Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 11:22:32 (70)

1995-10-06 11:22:32# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., MF
[prenta uppsett í dálka]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu olli miklum vonbrigðum. Fyrst og fremst vegna þess að ég átti von á að hæstv. ríkisstjórn og þeir flokkar sem standa að ríkisstjórninni hefðu meiri metnað til að bera en kemur fram í þessu frv. Þar er ekki um neinar nýjar tillögur að ræða. Ekkert nýtt, gömlu úrræðin sem notuð hafa verið öll þau ár sem hæstv. fjrmrh. hefur gegnt þessu embætti. Enn er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Enn er höggvið í kjör og kjaramál sjúklinga og þeirra hópa sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.

Það var flokkur, sem fór fram fyrir kosningar, fullur af bjartsýni með fullt af ungu fólki í framboði og boðaði bjarta framtíð, fólk í fyrirrúmi. Þessi flokkur á nú aðild að ríkisstjórn, skiptir ráðuneytum til helminga við Sjálfstfl. og hefur engan metnað til að bera lengur. Hann kemur a.m.k. ekki fram í því frv. til fjárlaga sem hér er rætt og ljótt að sjá að einmitt þau ráðuneyti þar sem fólkið á að vera í fyrirrúmi og heyra nú undir þennan ákveðna flokk hafa verið skorin illa niður. Sömu gömlu úrræðin. Framsýnin og bjartsýnin farin, hjakkað í sama farinu, doði aðgerðarleysis hefur lagst yfir Framsfl. Hann var náttúrlega í Sjálfstfl. en hann hefur lagst yfir Framsfl. líka. Þetta er gamaldags frumvarp þar sem beitt er gömlum úrræðum, ekkert nýtt eða ferskt. Það meginmarkmið að ná niður halla ríkissjóðs er gott en aðferðirnar sem nota á til þess að ná þessu markmiði eru gamlar og margreyndar og hafa engu skilað.

Hæstv. fjrmrh., sem leggur fram fimmta frumvarp sitt, hefur jafnoft lýst vilja sínum til þess að ná hallalausum ríkisrekstri innan tíðar. Svolítið hefur verið misjafnt hversu langan tíma hann hefur ætlað sér til þess verks, allt frá tveim árum upp í fjögur. En staðreyndirnar tala sínu máli, samanlagður hallarekstur ríkisins síðastliðin fjögur ár er geigvænlegur þannig að göfug markmiðin hafa farið fyrir lítið. Því átti ég von á að sjá hér eitthvað nýtt, einhverjar kerfisbreytingar, ferskar hugmyndir eða markvissa forgangsröðun verkefna. Ekkert slíkt er í þessu frumvarpi. Áfram á að beita flötum niðurskurði án tillits til mikilvægis verkefna, pína fram sýndarmennskuhagræði með flötum niðurskurði á stofnanir. Aðferðir sem alls ekki skila neinum árangri til lengri tíma litið. Ríkisstjórnarflokkarnir, sérstaklega þessi sem lofaði miklu fyrir síðustu kosningar, þessi týndi sem búinn er að gleyma loforðunum. Það var reyndar þannig að forsrh. lét reikna út kostnaðinn við loforðin. (Gripið fram í: Alþýðubandalagið.) Það er rangt. Hann tók alla stjórnarandstöðuflokkana, þáv. Framsfl. líka og mig minnir meira að segja að Framsfl. hafi verið með hvað stærstar tölurnar í þeim efnum. En hæstv. forsrh. beitir hins vegar þeirri aðferð, sem hann er búinn að koma inn hjá Framsfl. núna, þ.e. að þegar lagðar eru fram tillögur sé það eins og hrein viðbót við þau fjárlög sem eru í gildi, ekki að eitthvað ætti að fara út á móti eða það ætti að breyta forgangsröðinni heldur var um hreina viðbót að ræða. Það virtist ekki komast inn í hans hæstv. koll að hægt væri að breyta forgangsröðun. Nýjar hugmyndir og nýjar tillögur þurfa ekki endilega að þýða viðbætur. Þær þurfa ekki að þýða að það séu viðbætur heldur aðeins breyting. Framsóknarflokkurinn hefur etið öll loforðin ofan í sig og kokgleypt aðferðafræði Sjálfstæðisflokksins.

