Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 11:59:43 (49)

1995-10-05 11:59:43# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að rifja aðeins upp forsögu þessa máls til þess að við getum áttað okkur á því hvað hér er á ferð. Það frv. sem er til umræðu og kemur í framhaldi af frv. sem var flutt á vorþingi felur í sér enn þá lengri frestun á gildistöku ákveðinna kafla lyfjalaga, en frv. til lyfjalaga sem var afgreitt á vorþingi 1994 og hafði þá verið lengi til umfjöllunar í þinginu og í þingnefnd fól í sér gífurlegar breytingar á meðferð lyfja hér á landi og sölu lyfja og öllu því sem þar kom að. Upphaflega er málið saman sett úr tveimur þáttum, þ.e. annars vegar breytingar sem þurfti og þarf að gera vegna EES-samningsins. Þar erum við að ræða um enn eitt dæmið þar sem sá samningur krefst verulegra breytinga á fyrirkomulagi sem tíðkast hefur hér á landi og því ekki að undra að ýmsir aðilar hafi viljað fá tíma til þess að gera sér grein fyrir hvað þær breytingar þýddu og hvort þær væru nauðsynlegar í því formi sem þáv. ríkisstjórn lagði til.

Við fengum annað dæmi um þetta hér á vorþinginu sem voru áfengislögin þar sem fullyrt hafði verið að engar breytingar þyrfti að gera, en síðan kom í ljós að Eftirlitsstofnun EFTA taldi að það fyrirkomulag sem hér hafði tíðkast stæðist ekki EES-samninginn. Þetta mál tengist því sama að það fyrirkomulag sem hér hefur verið er ekki með þeim hætti sem hefur tíðkast á Evrópska efnahagssvæðinu og víða erlendis er allt annað form á lyfjasölu heldur en hér, en það er auðvitað ekki saman að jafna miðað við það dreifbýli sem hér er og þær samgöngur sem hér eru. Það er ekki sama hvort við erum að tala um stórborgir og þéttbýl lönd eins og Holland eða Frakkland eða ríki eins og Ísland þar sem menn þurfa að taka tillit til landsbyggðarinnar og tryggja þar ákveðna öryggisþjónustu. Og það er auðvitað sá þáttur málsins sem vakti hvað mesta umræðu hér veturinn 1993--1994. Það var einmitt hvaða áhrif þessi löggjöf mundi hafa á lyfjaverslun úti á landi. Það var einn stærsti þáttur þeirrar gagnrýni sem fram kom á þetta frv., en eins og hér hefur fram komið, þá var það líka mjög margt annað. Og það er hinn þátturinn sem snýr að þessu máli sem er auðvitað sú einkavæðingarhugsun sem er í þessu máli öllu saman og vissulega er ýmislegt réttlætanlegt í því, en (GÁS: Er engin einkavæðing í lyfjaiðnaði núna?) Jú, jú. Ég var að segja það, hv. þm., ég var að rekja það að það eru tveir þættir sem einkenna þetta mál, þ.e. inntak þess, þ.e. þær breytingar sem þarf að gera vegna EES-samningsins og hins vegar ákveðnar hugmyndir um einkavæðingu í lyfjaverslun og það eru ekki síst þeir þættir sem vakið hafa hvað mesta gagnrýni. En það voru líka ýmsir aðrir þættir sem leiddu til þess að það var mjög hörð andstaða hér á Alþingi við þetta frv. sem endaði með því, vorið 1994, að það var gert samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um það annars vegar að setja á laggir nefnd sem skyldi fara yfir lögin og áhrif þeirra og hins vegar var gert samkomulag um að fresta gildistöku ákveðinna kafla.

Eins og fram hefur komið hér, þá gengur afar hægt að vinna nauðsynlegar reglugerðir þannig að lögin eru ekki komin í raun til framkvæmda og sú nefnd sem við gerðum samkomulag um á sínum tíma hefur ekki úr neinu að moða. Og ef ég skil málið rétt, þá vil ég taka það fram strax að ég tek mér allan rétt til að skoða þetta mál upp á nýtt í ljósi þeirrar umræðu sem nú hefur orðið, en ég skil málið þannig að það er auðvitað ekki hægt að framkvæma lögin fyrr en þessar reglugerðir liggja fyrir og við hljótum að spyrja: Hvernig stendur á því að þessi reglugerðarsmíði tekur þetta langa tíma? Af hverju fær það mál ekki forgang í heilbrrn. ef það reynist satt sem fram hefur komið að ríkið sé nánast að verða skaðabótaskylt gagnvart þeim sem hafa verið að búa sig undir að breyta sínum rekstri eða fara út í rekstur vegna þessara laga sem menn hafa búist við að gengju í gildi? Það er auðvitað óviðunandi að það dragist svona lengi að fá niðurstöðu í mál af þessu tagi. Það er algerlega óviðunandi og ég skora á hæstv. heilbrrh. að ýta nú við því fólki sem er að vinna reglugerðirnar. Eða hvað er svona flókið í þessu? Það væri gaman að fá það upplýst á hverju stendur. Hvað er svona flókið?

