Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 13:23:22 (64)

1995-10-05 13:23:22# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki að undra þó að ráðherrann þreytist á umræðunni. Það gera menn nú gjarnan þegar vondan málstað er að verja og enn og aftur verð ég að biðja hæstv. forseta að sækja hæstv. ráðherra og hafa hann inni í salnum.

Ég hef náttúrlega á því fullan skilning, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra þurfi að sækja sér aðstoð í hliðarherbergi og lesa sig til enda með prýðilegt starfsfólk í heilbrrn. En það breytir því og ekki að enn og aftur glöggva ég mig ekki á því algerlega, hæstv. ráðherra, hvernig nefnd sem á að gaumgæfa áhrif gildandi laga eigi að skoða aukið frelsi varðandi verðlagningu lausasölulyfja á næstu átta mánuðum þegar hæstv. heilbrrh. fer þess á leit við hið háa Alþingi að fresta gildistöku þess frelsis. Ég segi aftur: Hvers konar hundalógík er þetta? Er von að menn staldri við og velti því fyrir sér hvernig þessi málatilbúnaður er allur til kominn og á sama hátt: Er það ærleg og einlæg skoðun hæstv. heilbrrh. að umsögn fjmrn., fjárlagaskrifstofu um þetta tiltekna frv. sé bull og þvættingur og ekki takandi mark á því? Ef svo er hlýtur maður líka að spyrja: Hvers vegna er í veröldinni er þá lagt til í fjárlagafrv., sem liggur nú fyrir þinginu og verður til umræðu á morgun, að þegar eigi njóta ávaxtanna af samkeppni á innflutningssviði lyfjanna sem fjárlagaskrifstofan og fjmrn. fer líka hér orðum um? Er með öðrum orðum allt í lagi að taka mark stundum þegar það hentar en þegar það gengur í berhögg við duttlunga hæstv. ráðherra er það bara bull og þvættingur. Þetta þarf náttúrlega þjóðin að vita og þinginu þætti væntanlega líka vænt um það, virðulegi forseti, að fá einhverja skýringu á því þó að ekki sé ég bjartsýnn á það.