Hallalausum fjárlögum á að ná með því að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Skerða bætur lífeyrisþega, auka álögur á sjúklinga undir því yfirskini að það sé verið að jafna greiðslur þannig að allir beri sama kostnað. Það er flatur niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni. Einkavæðing sérhæfðra deilda sjúkrahúsa. Mæðra- og feðralaun með einu barni felld niður. Ekki á að standa við lög um miskabætur til fórnarlamba ofbeldismanna. Minni framlög verða til málefna barna og unglinga, þar er skorið niður um tæpar 20 milljónir, m.a. fjármunir sem renna til þess að fjármagna meðferðarheimili fyrir börn og unglinga. Framlög til framkvæmdasjóða aldraðra og fatlaðra lækkuð um 200 milljónir. Ellilífeyrisþegar, 67 til 70 ára, sem notið hafa afsláttar á lyf og læknisþjónustu skulu nú greiða fullt gjald. Dregið skal úr fjárfestingu hins opinbera sem þó var í lágmarki áður og þar er niðurskurður tæpir þrír milljarðar. Svona mætti lengi telja. Kannast einhver við þessi úrræði? Ef flett er upp í umræðum um fjárlagafrumvarp síðustu fjögurra ára má sjá að hér eru alltaf nákvæmlega sömu úrræðin notuð. Það er næstum því að maður geti reiknað með því að hægt verði að taka sömu stefnuræðuna eða fyrstu ræðu hæstv. fjmrh. og flytja hana bara aftur og aftur eða spila hana hér fyrir okkur af spólu því þetta er svo líkt. Það eru nákvæmlega sömu atriðin sem á að skera niður. Þessar aðferðir við að ná niður ríkissjóðshallanum á að nota þótt þær hafi litlu skilað. Niðurstöðutölur ríkisreiknings sl. þriggja ára segja sína sögu. Árið 1992 var hallinn rúmlega 7 milljarðar. Sú aðferð sem þá var notuð er notuð nú. Árið 1993 rúmlega 9 og hálfur milljarður. Sama aðferðin og notuð var þá er notuð nú. Árið 1994 rúmlega átta milljarðar. Sama aðferðin notuð og nota á núna. Og enn þessi aðferðafræði sem hér birtist. Þetta metnaðarlausa frv. til fjárlaga er alveg með ólíkindum. Niðurskurður á kjörum þeirra verst settu, niðurskurður á fjárfestingu og viðhaldi og svolítið skattafiff. Þetta eru tíðindi fjárlagafrv., þetta eru skilaboð Framsfl. til þess stóra hóps kjósenda sem trúði á fyrirheit Framsfl. og málflutning, hélt að þarna væru allt í einu farnir að blása ferskir vindar sem ekki hafði gerst áður. Hafi örlað á þessum frískleika hjá þeim ungu framsóknarmönnum, sem ganga hér um salina, þá er hann að fullu horfinn. Sjálfstæðisflokkurinn gaf víst bara eitt loforð ef marka má fréttir í gærkvöld, að sjá til þess að verulegt fjármagn væri sett í samgöngumál. Slík fjárfesting skilar sér margföld til baka, sögðu fulltrúar Sjálfstfl. Þetta loforð er einnig svikið í frumvarpi til fjárlaga. Ríkisstjórnin vill ekki heldur arðsamar framkvæmdir, bara stöðnun.

