Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 15:35:18 (91)

1995-10-06 15:35:18# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei haldið því fram að Framsfl. væri að stunda pólitík í landinu út af kvikindisskap. Ég hef dregið upp alveg með réttu það sem Framsfl. sagði fyrir kosningar og það sem endurspeglast síðan í efndum í fjárlagafrv. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði: Víst getum við mætt aftur og kallað okkur félagshyggjuflokk.

Það skiptir ekki máli hvað flokkar kalla sig. Það er stefna þeirra sem skiptir máli. Sú stefna sem ég rakti áðan í fjárlagafrv. er ekki félagshyggjustefna. Ég ætla ekki að vorkenna Framsfl. að þetta sé erfitt. En það eru til aðrar leiðir. Það eru til aðrar lausnir. Pólitík snýst um að draga upp aðrar lausnir, aðra valkosti. Framsfl. valdi sjálfviljugur, fékk stuðning kjósenda til að fara í þessa ríkisstjórn og hann situr uppi með hana. Það getur vel verið að hann hafi slæma samvisku af því en það er þeirra að eiga við það. Það sem ég segi hins vegar er að kjósendur áttu ekki von á þessum efndum af hálfu Framsfl. með tilliti til þess sem þeir sögðu í kosningunum og með tilliti til þess að Framsfl. hefur markað sér stöðu í litrófi stjórnmálanna og sú staða er ekki það sem félagshyggju- og jafnaðarmannaflokkar eru. En það eru möguleikar til tekjuaukningar í þjóðfélaginu svo ég komi aðeins inn á þátt sem ég nefndi áðan. Einstaklingarnir hafa verið látnir blæða allt of mikið skattalega. Það er gott að staða fyrirtækjanna hefur batnað, --- það er ekki hægt að bíða endalaust, hv. þm. Sturla Böðvarsson varðandi þann þátt --- en nú þurfa þau að koma að á sanngjarnan hátt inn í þá samneyslu sem hér ríkir.