Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 13:15:06 (61)

1995-10-05 13:15:06# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var stórkostleg yfirlýsing að af því að málið kemur frá fjmrn. þá falli það um sjálft sig. (Heilbrrh.: Að það komi frá heilbrrn.) Þá væntanlega, virðulegi forseti, getum við sparað okkur að mæta hér á morgun þegar á að ræða fjárlög ríkisins því þau koma náttúrlega frá fjmrn. og hljóta þá að vera fallin um sjálf sig.

Þau koma náttúrlega frá fjmrn. og hljóta að vera fallin um sjálf sig. En það er dálítið gaman að lesa það sem hér stendur frá fjmrn. því að þar er það sagt að þessi frestun kosti 100 millj. kr. eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson var að segja. En hæstv. heilbrrh. segir að það sem komi frá fjmrh. falli um sjálft sig.

Virðulegi forseti. Ég spurði þriggja spurninga (Gripið fram í: Þú sagðir það aldrei.) Ég hélt að ég væri sæmilega skýr í málflutningi en það hefur ekki enn komist til skila til hæstv. ráðherra að ég bað um svar við þremur spurningum. Hún svaraði engri þeirra. Hún svaraði því einu til að 41. gr. í þessu frv. væri óþörf því að sambærileg ákvæði væri að finna í almannatryggingalögum og af hverju er þá hæstv. ráðherra að flytja þessa grein? Af hverju fellir hann hana ekki bara niður fyrst þetta er hvort eð er til í almannatryggingalögum? Og hvar í almannatryggingalögum er þetta ákvæði? Ég minnist þess ekki að almannatryggingalög hafi gefið heimildir til þess að Tryggingastofnun ríkisins tæki ekki þátt í greiðslu lyfja sem hafa verið samþykkt til nota á íslenska heilbrigðismarkaðnum ef það má orða það svo. Ég stóð í þeirri trú að það þyrfti sérstaka lagasetningu til þess og hún væri í lyfjalögunum sem ég var að benda áðan á en það getur vel verið að ég hafi ekki haft rétt fyrir mér. Þá vil ég fá betri upplýsingar um málið frá hæstv. heilbrrh. En ég ítreka það. Ég spurði þriggja spurninga, hæstv. heilbrrh. Nú spyr ég í þriðja sinn. Vill hæstv. ráðherra vera svo vinsamlegur að svara?