Forsendur þær sem frumvarpið byggir á eru reyndar frekar ótraustar. Fyrst og fremst vegna þess að ríkisstjórnin hefur með aðgerðum sínum og tillögum nú stefnt friði á vinnumarkaðinum í stórhættu. Ég trúi því ekki að launafólk í landinu, sem búið er að sýna stjórnvöldum ótrúlegt langlundargeð, taki enn þeim stóru kjaraskerðingum sem í frumvarpinu eru boðaðar. Það er því full ástæða til að efast um að þær forsendur sem frumvarpið byggir á séu traustar. Frumvarpið sjálft gengur af þeim dauðum.

Helstu niðurstöður þjóðhagsáætlunar eru þær að hagvöxtur minnki heldur á næsta ári og er það ekki nema von þegar dregið er verulega úr fjárfestingum. Ofan á það bætast síðan aflaspár. En taka verður fram að forsendur Þjóðhagsstofnunar eru án stóriðju. Hún er ekki með stóriðju inni í sínum spám. Af hverju skildi það nú vera? Eru starfsmenn Þjóðhagsstofnunar farnir að efast um stóriðjudraumana sem þeir hafa orðið að taka inn ár eftir ár eftir ár og aldrei orðið að veruleika? Nú láta þeir þá liggja milli hluta. Taka þá bara inn ef þeir verða að ranveruleika. Verðbólga er áætluð 2,5% á árinu 1996. Atvinnuleysi svipað og í ár. Ég held að hæstv. fjmrh. hafi sagt í ræðu sinni hér áðan að frv. boðaði ný störf og öflugt atvinnulíf. Ég sé ekki hvernig hægt er að lesa það út úr þessu frv. enda hefur engum tekist það nema forsvarsmönnum þessarar ríkisstjórnar. Gert er ráð fyrir 10% aukningu í fjárfestingu hjá atvinnuvegunum, 13% átti aukningin að vera í ár, en það vegur þó ekki upp samdrátt í fjárfestingu hjá ríki og sveitarfélögum. Sveitarfélögin hafa dregið verulega úr fjárfestingum sínum og það er ekkert sem bendir til þess að þau muni auka þær á næsta ári og það er samhengi þarna á milli. Það er beint samhengi á milli fjárfestinga hjá hinu opinbera og atvinnustigsins í landinu.

Það sem Þjóðhagsstofnun varar helst við að geti breytt þeim forsendum sem hún hefur sett fram er meðal annars: Breytingar á launaþróun næstu mánuði, óróleiki í vaxta- og gengismálum, aukin skuldsetning heimilanna sem nálgast nú hættumörk. Enn hefur engin hv. framsóknarmaður beðið um utandagskrárumræðu um málið. Skuldsetning heimilanna er mun meiri en gerist í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við.

Í stefnuræðu forsætisráðherra gat hann þess að útlit væri fyrir að vextir lækkuðu. Á þessu ári hefur ríkissjóður leitað verulega á erlenda markaði með stóran hluta af lántökum sínum. Með því var ekki eins mikill þrýstingur á innlendan lánamarkað. Því hefði mátt ætla að það hefði stuðlað að lækkun vaxta umfram það sem hefur gerst. Reyndar hækkuðu þeir í upphafi árs en hafa farið aðeins lækkandi. Vextir af verðtryggðum skuldabréfum hafa verið hærri en vextir af óverðtryggðum lánum sem eru á lánamörkuðum í löndum allt í kringum okkur. Erlendar lántökur ríkissjóðs eru allt of miklar og vel ef tekst að draga úr þeim eins og stefnt er að. En ekki er víst að nýjasta tilraun hæstv. fjmrh. að selja óverðtryggð ríkisskuldabréf að nafnvirði um 300 milljónir króna, þar sem meðalávöxtunarkrafa er 10,8%, skili neinum sérstökum árangri. 300 milljónir króna eru aðeins örlítill hluti af lánsþörf ríkisins og segir því lítið um það sem koma skal og að selja þessi skuldabréf á þessum kjörum er svo sem ekkert til að hrósa sér af. Meðalávöxtun 10,8% miðað við 2,5% verðbólgu eins og spáð er í frumvarpinu gefur rúmlega 8% raunávöxtun. Það er ekki hægt að taka þessa aðgerð sem neina vísbendingu um það að hér muni vextir lækka eins og mér fannst koma fram í máli hæstv. ráðherra þegar hann kynnti þessa sölu. Til þess þarf fleira að koma til og eins og ég nefndi áðan og bendir ýmislegt til þess að verðbólga fari vaxandi. Því finnst mér gleði ráðamanna með sölu skuldabréfanna full áköf þó ekki verði meira sagt.

