Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

Miðvikudaginn 04. október 1995, kl. 23:27:52 (30)

1995-10-04 23:27:52# 120. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)#, GMS
[prenta uppsett í dálka]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á því þjóðfélagi sem við lifum í. Ný tækni leysir eldri vinnuaðferðir af hólmi og miklar sviptingar hafa átt sér stað í atvinnulífi okkar. Hefðbundin gildi hins kapítalíska þjóðfélags þar sem eignarhald á fasteignum, vélum og fjármagni vörðuðu leiðina til auðlegðar víkja nú fyrir nýjum gildum þar sem þekking og lifandi hugsun skipa hinn æðsta sess. Þekking og hraði skipta nú öllu máli við sköpun verðmæta. Þeir sem ekki ná að tileinka sér gildi hins nýja tíma eiga á hættu að verða undir í baráttunni. Áhrif slíkra byltinga eru ekki sársaukalaus. Fyrirtæki jafnt sem einstaklingar sem þekkja ekki sinn vitjunartíma daga uppi rétt eins og nátttröll við sólarupprás. Breyttum áherslum í atvinnulífi fylgir umrót hjá mörgum fjölskyldum. Eiga sumir um sárt að binda á sama tíma og aðrir hafa hafist til nýrrar og áður óþekktrar auðlegðar.

Mörgum sem átt hafa þess kost að fylgjast með breytingum, sem átt hafa sér stað í nálægum löndum, þykir sem nokkuð skorti á að íslenskt þjóðfélag sé tilbúið að takast á við þau nýju tækifæri sem upplýsingaöldin veitir. Á Íslandi verður að eiga sér stað breyting hugarfarsins ef við eigum ekki að daga uppi. Við okkur blasir sú staðreynd að kjör hér á landi eru verri en í nálægum löndum. Atvinnuleysi hefur aukist samhliða því að ný tækni gerir það að verkum að færri hendur þarf til að vinna verkin. Ef ekkert er að gert stefnum við í þjóðfélag eins og við sjáum sums staðar í Evrópu þar sem einungis 2/3 þegnanna hafa atvinnu. Slík þróun er okkur ógeðfelld og hana verður að stöðva. Um það erum við sammála.

Ég get ekki leynt því að mér þykir aðilar vinnumarkaðarins hafa brugðist í þessum efnum. Þeir hafa ekki skynjað vitjunartíma sinn, ekki uppfrætt félagsmenn sína um þau tækifæri sem felast í nýjum áherslum og nýrri nálgun að bættum kjörum heldur staðið í árvissu þrefi um löngu úrelta launataxta.

Ef skapa á ungu fólki framtíð í landinu þarf að temja sér ný vinnubrögð. Íslenskt atvinnulíf verður að geta boðið upp á fjölbreytni í störfum og kjör sem eru á við það sem best gerist í nálægum löndum. Leiðin að þessu marki felst ekki í að bítast innbyrðis heldur að allir leggist á eitt við að stækka þá heild sem er til skiptanna.

Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd eins og margoft hefur verið nefnt hér í kvöld að það þarf að skapa 12.000 ný störf á komandi árum á þessu kjörtímabili. Sú aukning verður öll að eiga sér stað í atvinnulífinu. Starfsmönnum hins opinbera hefur fjölgað svo mikið síðustu árin að lengra verður ekki gengið á þeirri braut. Opinberum starfsmönnum mætti í raun fækka án þess að þjónusta við landsmenn minnki og þannig skapist svigrúm til þess að bæta kjör þeirra sem eftir eru. Ég hygg þó að slíkar aðgerðir verði vart gerðar nema samfara aukinni eftirspurn eftir vinnuafli, t.d. með tilkomu nýrrar stóriðju.

Við framsóknarmenn höfum lagt fram áætlun um að koma á fót öflugum nýsköpunarsjóði sem væri þess megnugur að leggja fram áhættufé til stofnunar nýrra fyrirtækja, sem byggja á þeim tækifærum sem þekking og mannvit þjóðarinnar býr við og sem boðið geta starfsmönnum sínum kjör sem nútímamaður gerir með réttri kröfu til að hafa.