Það er auðvitað ljóst að það er afskaplega þungt í krötum vegna þessa máls. Þetta var mikið baráttumál þeirra og þeir voru mjög ósáttir við það hvernig málið þróaðist og hvernig það var í rauninni stöðvað. En þetta mál er þannig vaxið, m.a. vegna þess öryggisþáttar sem snýr að lyfjasölu. Lyf eru ekki eins og hver önnur vara. Það þarf að gæta varkárni. Þau þurfa að vera örugg. Það eru mörg lyf þess eðlis að þau mega ekki liggja á glámbekk eða vera þar sem auðvelt er að nálgast þau fyrir þá sem ekki þurfa á þeim að halda en það eru ýmsir sem ásælast ýmiss konar lyf og þarna er auðvitað um hluti að ræða þar sem þarf sérfræðiþekkingu til að meðhöndla og er auðvitað ekki hægt að fjalla um sem slíka. En menn eru að leita leiða til þess að spara í lyfjasölu, reyna að finna leiðir til að lækka verð á lyfjum og vissulega þarf að gera það. En mér finnst að menn séu alltaf að nálgast þessi mál frá öfugum enda og menn eigi að spyrja: Hvers vegna öll þessi lyfjanotkun? Hvað er það sem veldur? Hvers vegna nota Íslendingar svona mikið af róandi lyfjum og svefnlyfjum og reyndar lyf af ýmsu tagi. Hver er orsökin? Menn eiga að leita orsakanna en ekki vera sífellt að glíma við afleiðingarnar.

Eins og málið blasir við mér núna, herra forseti, þá fæ ég ekki betur séð en það verði ekki hjá því komist að veita þennan frest sem hér er beðið um. Það er spurning hvort hann þarf að vera þetta langur og við þurfum að skoða það í hv. heilbr.- og trn., en það er ljóst að reglugerðirnar verða að liggja fyrir áður en til framkvæmdar kemur og áður en nefndin getur lagt eitthvert mat á lögin og það er auðvitað spurning, hvað ætlum við að gera við það mat? Verður hjá því komist að hafa fyrirkomulagið með þessum hætti? Er hægt að breyta því á einhvern hátt? En aðalatriði málsins er auðvitað það að það þarf að tryggja öllum landsmönnum eðlilegan aðgang að lyfjum og það fyrirkomulag lyfsölu þarf auðvitað að vera með eðlilegum og sanngjörnum hætti og ég er vissulega tilbúin til þess að skoða alla þætti málsins.

En það er eitt atriði í þessu frv. sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega út í. Spurningin varðar 2. gr. frv. þar sem kveðið er á um það að heilbr.- og trmrn. geti falið aðilum utan ráðuneytisins að annast alfarið útgáfu á sérlyfjaskrá og kemur hér fram að slíkt fyrirkomulag tíðkist m.a. á öðrum Norðurlöndum. Mér þætti fróðlegt að vita hvaða aðilar það eru sem gætu annast slíka sérlyfjaskrá. Það þurfa auðvitað að vera faglegir aðilar og það þurfa jafnframt að vera þeir sem ekki eiga beinna hagsmuna að gæta og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða aðilar eru það hér á landi sem gætu annast slíka skráningu? Auðvitað gætu hugsanlega verið einhver fyrirtæki eða stofnanir sem treystu sér til þess og leituðu sér faglegrar ráðgjafar, en ég sé það ekki á þessari stundu hvaða aðilar eru til þess færir hér á landi þó að vissulega sé ástæða til þess að flytja þetta verkefni eins og ýmislegt annað frá ráðuneytinu.

En að lokum, hæstv. forseti, ef svo er komið að meðferð þessa máls í ráðuneytinu og sú frestun sem orðið hefur á gildistöku þessara lagagreina, ef hún er farin að skaða einstaklinga, ef meðferð málsins hefur verið með þeim hætti að röng skilaboð hafa verið send út í samfélagið og menn standa frammi fyrir því að hafa fjárfest eða undirbúið starfsemi í þeirri trú að þessir lagakaflar mundu taka gildi innan tíðar, þá erum við auðvitað í vondum málum. Og ráðuneytið hlýtur að gera allt sem í þess valdi stendur til að hraða afgreiðslu þessa máls, þ.e. smíði reglugerða, þannig að þessi dráttur valdi ekki einstaklingum tjóni.