Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 12:58:56 (59)

1995-10-05 12:58:56# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég hygg að ljóst sé á því hvernig röð ræðumanna skipast hér að það verður ekki sá þingmaður sem hér stendur sem mun hafa síðasta orðið heldur hæstv. ráðherra og fer vel á því. Hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir í umræðunum að henni þyki þetta góð umræða sem hér hefur farið fram. Gott og vel. Má vel vera að mál hafi skipast þannig með einhverjum hætti í höfði hennar að hún geri sér betur grein fyrir því að sá málflutningur, sem hún hefur haft uppi fyrir því frv. sem hér er til umræðu, stenst ekki. Það eru engin rök sem hafa komið af munni hæstv. ráðherra sem styðja þessa breytingu.

Herra forseti. Ráðherrann er eiginlega orðinn þrísaga um það hvað er í vændum. Í greinargerð með frv. segir alveg skýrt að það eigi að meta hvaða áhrif gildistaka annarra kafla laganna hefði þannig að gera mætti breytingar á reglum VII. og XIV. kafla í framhaldinu á því. Í viðtali við Viðskiptablaðið segir ráðherra hins vegar að það sé ekki rétt skilið að hún vilji taka upp frv. að einhverju leyti eins og spurningin var orðuð. Og síðan í umræðunum hér í dag þá kemur það fram hjá hæstv. ráðherra, svo ég vitni orðrétt í hana: ,,Við höfum ekki boðað veigamiklar breytingar.`` Sem sagt, það eru engar breytingar boðaðar, það er boðuð upptaka í greinargerð en það eru samt ekki veigamiklar breytingar. Og ég held, vegna þeirrar óvissu sem hefur skapast í kjölfar málflutnings og aðgerða ráðherrans sem tengist þessu frv., þá sé nauðsynlegt að við fáum það fram hérna hvaða breytingar það eru sem hún hefur í bígerð. Ég held að það sé eðlileg ósk, m.a. með hagsmuni þeirra aðila að leiðarljósi sem hafa nú þegar lagt í umtalsverðar fjárfestingar á grundvelli gildandi laga.

Herra forseti. Ef ég mætti staðnæmast örlítið meira við þetta margnefnda viðtal við hæstv. ráðherra og fyrirsögn þess: ,,Hræðist lyfjaauglýsingar``. Og þegar maður les viðtalið og rekur sig í gegnum spurningar blaðamannsins þá kemur í ljós að það sem vefst líka fyrir blaðamanninum er það sama og hefur vafist fyrir mjög mörgum þeirra sem hafa talað hér í dag, rökin fyrir þessu frv. finnast ekki. Og þar kemur að lokum að þegar hann hefur elt ráðherrann uppi þá segir hann, með leyfi forseta, þegar blaðamaðurinn spyr hvaða áhrif þetta séu: ,,Ja, t.d. áhrif af auknu frelsi varðandi auglýsingar og auknu frelsi varðandi verðlagningu á lausasölulyfjum``.

Nú er það svo, hæstv. heilbrrh., að lyfjaauglýsingar á lausalölulyfjum hafa verið heimilar samkvæmt lögum síðan 1. júní 1994. Þ.e. hátt í tvö ár þá hefur verið heimilt að auglýsa lyf. Þetta ætti að vera tími sem ráðuneytið hefur væntanlega notað til að reyna að meta áhrif þessara auglýsinga og þess vegna langar mig til að varpa fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. ráðherra: Hvaða áhrif telur hæstv. ráðherra eða ráðuneytið að þetta aukna auglýsingafrelsi hafi haft á markaðinn? Ég held að það sé nauðsynlegt að við fáum að skyggnast inn í hugarheim ráðuneytisins í þessum efnum þar sem við kynnum e.t.v. að finna þar eitthvert strá sem við gætum haldið í og skilið betur gerðir ráðherrans.

Herra forseti. Það spannst hérna að mér þótti athyglisverð umræða í dag millum hæstv. forsrh. og hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar um það hvort ætti að gilda, lögin eða yfirlýsingar ráðherra.

