Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 11:06:47 (38)

1995-10-05 11:06:47# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var býsna góð ræða hjá hv. formanni heilbr.- og trn. En hann er greinilega splunkunýr í málinu. Hann er fyrst að koma að því núna og hefur greinilega lítið fylgst með því. Hann vitnar hér í prófessor Sigurð Líndal og Sigurður Líndal segir réttilega: ,,Lög í réttarríki eiga að vera stöðug.`` En hvernig er nú þetta ágætis frv. og lög frá Alþfl.? Fyrri hluti þessa lagabálks var samþykktur á Alþingi í júní 1994. Hvað hefur þurft að breyta þeim lagabálki oft? Þrisvar sinnum á þessum tíma. Er það stöðugleiki? Nei. Við ætlum að ganga frá þessu máli þannig að það sé stöðugt, við erum að ganga frá lagabálki í mjög viðkvæmu máli þannig að við getum búið við þau lengi.

Hann kom víða við í ræðu sinni og sagði m.a. að starfsfólk innan heilbrrn. hafi unnið illa og því hafi ekki verið stjórnað nægilega vel. Ég ætla að segja hv. þm. það að þegar ég kom í ráðuneytið, þá var þessi reglugerðarsmíð öll eftir. Það er búið að smíða hana alla eftir að ég kom í ráðuneytið.

En ég ætla líka að minna hv. þm. á af því að hann minntist ekkert á hvernig lögin eru uppbyggð. Þau eru nefnilega bæði með höftum og frelsi og það er nú kannski flóknasti þáttur málsins. Fyrst er í lögunum boðað frelsi og svo koma höftin. Það þarf að sjálfsögðu að sækja um leyfi til heilbrrn. og heilbrrn. á að fá umsögn sveitarstjórna. Þá er talað um að það eigi að vera viss fjarlægð milli apóteka og viss fjöldi á bak við hvert apótek. Og af því að það er talað hér um vissa aðila sem eru búnir að fjárfesta mikið varðandi ný apótek, þá hafa þessir aðilar ekki sótt um tilskilin leyfi svo að það komi nú skýrt fram. En ég ræði betur við hv. formann í heilbr.- og trn. síðar í dag.