Ríkisstjórnin leggur ofurkapp á þann málflutning sinn að draga eigi úr halla ríkisins og að 1997 verði hér hallalaus fjárlög. Þetta markmið er út af fyrir sig gott og við getum öll sameinast um að stefnt skuli að þessu. Leiðirnar að markmiðinu eins og þær birtast í frumvarpinu eru hins vegar þreyttar og alls ekki líklegar til árangurs. (VS: Hvaða leið vill hv. þm.?) Það kemur að því að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sem var hérna með ýmis úrræði ekki fyrir löngu, fyrir örfáum mánuðum, fær að heyra tillögur mínar og annarra þingmanna Alþb. og óháðra, við munum flytja þær nú við afgreiðslu fjárlaga. Það er engin hætta á öðru. Ég mun reyndar geta þess hér í ræðunni hvaða leiðir ég hefði viljað sjá að hefðu verið farnar. Leiðirnar eru þreyttar og t.d. er lítið sem ekkert tekið á rekstrargjöldum. Ef draga á saman í rekstri er það fyrst og fremst á þeim stöðum þar sem skert þjónusta bitnar á þeim sem minnst hafa eins og í heilbrigðisþjónustunni. Það hefur ekki verið lögð vinna í að skoða rekstur ríkisins, umfang stofnana og starfsemi.

Þjónustusamningar sem gerðir hafa verið vöktu ákveðnar vonir þess efnis að samfara slíkum samningum yrði gerð úttekt á starfsemi viðkomandi stofnunar og borin saman við gildandi lög eða reglugerðir um hana. Síðan athugað hvort aðrar stofnanir væru í raun að sinna sömu verkefnum og jafnframt væri athuguð raunveruleg þörf fyrir verkefnin eða starfsemina. Þetta virðist ekki hafa verið gert. Það er slæmt og dregur úr þeim áhrifum sem samningsstjórnunun gæti haft til hagræðingar í ríkisrekstri. Ljóst er að verkefni skarast milli stofnana ríksins og jafnvel ráðuneyta. Því er nauðsynlegt að gera heildarúttekt á starfsemi stofnana ríkisins og meta upp á nýtt hver eru hin samfélagslegu verkefni og hvaða verkefni það eru sem njóta ríkisframlaga en varla er hægt með góðu móti að segja að séu e.t.v. verkefni samfélagsins. Það hefur einnig gerst að einstaka stofnanir hafa á undanförnum árum tekið að sér ákveðin tímabundin verkefni og fengið til þess sérstök framlög á fjárlögum ríkisins. Ég sé að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir fylgist af athygli með þessum kafla þar sem ég er að benda á aðrar leiðir eða a.m.k. vandaðri leiðir. Alls ekki er sjálfgefið að framlög stofnana til tímabundinna verkefna hverfi um leið og verkefninu er lokið. Það virðist vera tilhneiging til þess að fjárveitingin sé þá komin inn í fasta grunnfjárveitingu til viðkomandi stofnunar. Hér er um innbyggða sjálfvirka hækkun fjárlaga að ræða. Ef til vill er þetta vegna þess að viðkomandi stofnanir þurfa ekki að skila greinargerð um stöðu verkefna eða framgang. Ég vænti þess að verkefnavísar stofnana ríkisins ættu þó að að auðvelda eftirlit með stöðu verkefna og einnig samanburð á því hvort stofnanir eru að fást við sömu eða sambærileg verkefni og hvort verkefnasvið þeirra skarist og þar sé hægt að spara. Ég er eftir átta ára setu í fjárlaganefnd sannfærð um að þannig er þetta í dag. Það er hægt að fara enn frekar í verkefni og fjárlög hverrar stofnunar og marka starfsvið hennar umfram það sem gert er í dag. Ég get nefnt tvo litla liði á fjárlögum undanfarin ár sem sýna ef til vill hvað við er átt. Þeir sýna þetta kannski í hnotskurn þó þetta sé að vísu litlir liðir. Báðir hjá sama ráðuneyti --- það er ef til vill óréttlæti í því að taka eitt ráðuneyti umfram annað --- en ég tek þetta bara sem dæmi um það sem er að gerast innan stofnana og ég held reyndar ráðuneyta ríkisins einnig.

