Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 12:55:37 (75)

1995-10-06 12:55:37# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. Við gerum ekki lítið úr því að lykillinn að því að skapa störf fyrir vinnufúsar hendur sé hallalaus fjárlög og við alþýðuflokksmenn styðjum áfram markmið um hallalaus fjárlög og að safna ekki skuldum og að verjast vaxtahækkun. Við erum ekki að gera lítið úr þessu þó að okkur sé ekki sama um hvernig verður skorið niður. Nei, við gerum nokkuð lítið úr þessum nýju störfum. Það var nefnilega þannig að við sögðum frá því sjálf fyrir kosningar að það hefðu orðið til 2.000--3.000 störf á sl. ári og allt útlit fyrir það sama í ár. En það var ekki hlustað á þau sjónarmið vegna hinnar heillandi auglýsingar um að það vill enginn verða atvinnulaus og ég vil verða hjúkrunarkona og ég vil verða flugmaður. Það er þetta sem við gerum lítið úr núna þegar ekki sér þess stað að það eigi að gera neitt nýtt og það er hagvöxtur, hæstv. utanrrh., 3% hagvöxtur annað árið í röð. Við getum bara lesið upp úr ræðum framsóknarmanna þegar við vorum sjálf að takast á við þennan vanda við 2,5% tekjuaukningu. Hún er núna samkvæmt fjárlagafrv. 4,8% og það eru skornar niður framkvæmdir upp á 2 milljarða þannig að núv. ríkisstjórn hefur 7,5 milljarða í hendi sem síðasta ríkisstjórn hafði t.d. alls ekki. Auðvitað erum við með heilmikið nesti til þess að ræða við Framsfl. ekki síst um fjárlagaumræðuna í bæði þessari umræðu og síðar. Hæstv. utanrrh., ég minni á það enn og aftur að verið er að lækka framlög til húsnæðismála úr samanlagt 17,9 milljörðum í 17,3 milljarða á sama tíma og lánshlutfall er 70%. Það þarf 700--800 millj. Á sama tíma og talið er að fólk sem að óbreyttu hefði farið í íbúðir í félagslega kerfinu fer yfir í húsbréfakerfið á að breyta lánum til endurbóta til viðgerða á húsnæði sem kallar á meira fé og það er gert ráð fyrir aukinni ásókn í minna fjármagn. Við hljótum að spyrja hvar fjármagnið er sem átti að koma til hjálpar með þegar endurreisnar- og leiðbeiningarstöð fær 12,5 millj. og því er væntanlega varið í stjórnunar- og starfskostnað. Hvar er efnd loforðanna? Það er það sem við munum kalla eftir í þessari fjárlagaumræðu og í umræðunni í vetur aftur og aftur og aftur.