Nú er það svo að þessi umræða spannst af því að þegar ráðherrann hæstv. var spurður í fjölmiðlum um það hvort þarna væri ekki verið að ganga á stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi manna, þá svaraði ráðherrann því til að menn hefðu getað gengið að þessu sem vísu vegna þess að það hefði komið yfirlýsing frá hæstv. viðskrh. og raunar yfirlýsingar í tvígang frá ríkisstjórninni um það að þessum lögum ætti að breyta.

Það er náttúrlega alveg ljóst eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson rakti að orð ráðherra eru ekki lög. Ég ætla ekki að gera hæstv. heilbrrh. upp þann valdhroka að hún sé þeirrar skoðunar, ég tel einfaldlega að þarna hafi verið einhver rangskilningur á ferðinni hjá hæstv. ráðherra. En hitt er það sem ég vil að komi hér skýrt fram að þeir aðilar sem hafa fjárfest í fyrirtækjum á grundvelli gildandi laga höfðu ærna ástæðu til að telja að það kynni að vera að ekki væri meiri hluti fyrir því frv. sem hér liggur fyrir. Hvers vegna? Vegna þess að á sumarþinginu treysti ríkisstjórnin sér ekki til þess að koma málinu í gegn. Þá vildi nú svo til að það voru ekki mjög margir til andsvara, það voru ekki margir fleiri en sá sem hér stendur. Eigi að síður var það þannig að ríkisstjórnin treysti sér ekki til að koma málinu í gegn og það er auðvitað eðlilegt að álykta sem svo að þeir aðilar sem hafa fjárfest í rekstri á grundvelli laganna hafi ætlað að það væru vomur á Sjálfstfl., vegna þess, eins og hv. þm. Árni M. Mathiesen sagði hér í dag, þá var það geirneglt af hálfu Sjálfstfl. í tíð síðustu ríkisstjórnar að hann mundi standa að þessum tímasetningum. Hv. þm. Árni M. Mathiesen lýsti því reyndar yfir að hann teldi að allir þingmenn væru bundnir af þessu og ég túlka orð hans þannig að hann sé a.m.k. þeirrar skoðunar að Sjálfstfl. sé bundinn af þessu.

Ef hv. þm. Árni M. Mathiesen, sem tilheyrir Sjálfstfl., er þessarar skoðunar, er þá eitthvað skrítið þó menn út í bæ telji að það leiki einhver vafi á afstöðu Sjálfstfl.? Má ég líka benda á það, herra forseti, að það eru örfáir dagar síðan hv. þm. Geir H. Haarde var í viðtali í Morgunblaðinu og sagðist gera ráð fyrir því að þingflokkurinn mundi staðfesta ákvörðun sína frá því í vor. Gera ráð fyrir því, hann var ekki alveg 100% viss. Ég tel herra forseti, að þetta séu nægilegar forsendur af hálfu stjórnarflokkanna til þess að gefa mönnum meira en það sem heitir á engilsaxnesku ,,reasonable doubt``. Ég held að þarna hafi menn verið að gefa því undir fótinn að Sjálfstfl. fylgdi ekki málinu. Það er eðlilegt. 40% þjóðarinnar hafa trú á Sjálfstfl., ég er að vísu ekki í þeirra hópi, en eigi að síður þá telur stór hluti þjóðarinnar að það sé eitthvað að marka Sjálfstfl. Sjálfstfl. í tíð síðustu ríkisstjórnar var andstæður því sem hæstv. heilbrrh. er að leggja til.

Eftir ræðu hv. þm. Árna M. Mathiesen tel ég að það leiki enn meiri vafi á þessu. Það er alveg ljóst að hv. þm. Árni M. Mathiesen rær ekki einn á báti. Með honum eru aðrir menn og traustir í rúmi eins og t.d. hv. þm. Kristján Pálsson, sem nú gengur kokhraustur í salinn. Hann er einn af þeim sem hafa í nýafstaðinni kosningabaráttu lýst miklu fylgi við aukna samkeppni. Þannig að ég tel, herra forseti, að það séu miklar líkur á því að með þessu fljótræði sé hæstv. heilbrrh. að baka ríkinu talsverða skaðabótaábyrgð.

