Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 13:20:39 (63)

1995-10-05 13:20:39# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson spyr: Eftir hvaða lögum er unnið í heilbrrn.? Það er að sjálfsögðu unnið eftir núgildandi lögum.

Menn hafa efast um að heimild sé í almannatryggingalöggjöfinni fyrir því að Tryggingastofnun geti skoðað ný lyf sem koma inn á markaðinn og stöðvað að þau fari inn þannig að Tryggingastofnun greiði þau. Það er í löggjöfinni og það er í 36. gr. löggjafarinnar þannig að þingmenn geta lesið sig til um það. En mér finnst umræðan vera komin algerlega út á kaldan klaka hjá hv. þm.

Menn hafa viðurkennt það margsinnis í ræðustól og í lagatexta að þeir séu tilbúnir að skoða áhrifin af þessum reglugerðum sem við erum margsinnis búin að tala um. En nú virðast menn svo hræddir við það að sjá hver áhrifin verða. Hvað veldur þessum mikla óróa hjá Alþfl.? Hvað veldur þessum óróa? (KÁ: Fortíðarvandi.) Það kann að vera rétt hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að það sé einhver fortíðarvandi sem kvelur. Ég skal ekki segja um það. Svona útúrsnúningar út og suður eins og hér hafa gengið varðandi fjmrn. og heilbrrn. o.s.frv. Þetta er auðvitað bara til að skemmta skrattanum. Aðalatriðið er þegar þessi lög taka gildi að við þurfum ekki að breyta þeim margsinnis næstu mánuði eins og gerðist með fyrri hluta þessa lagabálks í tíð Alþfl.