Árið 1992 var sérstakur fjárlagaliður á safnlið umhvrn. sem heitir Stefnumörkun í umhverfismálum. Hann er búinn að vera þarna fastur síðan árið 1992 og búið að veita 8,4 millj. til að marka stefnu í umhverfismálum. Nú er samkvæmt frv. gert ráð fyrir 3,5 millj. kr. til viðbótar sem samanlagt gerir um 12 millj. kr. á þessum árum síðan 1992. En það bólar ekkert á þessari stefnu eða stefnumörkun. Hún hlýtur að verða mikil þegar hún loksins birtist. Þetta er búinn að vera fastur fjárlagaliður síðan 1992. Það væri mjög fróðlegt að fá að vita um framvindu þessa máls og til hvers þessi fjárlagaliður hefur verið notaður. Stefnumörkunin og þessi mikla vinna fer nú e.t.v. loksins að skila sér. Við þetta má síðan bæta að umtalsverðum upphæðum hefur verið varið til annars konar stefnumörkunar á sviði umhverfismála. Í fjárlögum ársins 1992 var liður undir heitinu Stefnumörkun í fráveitumálum og kostaði þá tæpar 7 millj. kr. á árabilinu 1992--1994. Það er auðvitað gott og blessað en við þurfum að velta fyrir okkur hverju þessar fjárveitingar hafa nú skilað. Ég veit ekki betur en að stefnan í fráveitumálum komi fullmótuð frá Brussel með EES-samningnum.

Ég er sammála því að það þurfi að setja fjármagn í undirbúning mála og stefnumótun. Það er ekkert að því. En það er dálítið fáránlegt þegar sami liður birtist ár eftir ár eftir ár á fjárlögum ríkisins án þess að maður sjái nokkuð móta fyrir greinargerð um það í hvað peningarnir hafa farið. Ég er ansi hrædd um að ef allir þessir liðir eru lagðir saman, hvort sem þeir eru í ráðuneytum eða einstökum stofnunum sem heyra undir ráðuneytin, geti verið um verulegar fjárhæðir að ræða. Þess vegna teldi ég rétt að leggja í þá vinnu að fara yfir hverja einustu stofnun. Það tekur auðvitað tíma en engu að síður hefði ég viljað sjá a.m.k. þann metnað hjá núv. ríkisstjórn að það væru teknir svo sem tveir málaflokkar og farið yfir þá og þær stofnanir sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti.

