Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 12:38:52 (74)

1995-10-06 12:38:52# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það skiptir að sjálfsögðu meginmáli í sambandi við umræður um fjárlagafrv. hver eru þau efnahagslegu markmið sem við viljum stefna að. Ríkisstjórnin vill fyrst og fremst stefna að hagvexti og skapa hér skilyrði til þess að hægt sé að auka verðmætasköpunina og fjölga störfum. Ríkisstjórnin hefur komist að þeirri niðurstöðu, sem er í sjálfu sér ekkert óvenjuleg og allir geta komist að, að þessi skilyrði verða ekki sköpuð nema stefnt sé að hallalausum fjárlögum. Lykillinn að því að auka hér hagvöxt og fjölga störfum fyrir vinnufúsar hendur er að takast á við fjárlagahallann. Þetta er meginviðfangsefni Alþingis. Auðvitað geta menn deilt um hvernig á að skipta útgjöldunum og hér hefur stjórnarandstaðan komið fram og gagnrýnt niðurskurð og minnkun útgjalda margvíslega. En það hefur ekki verið eitt einasta atriði nefnt sem mætti þá koma þar á móti nema að fjölga skýrslum og fara í athuganir af ýmsu tagi og má vera að Alþfl. hafi nefnt landbúnaðarmálin. Hann gerir það nú venjulega og er svo sem ekkert nýtt. (Gripið fram í: Þannig verður það.) Þannig verður það, já. Það mun ekkert heldur nýtt koma fram í framtíðinni.

Þetta er meginverkefnið og hér hefur verið nefnt í þessari umræðu að Framsfl. hafi lofað því að skapa 12.000 störf fram til aldamóta. Það er rétt að Framsfl. nefndi töluna 12.000 í kosningabaráttunni og taldi það vera meginverkefni næstu ára í stjórnmálabaráttunni. Það væri viðfangsefnið að skapa 12.000 störf. Auðvitað gátum við ekki lofað nákvæmlega 12 þúsund störfum eða 12.001 eða 11.999. En það er viðfangsefnið.

Hér koma menn eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson og gera lítið úr þessu máli. Hvað er það sem þingmenn stjórnarandstöðunnar vilja? Eru þeir ekki sammála okkur um að þetta er viðfangsefnið? Eða telja þeir að viðfangsefnið sé eitthvað allt annað? Hvað er það sem þeir vilja? (Gripið fram í: Við lofuðum ekki 12.000 störfum. Það gerðuð þið.) Það liggur alveg ljóst fyrir að það er meginviðfangsefni ríkisstjórnarinnar að skapa sem flest störf. Það er meginviðfangsefni Framsfl. að skapa 12.000 störf til aldamóta. Hvort það tekst get ég ekki fullyrt á þessu stigi en menn verða að hafa þann metnað, af því að hér talaði hv. þm. Margrét Frímannsdóttir um metnað, að berjast fyrir því að þetta geti gerst.

Þjóðhagsstofnun hefur reiknað út tvö dæmi í sambandi við ríkisfjármálin: Annars vegar það dæmi að halda áfram með hallann á fjárlögunum og hins vegar að ná fram hallalausum fjárlögum. Hvað gerist ef hallinn heldur áfram? Fjárfesting atvinnulífsins mun hrynja, vextirnir munu hækka og engin aukning verður í fjárfestingu í atvinnulífinu. Svo koma menn hér og segja, fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar taka undir það, að störfum muni fækka verulega vegna minnkandi fjárfestingar hins opinbera. Auðvitað er það rétt að minni fjárfesting hins opinbera hefur þau áhrif að störfin verða ekki jafnmörg. En menn líta á það einangrað. Ef ríkissjóðshallinn verður ekki minnkaður mun störfunum fækka enn þá meira og menn verða að sjá þetta samhengi. Það er gert ráð fyrir því að meðaltalshagvöxtur fram til aldamóta með áframhaldandi halla á fjárlögum verði 1,8% en með því dæmi sem ríkisstjórnin leggur upp með telur Þjóðhagsstofnun að meðaltalshagvöxtur verði 2,7%.

