Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 15:38:53 (93)

1995-10-06 15:38:53# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Ágúst Einarsson (andsvar):/p>

Herra forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði að það þyrfti að gefa tíma. Það er í sjálfu sér sanngjarnt. Ég er ekki ósanngjarn í þessum málum. Ég bendi hins vegar á þetta frv. sem hér liggur frammi. Ég skildi orð hv. þm. þannig að allt má nú skoða. Ef hv. þm. er reiðubúinn til þess að skoða fjárlagafrv. ekki í anda þess sem ég sagði heldur í anda þess sem þingmenn Framsfl. sögðu um sömu þætti fyrir ári þá er ég manna fegnastur og skal taka þátt í því að laga fjárlagafrv. þannig að vel fari.

Ég get heitið minni samvinnu við það en ég ætla ekki að rifja upp öll ummæli Framsfl. í kosningabaráttunni en ég held að flestir landsmenn a.m.k. viti að hér er ekki staðið við loforð, ekki er lagt upp með efndir á loforðum, það verður síðar. Ég get ekki fullyrt um það en kannski kemur frv. að ári sem þeir lofuðu fyrir kosningar, ég veit það ekki. Það eina sem ég veit er að svona frv. hefði félagshyggju- og jafnaðarmannaflokkur aldrei lagt fram.