Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 15:32:43 (90)

1995-10-06 15:32:43# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 11. þm. Reykn. hélt hér mikla ræðu og fór mikinn og er ekkert í sjálfu sér um það að segja. Ræðan var að verulegu leyti málefnaleg. Mér finnst að það hafi þó komið of mikið fram í hans máli að hann telji að Framsfl. sérstaklega sé að fara út í þessar aðgerðir af einhverjum kvikindisskap. Sannleikurinn er sá að þetta eru um margt erfiðar aðgerðir sem verið er að fara út í. Það gerir það enginn að gamni sínu að fara út í slíkar aðgerðir.

Hins vegar erum við svo sannfærð um það að lykillinn að því að skapa fleiri störf og bæta almennt efnahagsástand í landinu sé að koma á jafnvægi í ríkisrekstri. Þess vegna er þetta gert.

Hv. þm. sagði einnig að Framsfl. gæti aldrei aftur mætt fyrir kjósendur og sagst vera félagshyggjuflokkur. Þetta er á ákaflega miklum misskilningi byggt. Framsfl. er og verður félagshyggjuflokkur og eins og ég sagði áðan er farið út í þessar aðgerðir núna vegna þess að við vitum og erum sannfærð um að það sé það besta fyrir þjóðina.

Hann kom inn á 12 þúsund ný störf eins og aðrir hv. þm. og virðist þetta hafa verið ýmsum eitthvað að þurfa að slást við framsóknarmenn sem höfðu þetta að slagorði í kosningabaráttunni. Hann vitnaði rangt í orð hæstv. utanrrh. þegar hann sagði að hann hefði sagt að þetta væri það sem stefnt var að. Hæstv. utanrrh. sagði það ekki. Hann sagði: Þetta er viðfangsefnið og um það erum við öll sammála. Við stefndum að þessu og við erum sannfærð um að þetta næst.