Hæstv. fjmrh. sagði áðan að þeir væru fáir, vinir ríkissjóðs. Það er alveg rétt það er tiltölulega lítill hluti landsmanna sem greiðir skatta í ríkissjóð. Það hljóta að vera þessir fáu vinir ríkissjóðs. Þess vegna væri kannski rétt að þetta fólk sem greiðir skattana sína með skilum væri ekki alltaf það sem yrði fyrir niðurskurðarhnífnum þegar honum er beitt en þannig er það a.m.k. í þessu frv. Hæstv. ráðherra sagði líka að þjóðin mundi fylgjast með þeim sparnaðartillögum sem stjórnarandstaðan kæmi með. Það er ég alveg viss um að þjóðin mun gera. En þjóðin mun líka fylgjast með þeim sparnaðartillögum og hvernig þeim reiðir af sem eru í frv. til fjárlaga og þjóðin mun örugglega bera þær tillögur saman sem eru nú fluttar og þær sem hafa verið fluttar undanfarin fjögur ár og komast að þeirri niðurstöðu að þar sé nú ekki mikill munur. Þar sé ekki mikill munur annar en sá að skerða fjárlög til vegamála sérstaklega og svo annarra stofnframkvæmda og taka þetta sérstaka atvinnuátak sem síðasta ríkisstjórn druslaðist þó við að hafa í gangi, það er farið. Það er á fleiri stöðum sem niðurskurðurinn kemur til með að bitna illa á vinnumarkaðnum og draga saman atvinnuna. Það er lækkun á viðhalds- og stofnkostnaði upp á 3 milljarða, eins og ég sagði áðan þetta eru tæp 20%. Stærsti hluturinn þar er 700 millj. kr. niðurskurður til vegamála, 250 millj. kr. niðurskurður til bygginga heilbrigðisstofnana og 200 millj. kr. niðurskurður á framlagi til Byggingarsjóðs verkamanna.

Þessar tölur, sérstaklega sú síðasta um niðurskurð á framlagi til Byggingarsjóðs verkamanna, segja lítið um það hvernig hæstv. ríksstjórn ætlar að taka á málefnum Byggingarsjóðs verkamanna eða félagslegu húsnæði yfirleitt. Við höfum séð það núna viku eftir viku og mánuð eftir mánuð að staða þessa félagslega kerfis er hrikaleg. Það er nánast hrunið. Það sinnir ekki lengur þeim þörfum sem það upphaflega átti að gera. Sveitarfélögin eru mörg hver með tugi íbúða sem þau hafa þurft að innleysa og eru óseljanlegar og ekki einu sinni hægt að koma í leigu. Verð á þessum íbúðum er langt yfir því sem gerist á frjálsum markaði. Ég veit dæmi þess að 90 fermetra íbúð seldist í litlu sjávarþorpi úti á landi á 4,5 millj., fullbúin íbúð og með frágenginni lóð á sama tíma og auglýstur var til sölu verkamannabústaður af sömu stærð og að sjálfsögðu fullbúinn en á rúmar 8 millj. Það er ljóst að það verður að taka á þessu kerfi og ég er hrædd um að það gerist ekki öðruvísi en þar komi til hundruð milljóna eða jafnvel milljarða framlög, bein eða óbein af hálfu ríkisins. Með þessum niðurskurði stofnframkvæmda finnst mér reyndar að ríkisstjórnin sé í raun að leggja baráttuna við atvinnuleysið endanlega á hilluna.

Í þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir því að atvinnuleysi á næsta ári verði 4,8% í stað 5% á þessu ári. Fólkið sem býr við þetta atvinnuleysi býr við mikinn vanda og mikla tekjuskerðingu. Það er í þeim hópi þar sem skuldir heimilanna hafa vaxið verulega, fyrst og fremst vegna breytinga á tekjum vegna þess að fólk hefur tapað atvinnu. Varla er minnst á að þetta atvinnuleysi sé vandi í stefnu ríkisstjórnarinnar. Þeirra skoðun er sú að við skulum gera okkur grein fyrir því að atvinnuleysið er til staðar og það verður til staðar. Við verðum bara að taka því og breyta reglum um Atvinnuleysistryggingasjóð miðað við að þetta atvinnuleysi verði til staðar. Ef menn eru ekki tilbúnir til að fara um landið þvert og endilangt í þá vinnu sem býðst, leysa jafnvel upp fjölskyldurnar, þá detta þeir bara út af bótum. Annað getur maður ekki skilið miðað við þau orð sem hæstv. félmrh. sagði í útvarpsviðtali á Rás 2 fyrir ekki löngu að vissulega yrði Framsfl. að athuga þessa tölu, 12 þúsund störf, vegna þess að það hefði komið í ljós að einhver hundruð hefðu ekki viljað fara í fisk. Það þýddi náttúrlega að þá lækkaði þessi tala sem Framsfl. hefði sett fram um einhver hundruð og yrði því að endurskoða hana. Hún er kannski í dag ekki nema 11.280 ef við tökum frá alla þá sem ekki vilja fara hingað og þangað um landið i fiskvinnu.