Af því að hér er verið að tala um það sem Framsfl. sagði í kosningabaráttunni er það lykilatriði hjá okkur að ná niður hallanum á ríkissjóði og skapa skilyrði til hagvaxtar. Við töldum möguleika á því hægt væri að skapa skilyrði til hagvaxtar sem næmi 3%. Ég man ekki betur en Alþb. hafi talað um 4--5% sem þýðir þá að Alþb. hefði þurft að ganga miklu harðar fram í ríkisfjármálum ef þeir hefðu ætlað að ná fram útflutningsleiðinni. En það heyrist lítið um hana þegar verið er að tala um fjárlagafrv. Þetta er meginviðfangsefnið. Það er talið að takist að lækka vextina með þeim hætti sem hallalaus ríkisbúskapur á að geta gert geti fjárfesting í atvinnulífinu aukist um 11% að meðaltali fram til aldamóta en annars aðeins um 1,4%. Þetta er skólabókardæmi um að það er ekki nema einn kostur. Við eigum því miður ekki nema einn kost og það þýðir ekkert að vera að rífast um hann. Það er ekki hægt að fara öðruvísi í þetta en ná niður hallanum á ríkissjóði. Svo geta menn deilt um það hvernig á að gera það og menn geta deilt um hvað einhverjir sögðu og hvernig á að skilja það. Þetta er meginviðfangsefnið og þess vegna stöndum við framsóknarmenn af heilum hug að þessu fjárlagafrv. En ég geri mér afar vel grein fyrir því að ýmis vandamál koma upp vegna minnkandi útgjalda. Hinn kosturinn er bara því miður miklu verri og þá segja menn gjarnan að sparnaðurinn komi oft illa við þá sem verst eru settir. Það er mikið til í því. Það er nú því miður þannig að miklu af útgjöldum ríkisins er varið til málaflokka til þess að jafna kjörin í þjóðfélaginu og aðstoða þá sem minnst mega sín. En ef menn skapa ekki skilyrði fyrir auknum hagvexti verður þessi mynd miklu verri og þá þurfa menn að skera niður þjónustuútgjöld til þeirra sem minna mega sín í enn auknari mæli.

Þjóðhagsstofnun spáir því svo að ég upplýsi hv. þm. Gísla S. Einarsson um það --- hann er nú ekki lengur í salnum (StB: Ég skal taka skilaboð.) Já, hv. 2. þm. Vesturl. ætlar að taka skilaboð til félaga síns. Ég þakka fyrir það og er gott að þingmenn vinna vel saman þó í ólíkum flokkum séu. Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir því að vinnueftirspurn 1995 sé 124.500 störf en spáin fyrir árið 2000 er 133.700 störf. Spáin er sú að störfunum fjölgi samkvæmt þessu um 9.200, þ.e. ef við getum haldið þessa stefnu og ef Alþingi ræður við það verkefni að samþykkja hallalaus fjárlög á næstu árum. Þá er ekki gert ráð fyrir álveri eða erlendum fjárfestingum öðrum og það er líka ljóst að stöðugleiki og lágir vextir eru forsenda fyrir því að í þessa fjárfestingu verði ráðist. Ég sé enga ástæðu til þess að gefa það upp á bátinn að hægt verði að skapa hér 12.000 störf til aldamóta. Við framsóknarmenn sjáum a.m.k. enga ástæðu til þess að gefa það upp á bátinn þótt Alþfl. og Alþb. vilji gefast upp við það fyrir fram. Þannig að þetta er það viðfangsefni sem við blasir og að því mun ríkisstjórnin vinna.

