylduna þaki og stóð í skuldabasli, trúði á boðskapinn um endurreisn heimilanna. Kosningaloforð og málflutningur gáfu fyrirheit um nýjar aðgerðir og jafnvel digra sjóði til að breyta skuldastöðu heimilanna.

Aukið lánshlutfall til fyrstu íbúðakaupa er hið besta mál en það snýr eingöngu að nýjum kaupendum. Hugsanleg lenging húsbréfalána snýr einnig að nýjum lántakendum og því er allsendis ósvarað hvernig ríkisstjórnin fer með vaxtabætur vegna lengingar lána og aukinna vaxtagreiðslna. Ekkert gerist enn þá í stóra kosningamálinu að laga skuldastöðu heimilanna umfram það sem gert var í stjórnartíð Alþýðuflokksins þrátt fyrir að nú er heilt ár liðið frá því Framsóknarflokkurinn hóf þann boðskap.

Þjóðin veit að allt tal um erfiða skuldastöðu heimilanna hljóðnaði eftir kosningar og stóru orðin ,,12.000 ný störf og endurreisn heimilanna`` standa nú eftir sem háðulegt minnismerki um yfirboð og óábyrga aðferð til að komast til valda.

Ríkisstjórn verður að hafa framtíðarsýn og leita leiða til nýrrar uppbyggingar og betri afkomumöguleika fyrir þjóð sína. Hvatinn að þeirri áherslu sem Alþýðuflokkurinn hefur lagt á alþjóðasamninga og alþjóðaviðskipti er meðal annars tækifærin til atvinnuuppbyggingar og möguleikar á erlendri fjárfestingu sem þeim fylgja ásamt þeirri staðreynd að þeir bjóða upp á lægra vöruverð, bætta afkomu og valfrelsi á öllum sviðum.

Yngri kynslóðin gengur með opnum huga móti framtíð þar sem hlið grannríkja standa opin bæði hvað varðar menntun og atvinnu. Nemendur og kennarar flykkjast til Evrópu til að taka þátt í náms- og kennsluáætlunum Evrópusambandsins. Iðnaðarmenn nýta sér frjálsan aðgang að evrópskum vinnumarkaði. Þetta fólk kemur heim með ný viðhorf, nýja þekkingu og tekst á við framtíðarverkefni sem við ætlumst til að verði þá til staðar hér heima.

Við eigum á hverjum tíma að skoða það með opnum huga hvernig hagsmunum okkar er best borgið. Það sjónarmið Alþýðuflokksins hefur verið gjarnan rangfært. Enginn mundi nú kasta samningnum um Evrópska efnahagssvæðið fyrir róða og í dag kemur þrýstingurinn á aukna Evrópusamvinnu úr jarðvegi atvinnulífsins. Það eru framkvæmdaöflin í þjóðfélaginu, forustumenn í sjávarútvegsfyrirtækjum og iðnrekendur sem hefja nú raust sína í spurn: Hvert skal stefna? Hvert skal stefna? En frá stjórnvöldum berst ekkert svar enda var þessi ríkisstjórn ekki mynduð um framtíðarsýn, hún var fyrst og fremst mynduð um sérhagsmuni. Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni að réttmæt gagnrýni á GATT-samkomulagið um tolla og viðskipti sé eingöngu á smávægileg tæknileg atriði. Þetta er ekki rétt. Hin harða gagnrýni hefur verið á stefnu stjórnvalda og framkvæmd, á ofurvernd innlendrar framleiðslu sem ýtt hefur undir hækkanir á innlendum búvörum í sumar. Í samanburði á framkvæmd samningsins hér og í nágrannalöndum okkar má ekki gleyma því að aðrar þjóðir höfðu þá þegar náð fram lækkun á verði búvara langt niður fyrir það sem við búum við og því ekki jafnbrýnt fyrir þær að gera átak í verðlækkun í framkvæmd fyrsta áfanga samningsins. Hjá okkur er framkvæmd GATT-samningsins að snúast upp í andhverfu sína.

Varfærni í ríkisfjármálum sem forsenda framfara má ekki breytast í stöðnun. Sá skortur á framtíðarsýn sem birtist okkur í stefnuræðu forsrh. ber í sér þá hættu. Ég tek undir falleg orð um að vel menntuð þjóð tryggi stöðu íslensku þjóðarinnar og gefi tækifæri til auðsköpunar. Við vorum líka öll sammála um það í vor að nú þegar við hefðum brotist út úr efnahagsþrengingum yrði að snúa vörn í sókn í menntamálum og standa við stóru orðin um að fjárfesta í menntun. Þessa sér ekki stað í fjárlagafrv. Það er samtrygging þessara stjórnarflokka að standa vörð um úrelt framleiðslukerfi í landbúnaði. Ég mundi vilja sjá brot af slíkri samtryggingu í þágu æsku þessa lands.

Æska landsins hefur vaxið úr grasi á miklum umbrota- og þróunartímum þar sem mörgum gömlum gildum hefur verið kastað fyrir borð. Streita og félagsleg pressa af ýmsu tagi hefur valdið því að margt ungmennið hefur bognað undan álaginu. Ofbeldi og vímuefnaneysla meðal unglingaa hefur færst í vöxt og hefur vakið angist foreldra og ótta með þjóðinni. Það er brýnt að leita allra leiða til að finna skýringar og svör við því hvers vegna slíkt þjóðarmein nær að festa rætur og að kosta öllu til svo vinna megi bug á því.

Góðir landsmenn. Þjóðlíf okkar byggir fyrst og fremst á fjölskyldunni. Hún er sá hornsteinn sem við vísum til þegar rætt er um farsæld og framtíð þjóðar. Þess vegna er það ótrúleg staðreynd að stjórnvöld hafa aldrei mótað opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar. Við fulltrúar Alþýðuflokksins í þessari umræðu höfum hvert um sig vikið að ákvæðum fjárlaga og málefnum er snerta fjölskylduna og hagi hennar. Hvert þeirra um sig sértækt og unnið í hinum ýmsu ráðuneytum án þess að yfirsýn fáist yfir hvaða breytingum ákvarðanirnar samanlagt valdi í umhverfi fjölskyldunnar. Öflug fjölskyldustefna og aukin réttindi fólks með fjöskylduábyrgð á vinnumarkaði er lykill að jafnri stöðu kvenna og karla og undirstaða launajafnréttis. Það er skoðun okkar og hluti af þeirri framtíðarsýn sem við höfum boðað að stjórnvöld eigi að marka opinbera fjölskyldustefnu sem taki á heildstæðan hátt til þeirra þátta sem mesta þýðingu hafa fyrir hagi og aðstæður íslenskra fjölskyldna og að hagsmunir fjölskyldunnar verði viðurkenndur sjónarhóll við lagasetningu og ákvarðanir hins opinbera. Þessari stefnu munum við framfylgja með tillöguflutningi hér á hv. Alþingi. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.