Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 10:38:05 (36)

1995-10-05 10:38:05# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Ekki þarf að hafa langan formála vegna þessa frv. Í lok 117. löggjafarþings voru samþykkt ný lyfjalög. Ákveðið var að fresta gildistöku tveggja kafla laganna til 1. nóv. 1995 svo að tóm gæfist til að meta áhrif verulegra breytinga sem gerðar voru á fyrirkomulagi lyfjadreifingar hér á landi með þessum nýju lögum. Þær breytingar áttu að mestu leyti rætur að rekja til skuldbindinga samkvæmt EES-samningnum. Þeir kaflar sem ákveðið var að fresta gildistöku á voru annars vegar VII. kafli laganna um stofnun lyfjabúða og lyfsöluleyfi og hins vegar XIV. kafli laganna um lyfjaverð.

Eins og hv. þingmenn muna voru skiptar skoðanir hér á Alþingi um það fyrirkomulag varðandi lyfjadreifingu annars vegar og lyfjaverð hins vegar sem hin nýju lög gera ráð fyrir. Þess vegna var til málamiðlunar ákveðið að fresta gildistöku umræddra tveggja kafla til að tóm gæfist til að meta að öðru leyti áhrif framkvæmdar nýrra lyfjalaga á lyfjadreifingu og lyfjanotkun í landinu. Í þeim tilgangi skipaði heilbr.- og trmrh. nefnd hinn 29. júlí 1994 sem í eiga sæti fulltrúar allra þingflokka. Nefndinni var ætlað að skila ráðherra skýrslu fyrir 1. sept. 1995.

Hinn 26. apríl sl. óskaði ég eftir því við nefndina að hún hraðaði störfum og skilaði skýrslu um stöðu mála fyrir 1. júlí 1995. Meiri hluti nefndarinnar tjáði mér að hann telji að áhrifa lyfjalaganna sé ekki enn farið að gæta í þeim mæli að hægt sé að meta áhrif þeirra. Ástæða þessa er m.a. sú að dregist hefur að setja ýmsar reglugerðir sem fylgja áttu lögunum um nánari útfærslu og framkvæmdir. Þessi dráttur stafaði m.a. af því að vinnan að undirbúningi þessara reglugerða var mun umfangsmeiri og tímafrekari en ráðgert var í fyrstu. Það er því mat nefndarinnar að áhrifa nýrra lyfjalaga og EES-samningsins á lyfjanotkun og lyfjakostnað almennings og hins opinbera hér á landi fari fyrst að gæta að einhverju marki á næsta ári. Ég lagði því fram á 119. löggjafarþingi frv. til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum, þar sem gerð var tillaga um að gildistökukafla yrði frestað til 1. júlí 1996. Samkomulag varð um að fresta afgreiðslu frv. nú til haustþings. Því legg ég fram að nýju frv. til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994.

Frv. er að því er frestunina varðar óbreytt frá því frv. sem lagt var fram í vor. Því til viðbótar er að finna í frv. tillögur um breytingar á lögum er lúta stjórnsýslulegri meðferð mála.

Í 1. og 2. gr. frv. er lagt til að 4. og 10. gr. laganna verði breytt. Breytingin með 1. gr. frv. snertir 4. gr. laganna og snýr að verkaskiptingu milli ráðuneytis og lyfjanefndar við afgreiðslu mála. Í stað þess að ráðuneytið afgreiði þau mál sem þar um ræðir, þ.e. markaðsleyfi og alls kyns umsóknir um leyfi vegna lyfja, eins og kveðið er á um í lögunum nú, er gert ráð fyrir að þessi verkefni flytjist til lyfjanefndar. Ákvarðanir lyfjanefndar verða kæranlegar til ráðuneytis.

Í 2. gr. frv. er gerð breyting á orðalagi í 10. gr. þannig að opnað er fyrir það að heilbr.- og trn. geti falið aðilum utan ráðuneytisins að gefa út sérlyfjaskrá.

Í 3. og 4. gr. eru þær breytingar sem voru í frv. því sem ég lagði fram í vor og ég minntist á. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þessar tvær greinar. Þó er rétt að taka fram að í 3. gr. er dagsetningunni 1. júní 1995 breytt í 1. júlí 1996. Hér er í raun um leiðréttingu að ræða í meðförum Alþingis, þegar frestun umræddra kafla var samþykkt, láðist að leiðrétta þessa dagsetningu til samræmis.

Ég get ekki skilið við þetta mál án þess að fara nokkrum orðum um kostnaðarmat fjmrn. Þar er minnst á 100 millj. kr. sparnað sem talið var að unnt yrði að ná á árinu 1995 vegna nýrra lyfjalaga. Þessi sparnaður er alls óviss, enda varð niðurstaðan sú að við lokaafgreiðslu fjárlaga 1995 var fallið frá því að ná sparnaði í lyfjakostnaði með þessum aðgerðum. Í lokamálsgrein kostnaðarmatsins er því haldið fram að ef frv. þetta verður að lögum muni líklega ekki nást fram frekari lækkun á álagningu lyfja í smásölu nema stjórnvöld beiti sér til þess með öðrum aðgerðum.

Í þeim tveimur köflum sem hér er enn frestað gildistöku á eru engin ákvæði sem hafa áhrif á lækkun álagningar lyfja í smásölu. Samþykkt þessa frv. mun því engu breyta um það atriði. Athugasemdir þessar í kostnaðarmati eru því óskiljanlegar og vekur furðu að slíkar órökstuddar staðhæfingar skuli settar fram í kostnaðarmati sem á að vera hlutlaus skoðun á kostnaðaráhrifum lagafrv.

Ég vil á hinn bóginn láta koma fram að heilbr.- og trmrn. vinnur stöðugt að því að stemma stigu við sívaxandi lyfjaútgjöldum. Í sumar gengu í gildi reglugerðir um svokallað viðmiðunarverð lyfja. Þessar reglur gengu að fullu í gildi 1. ágúst sl. Reynslan af framkvæmd þeirra hefur þegar sýnt að þessar nýju reglur skila verulegum sparnaði í útgjöldum til lyfjamála. Þessar aðgerðir eru sérstaklega jákvæðar og mikilvægar því að þær geta lækka lyfjaútgjöld sjúklinga um helming meira en þær lækka lyfjaútgjöld sjúkratrygginga. Hér er því um mikilsverða aðgerð að ræða til að létta undir með sjúklingum með háan lyfjakostnað.

Hæstv. forseti. Ég læt hér með lokið umfjöllun minni um frv. til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994. Jafnframt leyfi ég mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frv. afgreitt til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.