Skattleysismörkin hafa verið lækkuð og verða lækkuð enn frekar miðað við það sem þau ættu að vera samkvæmt þessu frv. Tryggingagjaldið er hækkað. Persónuafslátturinn stendur í stað. Þetta á að skila ríkinu um 1,5 milljörðum í tekjur og tekjutenging barnabóta á að minnka eitthvað á móti en við höfum ekki séð nákvæma útfærslu á því enn. Það á að hafa áhrif á jaðarskattinn. Vissulega er jákvætt og þörf á því að á jaðarskattinum sé tekið því það er hópur fólks sem borgar hærri jaðarskatta en gerist annars staðar en á móti á að afnema tengingar í almannatryggingakerfinu við launaþróun. Þetta á að spara ríkinu ásamt öðrum hliðarráðstöfunum allt að 700 millj. kr. á heilu ári. Mæðra- og feðralaun lækka. Það sparar 125 millj. á næsta ári ef þessi ákvörðun nær fram að ganga og eins afsláttur eftirlaunaþega vegna heilbrigðisþjónustu. Hann á að gefa ríkinu heilar 40 millj. Ætli það væru ekki einhverjir safnliðir eins og þeir sem ég nefndi áðan sem hægt hefði verið að fella niður til þess að mæta þessum 40 millj.? Það þarf ekki að tína marga til þess. Síðan er þessi aukna gjaldtaka á sjúkrahúsunum til þess að jafna aðstöðuna. Þetta eru úrræðin sem hæstv. ríkisstjórn hefur boðað. Þetta eru ferskar tillögur nýrrar ríkisstjórnar.

Það gefst örugglega tími til þess að fara yfir hvert einasta ráðuneyti og málaflokk síðar í umræðunni. En það sem stingur mig sérstaklega er að í frv. er ekkert tekið mið af því sem er raunverulega að gerast í þjóðfélaginu, af fátæktinni, hvernig tekjubilið er að aukast milli þeirra sem mest hafa og hinna sem minnst hafa. Annað sem ég hélt að öllum væri ljóst er að það er nánast ekkert tekið á þeim vanda sem snýr að aukinni fíkniefnaneyslu og ofbeldi í þjóðfélaginu. Ef skoðuð eru framlög til löggæslu og þar með náttúrlega fíkniefnalögreglu, hvað sjáum við þá? Það er hækkun til þess að hægt sé að halda í horfinu. Það er skorið niður til meðferðarstofnana sem eiga að sinna börnum og unglingum. Engin úrræði fyrir þá unglinga sem hafa ánetjast eiturlyfjum og farið á braut afbrota, ekkert, ekki neitt. Unglingur er sakhæfur 15 ára gamall og brjóti unglingur, sem er í neyslu, af sér er hann settur inn í þau fangelsi sem við höfum, flestir inn á Skólavörðustíg. Hversu margir hv. þm. hafa haft fyrir því að fara og skoða þann aðbúnað sem bíður þessara unglinga? Þetta eru oft og tíðum óharðnaðir unglingar sem búið er að setja þarna inn. Hvað er til úrbóta? Ekki neitt. Og framlög til meðferðarheimila eru skorin niður.

