Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 12:37:13 (73)

1995-10-06 12:37:13# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fjármála fyrir upplýsingarnar. Mér var ekki ljóst hver sú upphæð gæti orðið eða hvort þyrfti að gera ráð fyrir upphæð. Þess vegna setti ég þetta fram í þessu formi vegna þess að ég tel að brýn nauðsyn sé á aðstoð við skipaiðnaðinn. En sé það mat ríkisstjórnarinnar að þau mál séu í góðum farvegi verður auðvitað við það að búa. En ég tel að flotinn okkar sé kominn í þá stöðu að það þurfi að gera verulegt átak í viðgerðum og það komi raunverulega ekki til nema með stuðningi eins og gert var í fyrra og ég tel að hafi verið rétt skref.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að deila við hæstv. fjmrh. um hver á heiðurinn að markaðsskrifstofunni. Mér finnst það bara gott mál ef hæstv. fjmrh. hefur átt hlut þar að máli, jafnvel frumkvæði, og heiður á hann skilið fyrir það og vonandi að hann taki þá ábendingum t.d. varðandi þann samning um búvörur sem var gerður sem ég fór svo rækilega yfir í ræðu minni.