Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 12:49:19 (56)

1995-10-05 12:49:19# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur komið fram í ræðum mínum og þingmanna Alþfl. og raunar fleiri þingmanna í dag efasemdir um það að ráðherrann hafi yfirsýn yfir þetta flókna mál. Ég held að það hafi verið staðfest núna með svari ráðherrans. Ég varpaði fram einfaldri spurningu: Hefur einhver sótt um slíkt leyfi? Svar ráðherrans, áreiðanlega samkvæmt bestu vitund, ég dreg það ekki í efa, var nei. En mér er kunnugt um það að í síðustu viku var ítrekuð fyrirspurn aðila sem vildu hefja rekstur á grundvelli gildandi laga um hvað yrði gert við slíka umsókn. Svarið var einfalt, sama svar og þeir fengu í fyrra eða í vor, ég veit ekki hvenær, en í síðustu viku fengu þeir svarið: Slík umsókn verður endursend.

Það er alveg augljóst að ráðherrann veit ekki hvað er að gerast í hennar eigin ráðuneyti í þessum málum. Ég dreg ekki eitt einasta augnablik í efa að ráðherrann greindi frá samkvæmt bestu vitund. En málið er einfaldlega þetta: Þetta staðfestir það sem við höfum verið að halda fram hér í dag með ærnum rökum. Yfirsýn hæstv. ráðherra skortir í málinu. Hún veit ekki alveg hvað hún er að gera. Það speglast í því að hana skortir rök og það speglast í því að hún veit ekki hvað fer fram í ráðuneytinu í tengslum við þetta mál.