Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 10:45:27 (37)

1995-10-05 10:45:27# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt um frv. sem hér liggur fyrir með því að vitna í prófessor í lögum, Sigurð Líndal, en þegar leitað var álits hans á boðaðri frestun á gildistöku þessara laga sagði hann svo, með leyfi forseta:

,,Lög í réttarríki eiga að vera stöðug og það er eitt af frumatriðum réttarríkis að menn hagi sér á þennan hátt en ekki hinn. Þetta er eitt grunnatriða við lagasetningu og siðferðilegur mælikvarði á þau. Svona lagasetning er því alveg ótæk.``

Þetta segir einn af virtustu lagaspekingum landsins og það er sá dómur sem hann fellir yfir þessu frv. hæstv. heilbrrh. sem er að verða að eins konar þráhyggju í kolli hæstv. ráðherra og í ráðuneytinu.

Herra forseti. Þetta frv. felur í sér afar sérkennilegan málatilbúnað svo ekki sé meira sagt. Það er satt að segja fátítt ef ekki einsdæmi að ríkisstjórn leggi fram mál þar sem boðuðu rekstrarumhverfi heillar atvinnugreinar er gjörbreytt á síðustu stundu sem stríðir gegn öllum viðteknum hefðum um framkvæmd laga; sem rýrir traust manna á stöðuglyndi löggjafans og sem virtasta dagblað landsins kallar í senn forneskju og siðleysi. Þetta frv., herra forseti, byggir nefnilega ekki á neinum rökum og það hefur enga pólitíska undirstöðu nema duttlunga eins tiltekins ráðherra og að því leyti til, herra forseti, er þetta mál algjörlega sérstakt.

Ég skil þess vegna mætavel, herra forseti, að hæstv. heilbrrh. lagði ekki í það að mæta forvera sínum, hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, í kappræðu í Ríkisútvarpinu í gær þar sem þetta mál átti m.a. að koma til umræðu. Ég leit satt að segja á flótta hennar frá því sem skynsemisvott sem er sorglega sjaldgæft að finna nú á þessum síðustu dögum á meðal ráðherra Framsfl.

Herra forseti. Aðferðin sjálf við að taka þetta mál á dagskrá er raunar í stíl við málið sjálft. Þó hæstv. ráðherra sé búinn að tala um það út og suður í fjölmiðlum að hún leggi ofurkapp á að fá málið á dagskrá sem fyrst í þinginu, þá er undirbúningur ráðuneytisins að málinu ekki betri en svo að það tókst ekki að leggja það fram í tæka tíð þannig að það þurfti að taka það hér með afbrigðum til umræðu í dag. Auðvitað er það svo að hæstv. ráðherra er í mikilli tímaþröng með málið vegna þess að staðreyndin er sú að ríkisstjórnin treysti sér ekki til þess að koma málinu fram á vorþingi. Vissulega er það líka hefð að þingheimur veiti afbrigði til þess að koma málum á dagskrá, herra forseti. En það er afar óvenjulegt, a.m.k. miðað við mína tiltölulega stuttu þingtíð, að pólitísk deilumál séu með þessum hætti tekin á dagskrá með afbrigðum þegar hæstv. ráðherra hefði verið í lófa lagið með sæmilega vönduðum vinnubrögðum að koma þessu máli til þings í tæka tíð. Ég tel að það fari ekki vel á því að þingið verðlauni sleifarleg vinnubrögð af þessu tagi með því að sýna óhóflegt umburðarlyndi eins og mér þykir þingið hafa sýnt í dag. Það er þess vegna sem ég greiddi ekki atkvæði með því en sat þó hjá til þess að leyfa ráðherranum að fá málið til umræðu.

Þetta, herra forseti, er því miður ekki eina dæmið um afskaplega óvönduð vinnubrögð sem tengjast þessu máli og sem ég vona og þykist raunar fullviss að sé ekki forsmekkurinn að því sem koma skal því að öðru leyti hef ég ekkert upp á þennan hæstv. ráðherra að klaga um vinnubrögð. En ég ætla að halda mig við það sem ég kalla lakleg vinnubrögð hæstv. ráðherra í þessu tiltekna máli sem sýnir það að hún hefur ekkert að byggja á, engin rök nema bara sína eigin duttlunga og þráhyggju til þess að standa við eitthvað sem hún sagði í kosningabaráttunni. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert. En þetta er hins vegar eina málið sem hæstv. ráðherra hefur ekki gjörskipt um skoðun á ef marka má þá drætti sem fram koma í fjárlagafrv. sem við ræðum væntanlega á morgun.

