Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 13:28:16 (66)

1995-10-05 13:28:16# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra gerist nú framstygg mjög yfir þeim spurningum sem til hennar er varpað. Þó er nú svo að það hefur verið siðvenja í þessum sölum að hv. þm. hafa átt kost á því að spyrja hæstv. ráðherra út úr um ýmis mál ef það mætti verða til þess að greiða fyrir þingstörfum og meðferð mála í nefndum.

Áður en ég kem að spurningu minni langar mig samt að geta þess að hæstv. ráðherra orðaði það svo að ég væri að skemmta skrattanum með því að reyna að reka fleyg á milli hennar og fjárlagaskrifstofu fjmrn. Ég held að enginn sé jafnríkt í hlutverki þess skemmtikrafts sem hefur skemmt skrattanum og einmitt hæstv. ráðherra. Það hefur auðvitað ekki gerst áður hér að einn ráðherra lýsir vanþóknun og fyrirlitningu á störfum annars en það er í rauninni það sem hæstv. heilbrh. hefur gert. Hún hefur sagt að það sé ekkert að marka þessa útreikninga fjárlagaskrifstofu fjmrn.

Nú vill svo til að ég er svolítið kunnugur því hvernig svona vinna fer fram og það er ekkert eintal sálarinnar uppi í fjmrn. Ef ráðherra fagráðuneytisins er ósammála því mati sem kemur fram hjá fjmrn. gerir hann viðkomandi skrifstofu grein fyrir því og menn reyna síðan að vega og meta rök. Mér sýnist að í þessu tilfelli hafi það ekki verið gert eða þá rökfærsla hæstv. ráðherra hafi verið svo léttvæg eins og hér í dag að það hefur ekki verið tekið mark á henni í fjmrn. Ef svo er skil ég vel særindi hennar.

Ég varpaði fram einni spurningu. Það hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra, bæði hér í sölum og eins í fjölmiðlum, að það er fyrst og fremst einn þáttur sem hún hefur tínt til sem þarf að meta varðandi framtíð þessara mála sem um er vélað í frumvörpum hennar. Það eru auglýsingarnar. Nú er það svo að frá 1. júní 1994 hefur verið frelsi um auglýsingar á lausasölulyfum. Ég er alveg sannfærður um að ráðherra sem vinnur verk sín jafn vel og hæstv. heilbrrh. hlýtur að hafa látið kanna eða hefur vinnu í gangi til þess að reyna að meta það hvernig þetta auglýsingafrelsi hefur haft áhrif á markað fyrir lausasölulyf. Ég varpaði áðan fram spurningu til hæstv. ráðherra hvort hún gæti sagt mér það hvernig hún og ráðuneytið meti þessi áhrif. Ef hún getur það ekki þá skil ég það vel, kann vel að vera að hún hafi það ekki við höndina. En mér þætti fróðlegt og það yrði til aðstoðar við þessa umræðu ef maður skildi hugsunarháttinn varðandi þann þátt. Menn hljóta að draga einhvern lærdóm af honum varðandi hina kaflana.