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. var í fleygum ummælum hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur lýst hér í umræðunum í gær sem ráðherranum á skurðstofunni. Ég geri mér alveg grein fyrir því að hæstv. heilbrrh. bíður afskaplega erfitt verkefni. Hún hefur ekki úr nægum fjármunum að moða og það er ekki bara hennar vandamál heldur þjóðarinnar allrar. Hún hefur neyðst til þess að leggja í ýmsar sparnaðaraðgerðir sem ég veit að hún er í hjarta sínu á móti en telur sér óhjákvæmilegt að ráðast í. Og það er einmitt þess vegna sem ég er svo hissa á því að sjá hæstv. heilbrrh. fleygja burt hugmyndum sem leiða til sparnaðar hjá ríkinu sem nemur 100 millj. kr. á ári. Það er ekki lítil upphæð, 100 millj. kr. sem hæstv. heilbrrh. telur að hún geti fleygt rétt sí svona út um gluggann.

Ég var mikill stuðningsmaður hæstv. núv. heilbrrh. á síðasta þingi þegar hún barðist og hafði nokkurn árangur í málefnum glasafrjóvgunardeildar Landspítalans. Nú er ég einn af þeim sem telja mikinn siðferðilegan vafa leika á því að menn þurfi að greiða fyrir þá þjónustu sem þeir óhjákvæmilega verða að leita til að reyna að leita þeirra leiða sem eru færar að þeirri lífshamingju sem felst í því að eignast barn. Það er allt í lagi fyrir þingmenn eins og mig, sem hef ágæt laun og sem fara stöðugt hækkandi, en það eru ekki allir eins velsettir og þingmenn og ráðherrar. Það eru ýmsir í þessu þjóðfélagi sem einfaldlega eiga erfitt, sem eru atvinnulausir, sem búa við lág laun sem ég og hæstv. heilbrrh. og margir fleiri bera einhverja ábyrgð á, þetta fólk á alveg nákvæmlega sama rétt til þessarar lífshamingju og aðrir. Nú er hæstv. heilbrrh. að hækka gjaldið þar um 100%. (Heilbrrh.: Það er ekki ákveðið.) Það hefur komið fram í umræðum af hálfu ríkisstjórnarinnar og það ekki hægt að lesa annað út úr fjárlagafrv. en að þar eigi að taka 24 millj. í viðbót, það á að hækka gjaldið um 100%. Með öðrum orðum, hér er hún að fleygja út um gluggann upphæð, sparnaði sem gæti mætt þessari hækkun í fjögur ár. Þar þykir mér skjóta skökku við. Mér þykir það líka skjóta skökku við að hún skuli nú standa að því að aftengja hækkun örorkubóta við hækkun verðlags, mál sem henni var mjög annt um á síðasta kjörtímabili, þegar hún gæti með því að samþykkja þær hugmyndir sem Alþfl. lagði fram náð sem svarar tvöföldum árlegum sparnaði við það mál. En hún vill heldur, herra forseti, slátra lambi fátæka mannsins til að búa nauðstöddum apótekurum átta mánaða veislu.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst það vera allt önnur Ingibjörg sem nú talar heldur en á fyrri tíð þegar ég sat hér í sölum og dáðist oft á tíðum að því hversu rösklega hún tók á málum. Ég vil ekki segja að það sé umskiptingur í sæti hæstv. heilbrrh., en mér finnst hún hafa breyst mjög til hins verra. Og ég vænti þess að hún staldri nú aðeins við og velti því fyrir sér hvort ekki sé mál að linni.

Herra forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að ítreka það að ef Sjálfstfl. ætlar sér að samþykkja þetta frv. þá er staðreyndin einfaldlega þessi: Ef Sjálfstfl. ætlar að verða til þess að ná því í gegn sem Morgunblaðið kallar í senn forneskju og siðleysi þá er komin enn ein sönnunin um umskipti sjálfstæðismanna úr frjálslyndum flokki markaðshyggjumanna yfir í eitthvað illa skilgreint afbrigði af tímafirrtum Framsóknarflokki. Og þá hljóta menn líka að skilja að útfærsla GATT og óttinn við að ræða Evrópusambandið er ekki bara tilviljun heldur pólitísk stefna þar sem viðhorfum neytenda er hampað í orði en þeim er hafnað á borði.