Herra forseti. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að það væri aðallega tvennt sem gerði það að verkum að það væri nauðsynlegt að fá frestun á þessu máli. Og það er í fyrsta lagi, segir hæstv. ráðherra, að það eigi eftir að setja reglugerðir vegna þess að vinnan hafi öll reynst tímafrekari og það hafi ekki gefist tóm til þess að setja þessar reglugerðir. Þá spyr ég, herra forseti: Er ekki ráðherra verkstjóri í sínu ráðuneyti? Að sjálfsögðu er málið svo. Og auðvitað er það ráðherrann sem á að sjá til þess að vinnan í ráðuneytinu sé ekki með þeim hætti að hún tefji framgang mála eins og þessara, komi í veg fyrir það að menn sem eru búnir að verja umtalsverðum tíma, atgervi og fjármunum til þess að laga sig að þessu breytta rekstrarumhverfi, að forsendunum fyrir þeirra lífsbaráttu sé ekki svipt undan þeim á síðustu dögum vegna þess að ráðherrann hefur ekki unnið heimavinnuna sína, vegna þess að hæstv. ráðherra hefur ekki stjórn á sínum starfsmönnum. Herra forseti. En jafnvel þó þetta væri rétt, þá skulum við aðeins kanna hvaða reglugerðir þetta eru.

Gerum okkur grein fyrir því að frv. sem við erum að ræða hér lýtur eingöngu að smásölu lyfja og þær reglugerðir sem er verið að vinna að og sem ekki hefur tekist að koma fram af því að ráðherrann hefur ekki haft nægilega stjórn á sínum mönnum, það eru eftirtaldar reglugerðir:

Reglugerð um framleiðslu lyfja og reglur um góða framleiðsluhætti. --- Kemur það eitthvað við smásölu á lyfjum?

Reglugerð um heildsölu lyfja. --- Er það smásala?

Reglugerð um klínískar lyfjatilraunir. --- Hvað kemur það við apótekarafrelsi?

Reglugerð um skráningu og/eða veitingu markaðsleyfa fyrir náttúrulyf, hómópatalyf, bætiefni, svo sem vítamín og steinefni. --- Og hvaða vörur eru undanþegnar ákvæðum um skráningu og markaðsleyfi? Það er kannski helst þessi eina reglugerð og ráðuneytið hefur haft heilt sumar til þess að vinna hana.

Og síðan er það reglugerð um litarefni í lyfjum.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að sú röksemd sem hæstv. ráðherra flytur máli sínu til stuðnings stenst einfaldlega ekki próf veruleikans. Þær reglugerðir sem eftir er að vinna koma þessu máli ekki við og jafnvel þó að þær kæmu málinu við, þá er það skylda ráðherrans að sjá til þess að það sé unnið að þeim í tíma. Það hefur hún bersýnilega ekki gert eftir því sem hún segir sjálf.

Í öðru lagi, herra forseti, kemur það fram líka í framsögu hæstv. ráðherra að sú þverpólitíska nefnd, sem skipuð var til þess að kanna afleiðingar hinna nýju lyfjalaga á markaðinn, hefur ekki getað unnið sitt starf.

Þá er rétt að upplýsa að það hefur komið fram í fjölmiðlum að ráðherrann óskaði eftir því snemma á ferli sínum að nefndin hraðaði störfum sínum. Þetta kemur m.a. fram í samtali við Þóri Haraldsson, aðstoðarmann heilbrrh., í Morgunblaðinu miðvikudaginn 27. sept. þar sem hann segir að ráðherra hafi óskað eftir því í vor að nefndin hraðaði störfum svo að niðurstaða hennar gæti legið fyrir 1. júlí. Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Við því hafi nefndin ekki getað orðið og því hafi heilbrrh. óskað eftir að lengja frestinn á gildistöku umræddra ákvæða.`` Með öðrum orðum: Hér er það aðstoðarmaður heilbrrh. sem segir: Ástæðan fyrir frestuninni er sú að nefndin gat ekki unnið verkið.

Það hefur líka komið fram í fjölmiðlum, herra forseti, að þessi nefnd hélt fund 14. júní og ég held að hún hafi ekki haldið fund síðan. Hæstv. ráðherra hefur sagt í viðtali við Viðskiptablaðið, eða látið að því liggja, að það hafi verið vegna fjarveru manna en nú sé að koma þing og það séu margir alþingismenn í nefndinni og þess vegna gefist tóm til þess að kalla hana saman. Hvað les ég út úr þessu? Ég les út úr þessu að hæstv. ráðherra hafi skyndilega raknað --- ég vil ekki segja úr rotinu heldur vaknað upp af sælum draumi þegar leið að þingbyrjun og gert sér grein fyrir því að það hafði engin vinna farið fram í nefndinni. Hún hefði einfaldlega gleymt að reka á eftir þessari vinnu.

