Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 11:09:26 (39)

1995-10-05 11:09:26# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þær breytingar sem hæstv. heilbrrh. segir að hafi verið gerðar þrisvar sinnum, hvers vegna voru þær? Man hæstv. ráðherra hvers vegna þær voru gerðar? Þær voru m.a. gerðar vegna mistaka Alþingis. Það þurfti að leiðrétta mistök sem urðu hér. Engar breytingar hafa verið gerðar á þessum lögum sem eru jafnróttækar og þær sem hér eru lagðar til vegna þess að þær gerbreyta starfsumhverfi heillar stéttar. Þær kollvarpa fyrirætlunum manna sem hafa varið tíma, atgervi og miklum peningum í að laga sig að þeim lögum sem eru í gildi í landinu.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði um græningjahátt minn í heilbrigðismálum, þá er það alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að ég kem nýr að þessu máli. En ég er snöggur að læra. Menn verða að virða mér grænkuna til vorkunnar og með fullri vinsemd við hæstv. ráðherra, þá vil ég láta þess getið að það er einmitt sama tillit sem hefur fleytt henni í gegnum brimskaflana hér og meðal þjóðarinnar.