Á síðasta vetri velti ég upp þeirri hugmynd að leggja hlut íslenska ríkisins í járnblendi-, sements- og steinullarverksmiðju, kísilgúrvinnslu og áburðarverksmiðju í eitt hlutafélag sem hefði frumkvæði að því að hér yrðu reist ný fyrirtæki á sviði orkufreks iðnaðar. Slíkt fyrirtæki yrði án efa lyftistöng íslenskum iðnaði. En þá þarf einnig að huga að starfsaðstöðu smærri fyrirtækja. Draga verður úr óþarfa skriffinnsku og afskiptum ríkisvalds af atvinnulífinu. Mörg ákvæði í lögum og reglugerðum, sem atvinnulífinu er gert að lifa eftir, eru íþyngjandi fyrir atvinnulífið og stór þáttur í því að halda hér uppi hærra vöruverði en gerist í nálægum löndum auk þess að minnka samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á alþjóðavettvangi.

Framsóknarmenn hafa sett fram hugmyndir um skattalegar aðgerðir til að örva nýsköpun og nýjar fjárfestingar og móta hugmyndir um vöxt ferðaþjónustu með því að aflétta opinberum gjöldum af tilteknum þáttum ferðaþjónustunnar. Að þessum málum verður örugglega unnið á þessu kjörtímabili.

Við verðum að endurskoða gamla, steinrunna vinnulöggjöf. Við þurfum að minnka miðstýringu, koma í veg fyrir að einstakir hópar geti haldið þjóðfélaginu í gíslingu vikum sama meðan kjarabarátta er háð. En allar aðgerðir til að bæta kjör hins vinnandi manns eru til lítils ef hér verður áfram hallarekstur á ríkissjóði sem kallar á stóraukna skattbyrði á komandi árum. Því er það að við verðum að taka til í rekstri hins opinbera, ná jöfnuði í ríkisfjármálunum og það á næstu tveimur árum. Það er einlæg von mín að víðtæk samstaða og skilningur náist með þjóðinni á nauðsyn þeirra aðgerða sem fram undan eru í stað þess að alið sé á sundurþykkju og tortryggni í garð tiltekinna þegna eða landshluta. Mér þykir þannig miður hve margir þéttbýlisbúar virðast hafa gleymt uppruna sínum og sýna lítinn skilning á aðstæðum þeirra sem í dreifbýli búa. Gera verður kröfu til þess að íbúar í þéttbýli sýni skilning á því að staðhættir í dreifbýli eru erfiðari og lífsbaráttan harðari en í þéttbýli.

Á næstunni hefur þeim áfanga verið náð að vetrareinangrun byggða á norðanverðum Vestfjörðum verður rofin með tilkomu jarðganga. Þetta er merkur áfangi í samgöngusögu þjóðarinnar allrar. Af ástæðum sem ég nefndi áðan er rétt að árétta að jarðgöngin á Vestfjörðum eru ekki gerð fyrir Vestfirðinga eina heldur eru þau eðlilegur hluti af því samgönguneti sem þjóðfélaginu ber að veita þegnum sínum.

Ekki má gleyma því þótt þessum áfanga sé náð að enn vantar mikið á að Vestfirðir búi við sama öryggi í samgöngum og aðrir landshlutar. Stórfelldar endurbætur á veginum frá Ísafirði í Hrútafjörð ásamt Gilsfjarðarbrú eru á áætlun. Að þeim málum verður að vinna ötullega á komandi árum ef unnt á að vera að tala um raunverulegan vilja til að jafna aðstöðu fólks í þessu landi.

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Við stöndum frammi fyrir mörgum erfiðum úrlausnarefnum á kjörtímabilinu. Engu að síður lít ég með bjartsýni til komandi ára. Ég hef trú á að vilji og styrkur sé fyrir hendi til að búa þjóðfélagið undir að nýta tækifæri nýrrar aldar með það að leiðarljósi að bæta hag hins vinnandi manns og jafna aðstöðu án tillits til búsetu. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.