Herra forseti. Ég minnist þess að það hefur komið fyrir að ráðherrar sem ekki hafa verið ánægðir með störf sinna nefnda hafa einfaldlega slegið þær af og það jafnvel á sínum fyrstu dögum í ráðuneytinu. Ég get ekki dregið aðra ályktun en þá að ástæðan fyrir þessu frv. sé fyrst og fremst sú að það er sleifarlag í ráðuneytinu. En að er líka vert að vekja eftirtekt á því, herra forseti, að ég sé ekki betur en að ráðherrann sé tvísaga og það sem kemur fram í greinargerð með frv. stangist á við það sem ráðherrann gefur sem ástæðu fyrir þessu frv. í viðtali við Viðskiptablaðið. Í frv. segir, með leyfi forseta:

,,Markmið með frestun gildistöku framangreindra kafla lyfjalaga var að skapa svigrúm til þess að meta hvaða áhrif gildistaka annarra kafla laganna hefði, þannig að gera mætti breytingar á reglum VII. og XIV. kafla ef ástæða þætti til í ljósi reynslunnar.``

Þarna er ráðherrann sem sagt að búa til röksemd í greinargerðinni sem segir þetta: Ef reynslan af framkvæmd laganna eins og þau eru í dag gefur tilefni til breytinga, þá breytum við lögunum. Ég þarf að vinna tíma til þess. En hvað segir hæstv. ráðherra í viðtali við Viðskiptablaðið? Þar spyr blaðamaður ráðherrann, með leyfi forseta:

,,En skil ég þig ekki rétt, Ingibjörg, að fyrir þér vaki að breyta lögunum? Þú vilt jafnvel taka upp frv. að einhverju leyti?`` --- Eins og ráðherrann segir í greinargerðinni. Og hvert er svar ráðherrans, herra forseti? Það er svohljóðandi:

,,Nei, það er ekki rétt skilið.`` Þannig að ég velti því þá fyrir mér, hver er hin raunverulega orsök fyrir þessu frv.? Ég finn hana ekki. Þær röksemdir sem ráðherrann hæstv. hefur sjálf uppi á einum stað hrekur hún með eigin orðum og vopnum á öðrum stað. Það sem aðstoðarmaður ráðherrans segir í samtölum hrekur hún sjálf í greinargerð. Og það er þess vegna sem ég segi það, herra forseti, að þetta frv. byggist ekki á rökum. Það er tilefnislaust vegna þess að eina tilefnið eru duttlungar sem búa í kolli hæstv. ráðherra og það þykir mér miður.

Herra forseti. Það er ekki úr vegi að fara örfáum orðum um það hvað það frv., sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson lagði fram, fól í sér á sínum tíma. Þeir tveir kaflar sem hér eru til umræðu eru VII. og XIV. kafli. VII. kaflinn felur það í sér, og það eru gildandi lög, að þann 1. nóv. á að fella úr gildi 300 ára gamalt skömmtunarkerfi á lyfsöluleyfum. Við tókum í arf frá kónginum í Kaupmannahöfn sérstakt kerfi sem gerði það að verkum að það var kóngurinn sem úthlutaði leyfum til apótekara. Þegar hann var tekinn af Þjóðverjum í Kristjánsborgarhöll og við tókum okkur lýðveldi, þá færðist þetta vald yfir til forsetans. Og í dag er það svo að það þarf sérstakt leyfi forseta til þess að menn geti sett upp apótek.

Þessu vildi hv. þm. Sighvatur Björgvinsson breyta og það var Alþfl. sem ruddi nýju kerfi brautina með góðri aðstoð Sjálfstfl. á síðasta kjörtímabili. Samkvæmt því kerfi, sem á samkvæmt gildandi lögum að hefjast hinn 1. nóv., þá getur hver sem er sem uppfyllir ákveðin skilyrði laganna sett upp apótek ef honum býður svo við að horfa. Ráðherrann hefur ekki lengur vald til þess að takmarka stofnun apóteka. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það urðu deilur um þetta mál á hinu háa Alþingi. En það tókst að lokum bærileg sátt um málið miðað við efni og aðstæður og það er kannski við hæfi að rifja upp ádeiluefnin sem menn fundu þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kynnti fyrst sínar hugmyndir.