Út af útgjöldunum vil ég taka undir að það er rétt að framkvæmdir ríkisins dragast nokkuð saman og það er líka rétt að rekstrarútgjöldin lækka ekki mjög mikið. Hins vegar er nauðsynlegt að lækka rekstrarútgjöldin meira á árinu 1997 og það verður ekki létt viðfangsefni því að á bak við þessi rekstrarútgjöld eru störf fólks, er þjónusta við fólkið í landinu þannig að lækkun útgjaldanna að því leytinu til getur þýtt sársaukafullar aðgerðir. Því miður eigum við þar engan annan kost ef við viljum ná fram markmiðinu um aukinn hagvöxt og meiri verðmætasköpun. Ég er t.d. ekki farinn að sjá lífeyrissjóðina í landinu lækka vextina án þess að dragi úr lánsfjáreftirspurn ríkisins. Ég hef ekki séð þennan lifandi áhuga lífeyrissjóðanna í landinu til þess að lækka vextina án markaðsaðgerða. Ég held því að aðilar vinnumarkaðarins hljóti að geta verið sammála ríkisstjórninni um það að forsenda þess að lífeyrissjóðirnir lækki vexti sína er að ríkisútgjöldin minnki nema þeir sem ráða yfir fjármagni lífeyrissjóðanna, sem eru þessir sömu aðilar vinnumarkaðarins, vilji taka þar upp aðra stefnu. Ég er ekki að fara fram á það. Mér finnst það vera öfugmæli þegar aðilar vinnumarkaðarins gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að draga úr útgjöldum og draga úr fjárlagahallanum og halda því jafnframt fram að með því sé verið að fækka störfum. Þetta vita allir hagfræðingar að er rangt og það er leitt til þess að vita að ekki skuli vera hægt að reka umræðuna á málefnalegum grundvelli.

Að því er varðar tekjurnar er gert ráð fyrir því að hækka skatta á móti þeim skattalækkunum sem síðasta ríkisstjórn stóð að í samvinnu við verkalýðshreyfinguna. Ég vil taka fram að ég og minn flokkur var ekkert sérstaklega hrifinn af þeim skattalækkunum á sínum tíma. En við sögðum í kosningabaráttunni að nauðsynlegt væri að afla tekna á móti þeim tekjum sem töpuðust vegna samninganna á vinnumarkaðnum. Þetta tókum við skýrt fram vegna þess að við gerðum okkur grein fyrir því að ef ætti að takast að ná fjárlagahallanum niður yrði að afla tekna þarna á móti. Það er því alveg í samræmi við þann málflutning sem við höfum haft uppi áður.

Ekki er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. á teknahlið að fjármagnstekjuskattur skili tekjum á árinu 1996 en vonandi mun hann gera það. Þá mun skapast svigrúm til annarra breytinga á skattalögum, t.d. í sambandi við eignarskatta og einnig til þess að hafa áhrif á jaðarskatta. Gert er ráð fyrir því í fjárlagafrv. að allnokkurt svigrúm sé til þess að breyta barnabótum m.a. til þess að hafa áhrif á jaðarskatta. Það er að mínu mati líka nauðsynlegt í sambandi við fjárlögin að skapa nægilegt svigrúm á næstu árum til þess að hægt verði að gera skynsamlega kjarasamninga þegar þeir sem nú gilda renna út. Ekki er óeðlilegt að reikna með því að ríkisvaldið þurfi að koma að því með einhverjum hætti vegna þess að ríkisvaldið hefur bestu tækin til að jafna kjörin í landinu og því þarf að gera ráð fyrir því á síðari stigum að eitthvert fjármagn þurfi að koma til í sambandi við kjarasamninga án þess að það leiði til fjárlagahalla.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa miklu fleiri orð um fjárlagafrv. á þessu stigi. Ég tel að hér sé valinn sá eini kostur sem er í stöðunni. Vonandi tekst um það víðtæk samstaða á Alþingi að samþykkja fjárlögin. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvaða aðrar sparnaðarleiðir koma fram í umræðum eða aðrar tekjuleiðir. Ef ekkert kemur fram í málflutningi stjórnarandstöðunnar sem hefur ekki gert hingað til verður ekki hægt að taka neitt mark á þeim málflutningi.