Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 15:29:33 (88)

1995-10-06 15:29:33# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrirspurn hv. þm. Sturlu Böðvarssonar var um hvort ég sé að tala fyrir skattahækkunum á fyrirtæki og hvaða skatta eigi að hækka. Það er rétt, ég vakti athygli á því að einstaklingar greiða of mikinn hlut til samfélagsins. Fyrirtæki greiða of lítinn hlut. Íslensk fyrirtæki búa við sérstaklega þægilega skattameðferð á tekjuskatti eða tekjum miðað við önnur lönd í kringum okkur. Ein af ástæðunum fyrir því að tekjuskattur gefur lítið í ríkissjóð, það eru ekki nema 4 milljarðar sem fyrirtæki skila í ríkissjóð af tekjuskatti, er vegna þeirrar --- og það er lykilhugtak í minni ræðu --- lágu framleiðni sem íslensk fyrirtæki hafa skapað.

Ég er að tala um að það er hægt að hækka skatta á íslensk fyrirtæki samhliða þessari bættu stöðu sem þau eru í, en jafnframt verða þau að bæta sinn rekstur sem stuðla að stækkun þessarar köku. Það er þannig sem þetta dæmi gengur upp því að ef það er ekki gert þannig, þá værum við einungis að taka meira, við óbreytt ástand, frá fyrirtækjum. Það gengur ekki, hv. þm. Ég veit það. En hugsunin sem er að baki er að íslensk fyrirtæki breyti í sínum rekstri til að verða samkeppnishæfari og skapi þar með meiri verðmæti, gefandi þessi verðmæti sínum starfsmönnum í formi hærri launa og til ríkisvaldsins sem þarf líka á þeim greiðslum að halda til samneyslunnar.