Forvarnasjóður er ágætur til síns brúks fyrst og fremst vegna þess að þá verður um það að ræða að fjármagn til forvarna fari á einn stað og sé útdeilt þaðan og það verður kannski markvissara forvarnastarf. Hingað til hefur þessu verið deilt á mjög marga aðila, oft og tíðum smáum upphæðum, og þær eru illa nýttar vegna þess að það vantar samhæfingu aðgerða. Vissulega er þetta gott. Ég efast þó um ef tekin eru öll þau framlög sem hafa verið á fjárlögum undanfarinna ára til þessara staða og stofnana og ýmissa félagssamtaka, sem sinnt hafa forvarnastarfi, að þær fjárhæðir sem verið er að tala um að setja í forvarnastarf séu nokkru hærri en þær hafa verið fram að þessu en vonandi verður nýting þeirra betri en verið hefur. Ég hefði viljað sjá að það hefði verið tekið sérstaklega á þeim vanda sem við blasir vegna fíkniefnaneyslu, vegna aukins ofbeldis. Það fer ekki fram hjá neinum hv. þm. að í blöðum upp á nánast hvern einasta dag má sjá mynd af einhverjum sem hefur farið hér um götur borgarinnar og barinn sundur og saman. Oftar en ekki er um það að ræða að ofbeldismenn séu undir áhrifum einhvers konar ávanaefna. Ef skoðuð er samsetningin í fangelsunum, breytingin sl. 10--15 ár, þá sést þetta mjög glöggt. Þar er nánast orðin undantekning ef menn með styttri dóma eru þar ekki vegna þess að þeir hafa framið afbrot undir áhrifum fíkniefna. Ég hefði gjarnan viljað sjá að á þessu yrði tekið og lögreglan og þá fíkniefnalögreglan hefði fengið framlög til þess að mæta þessum vanda. En svo er nú ekki. Þetta er eitt af þeim vandamálum sem á að danka eins og svo mörg, mörg önnur.

Heilbr.- og trmrn. fer þó hvað verst út úr niðurskurðinum eða réttara sagt skjólstæðingar þessa ráðuneytis sem og félmrn. Það er það fólk sem þarf að sækja til stofnana þessara ráðuneyta sem helst þarf á því að halda að á þeirra málum sé tekið í dag. Það er ekki gert nema á þann veg að skerða kjör þeirra sem hafa verið skertir undanfarin ár enn meira. Það lýsir ekki miklum metnaði hjá hæstv. ríkisstjórn og litlum breytingum frá því sem verið hefur. Ég hefði viljað sjá það gerast eins og ég hef sagt áður að farið yrði yfir verkefni hverrar einustu stofnunar ríkisins, verkefnin skilgreind, það þjónustustig sem stofnunin á að veita og framlögin ákveðin eftir því og ég er sannfærð um að það þýðir ekki útgjaldaauka. Þvert á móti er ég viss um að það mun leiða af sér sparnað. Ég er líka jafnsannfærð um að á síðustu árum, ekki bara síðustu ríkisstjórnar heldur í mörg, mörg ár áður, hafa ýmis verkefni orðið verkefni samfélagsins án þess að þau eigi í raun og veru að vera það. Við megum gjarnan skoða verkefni stofnana ríkisins út frá breytingum í þjóðfélaginu. Það hefur bara ekki verið gert. Þetta er vinna sem ég vil sjá og í þá veru munu þær tillögur verða sem við munum flytja, að á þessu sé tekið. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. ráðherra hefði endað sína ræðu á því að segja okkur það að þó að ekki hefði unnist tími til þess með seinfærum framsóknarmönnum að breyta einhverju væri það þó a.m.k. ætlunin að setja nefnd í málið og til þess að fara yfir og skoða hlutverk stofnana ríkisins og skilgreina skýrar en er í dag hver eru hin raunverulegu samfélagslegu verkefni, hvaða verkefni eru það sem við viljum sjá hjá ríki eða hinu opinbera og hvaða verkefni eru það sem þaðan mega gjarnan fara.