Eitt af því sem var vel haldið á lofti af andstæðingum þessara hugmynda var að hagsmunum neytenda væri ekki nægilega vel borgið vegna þess að samkeppnin mundi draga úr faglegum kröfum samkeppnisaðilanna til sjálfs sín. Þessu var svarað með því að það voru settar mjög strangar faglegar kröfur til leyfishafa sem ég tel einsýnt að gæti í hvívetna mjög vel hagsmuna neytendanna. Í aðalatriðum fólu þær í sér að umsækjandinn þarf verslunarleyfi eða samning við aðila sem hefur slíkt leyfi. Hann þarf að hafa þriggja ára starfsreynslu, en þó var ráðherra heimlað að víkja frá því ef almannahagsmunir kölluðu til að mynda í fámennum byggðarlögum þar sem lyfsala var ekki fyrir hendi, en til þess að tryggja enn frekar hina faglegu vinnu af hálfu hinna nýju apóteka, þá var lögfest að samþykki Lyfjaeftirlits ríkisins þyrfti að liggja fyrir áður en starfsemi lyfjabúðar gæti hafist. Og þeir aðilar sem til að mynda hafa nú afráðið að hasla sér völl á grundvelli þessara gildandi laga hafa einmitt unnið sína undirbúningsvinnu afskaplega vel og í nánu samráði við eina af undirstofnunum hæstv. ráðherra. Og ég skýt því inn í, herra forseti, að ég sé ekki betur heldur en hæstv. ráðherra hafi með þeim hætti í gegnum eina af undirstofnunum sínum lagt blessun sína ef ekki með beinum þá með óbeinum hætti yfir starfsemi þeirra manna sem hún ætlar núna að ryðja um koll.

Það kom líka fram í umræðum um þær hugmyndir sem Alþfl. setti fram að þetta fyrirkomulag þjónaði e.t.v. ekki nægilega vel hagsmunum smærri byggðarlaga. Ýmsir gerðu því skóna að á mjög smáum markaðssvæðum gæti samkeppnin hreinlega rústað þeim lyfjabúðum sem kynnu að verða settar upp eða væru fyrir hendi, en undir þetta, herra forseti, var líka skotið byttu vegna þess að samkvæmt þeim lögum, sem að lokum voru samþykkt, hefur ráðherrann heimild til þess að takmarka fjölda lyfjabúða í heilsugæsluumdæmum. Því held ég, herra forseti, að það hafi verið komið til móts við öll sjónarmið þeirra sem voru andstæð þessum breytingum og það var komið til móts við sjónarmið hæstv. núv. heilbrrh. að því leyti til að gildistöku þessara kafla var frestað. En það eru samt sem áður lög í gildi. Lögin segja að þetta nýja fyrirkomulag eigi að taka upp 1. nóv. Þetta hefur verið svona hátt á annað ár. Og er eitthvað óeðlilegt við það að menn sem eru í þessari atvinnugrein taki mið af almennum ramma laganna og leggi út í fjárfestingar eins og menn hafa gert? Að sjálfsögðu ekki. Og að sjálfsögðu hlýtur ríkið að vera skaðabótaskylt og með þessum duttlungum hæstv. ráðherra tel ég að hún sé að baka ríkinu skaðabótaskyldu og ég túlka a.m.k. orð prófessors Sigurðar Líndals í þá veru að þar sé hann líka sömu skoðunar.

Til hvers var þá, herra forseti, upphaflega lagt í þessa sjóferð? Það mætti kannski rifja það upp, ekki síst fyrir hv. þingmönnum Sjálfstfl. sem í orði kveðnu a.m.k. eru talsmenn frjálsrar samkeppni. Ég lít nefnilega svo á, herra forseti, og það er ágætt að hv. þm. Árni Mathiesen hlusti á þau orð mín, ég lít svo á að afgreiðsla þessa máls hér í þinginu sé í rauninni prófsteinn á þá fullyrðingu að Sjálfstfl. sé orðinn eins konar Framsfl. þar sem andstæðingar frjálsrar samkeppni eru smám saman að ná yfirhöndinni og í rauninni sé lítill eða enginn munur á þessum tveimur flokkum. Það mætti kannski rifja upp fyrir hv. þingmönnum Sjálfstfl. hvers vegna menn vilja yfirleitt stuðla að aukinni samkeppni á markaði. Reynslan er ólygnust og hún sýnir það án tvímæla, að aukin samkeppni leiðir í senn til lægra vöruverðs og bættrar þjónustu fyrir neytendur. Það kann að vera að í sumum tilvikum geti þessi aukna samkeppni dregið úr kröfum samkeppnisaðilanna til sjálfs sín, en eins og ég hef rakið hér fyrr í minni tölu, þá er búið að skjóta undir það, það er búið að gera strangar, faglegar kröfur til þessara aðila. Í þessu tilviki mundi aukin samkeppni leiða til þess að þjónustan batnar, það hefur komið fram hjá þeim mönnum sem hyggjast hasla sér völl á grundvelli gildandi laga. Þeir ætla að taka upp nýjungar. Lyf til að mynda hafa ætíð verið sveipuð hálfgerðri dulúð í augum neytandans m.a. vegna þess að hann hefur verið fjarlægur lyfjafræðingum. Hann er hulinn að hurðarbaki. Eitt af því sem þessir ungu menn sem ætla að setja upp fyrirtæki á grundvelli þessara laga munu gera er einmitt það að veita mér og ykkur, neytendunum í landinu, aðgang að lyfjafræðingnum, gefa neytandandum kost á að ræða við hann, spyrja út í kosti og galla lyfjanna. Það skiptir máli. Margvíslegar aðrar nýjungar hafa líka í för með sér bætta þjónustu. En það sem skiptir kannski ekki minnstu máli er það, herra forseti, að þetta gerir það að verkum að neytandinn vinnur sigur á tvennum vígstöðvum. Aukin samkeppni mun lækka kostnað hans af lyfjum beint og líka óbeint vegna þess að hún dregur úr kostnaði ríkisins. Þetta er aðall frjálsrar samkeppni og það var Sjálfstfl. sem hefur áratugum saman talið sig fulltrúa frjálsrar samkeppni. Og er það hann sem ætlar á þessum dögum að beygja sig undir duttlunga hæstv. heilbrrh., beygja sig undir afdönkuð markaðssjónarmið Framsfl. og éta sína eigin sannfæringu?

Ég minni á það, herra forseti, að þeir þingmenn sem sitja í þessum sölum sóru stjórnarskránni eiða. Í stjórnarskránni segir að menn eigi að fylgja sinni sannfæringu. Ætla þeir að rjúfa þennan eið og sverja Framsfl. hollustueiða? Ætla hinir ungu og frjálslyndu þingmenn Sjálfstfl. að beygja sig undir ok Framsfl. en láta stjórnarskrána róa?

Herra forseti. Ég minnist þess að hv. þm. Árni M. Mathiesen hefur hvað eftir annað flutt með glæsilegum hætti röksemdir fyrir gildi aukinnar samkeppni. Hv. þm. Pétri Blöndal beinlínis skolaði á fjörur þingsins vegna málafærslu sinnar á vettvangi frjálsrar samkeppni. Hv. þm. Sólveig Pétursdóttir hefur aftur og aftur í þessum stól mótmælt fyrirhugaðri lagasetningu, sem m.a. fyrri ríkisstjórn átti þátt í, vegna þess að henni þótti þar dregið úr frjálsri samkeppni.

Herra forseti. Ég á bágt með að trúa því að þetta verði það sem Sjálfstfl. framtíðarinnar ætlar að berjast fyrir og ég hef aðeins drepið á það sem biblían, hin daglega biblía Sjálfstfl. sagði um þetta mál. Og af því að hv. þm. Árni M. Mathiesen gengur svo vasklega hérna fram hjá mér, herra forseti, þá langar mig til þess að rifja upp fyrir honum og öðrum hv. þm. Sjálfstfl. hvað það var sem sagði um nákvæmlega þetta mál í ritstjórnargrein Morgunblaðsins, hvaða einkunn er það sem útvörður samkeppninnar á Íslandi, Morgunblaðið, virtasta dagblað landsins, gefur þeim mönnum sem ætla að samþykkja þetta gerræði. Það er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra hefur lýst yfir því að hún vilji enn fresta gildistöku þess lagaákvæðis sem veitir frelsi til reksturs lyfjabúða. Alþingi getur ekki komið í bakið á þeim sem byggt hafa fjárfestingar á gildandi lögum og ákvæðum þeirra með því að breyta öllum forsendum á síðustu stundu. Það er einfaldlega siðleysi. Það verður að teljast óhugsandi að stuðningsmenn frjálsra viðskipta á Alþingi taki þátt í slíkum leik.``

Herra forseti. Ætla hv. þingmenn Sjálfstfl. að taka þátt í þeim gráa leik? (Gripið fram í: Hvað segir Alþýðublaðið?)