Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 15:40:59 (94)

1995-10-06 15:40:59# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., StB
[prenta uppsett í dálka]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 1996. Að lokinni umræðunni um frv. mun það fara formlega til meðferðar í fjárln. þar sem það fer í venjubundna ítarlega umfjöllun. Fyrir fjárln. verða kallaðir fulltrúar ráðuneyta og stofnana til að gera grein fyrir forsendum frv. og þeim athugasemdum sem aðilar kunna að vilja gera við frv. eins og það er hér lagt fram af hæstv. fjmrh. í nafni ríkisstjórnarinnar svo sem eðlilegt er. Að lokinni umræðunni verður frv. því í höndum þingsins og það kemur í hlut fjárln. að undirbúa frv. fyrir 2. og 3. umr. með þeim breytingum sem kunna að verða gerðar á því við meðferð nefnda.

Nauðsynlegt er fyrir hv. þm. að gera sér ljósa grein fyrir þeirri ábyrgð sem hvílir á þinginu að fjalla vandlega um frv., svo mikil áhrif sem það hefur um alla framvindu á flestum sviðum þjóðlífsins. Umræður og vandleg skoðun er því verkefni okkar ekki sjálfvirk afgreiðsla þó frv. sé bæði vel unnið og vel undirbúið við núverandi aðstæður.

Mikilvægasta markmið frv. er að halla skuli ná niður á næstu tveimur árum. Því markmiði verðum við að ná og eins og fram hefur komið mjög rækilega í umræðunni þá er út af fyrir sig ekki mikill ágreiningur um það hér meðal þingmanna.

Í greinargerð með frv. kemur glöggt fram þegar litið er á áætlanir til lengri tíma hversu nauðsynlegt er að ná jöfnuði í ríkisútgjöldum og það vakti sérstaka athygli mína að hv. 11. þm. Reykn. lagði mikið upp úr þessari langtímaáætlun eins og ég vil gera og vekja sérstaka athygli á en það er algert grundvallaratriði fyrir okkur Íslendinga að skoða ríkisfjármálin til framtíðar, ekki bara skoða næsta ár heldur gera okkur glögga grein fyrir því á hvaða leið við erum og hvaða leiðir við þurfum og verðum að fara.

Á síðasta kjörtímabili var glímt við þetta verkefni, þ.e. ríkissjóðshallann, við mjög erfiðar aðstæður vegna vaxandi atvinnuleysis. Það tókst að hemja ríkisútgjöldin og halda hallanum niðri án þess að atvinnuleysi færi úr böndum eða gengið væri of nærri þeirri þjónustu sem stofnanir ríkisins veita. Alþingi tók á afgreiðslu fjárlaga með mikilli ábyrgð og veitti fjmrh. þann stuðning sem þurfti til að hemja ríkisútgjöldin og standa fyrir bættu skipulagi í ríkisrekstrinum á mörgum sviðum. Sá árangur skilar sér núna og auðveldar okkur að halda áfram því endurreisnar- og umbótastarfi sem felst í því að gera ríkisreksturinn sem hagkvæmastan og tryggja að skattpeningar nýtist sem best, ekki síst í mennta- og velferðarkerfi okkar.

Breytingar á stofnanaþjónustu ríkisins er ekki auðvelt verkefni. Því hafa þingmenn sem hér hafa setið á Alþingi kynnst vel. Þjónustu sem komið er á er ekki auðvelt að breyta né heldur að skerða þrátt fyrir nauðsynlegan sparnað í ríkisrekstrinum og breyttar forsendur bæði hvað varðar einstakar stofnanir og breyttar aðstæður og forsendur í þjóðfélagi okkar. Gott dæmi þar um eru deilur við hjúkrunarfræðinga á skurðstofum nú nýverið. Þegar fyrirhugaðar skipulagsbreytingar leiddu til uppsagna, sem í raun var verkfall, sem stöðvaði uppskurði og aðgerðir uns undan var látið og fallið frá fyrirhuguðum skipulagsbreytingum. Slíkar aðgerðir starfsmanna sjúkrastofnana eru slæm dæmi um það hvernig starfsmenn stórra sjúkrastofnana hafa stjórnendur í greip sinni og geta komið í veg fyrir nauðsynlegar og eðlilegar breytingar á skipulagi vakta og vinnu með því að beita fársjúkt fólk fyrir vagninn.

Sú deila hlýtur að verða þeim umhugsunarefni sem telja að öll læknisverk eða a.m.k. mjög mikið af læknisverkum eigi að færa á stóru sjúkrahúsin á suðurhorninu þar sem sérstaða sérfræðinga í kjörum blasir við öðru starfsfólki sem vill eðlilega bæta hag sinn og leggur út í það með einhverjum viðlíka hætti og ég nefndi að framan.

En breytingar á rekstri ríkisstofnana í tengslum við gerð fjárlaga verður að lúta tilteknum óskráðum reglum. Í fyrsta lagi verða breytingar á borð við það að leggja niður stofnanir að eiga sér eðlilegan aðdraganda í tíma og í öðru lagi verður að standa við samninga sem gerðir eru af til þess bærum aðilum af hálfu ríkisvaldsins.

Sem betur fer er ekki að finna í frv. dæmi um að óeðlilega harkalega sé gengið fram. Ég vil þó nefna dæmi sem ég tel --- svona til umhugsunar fyrir okkur hv. þm. --- tæplega standast þær kröfur sem ég vil gera til slíkra breytinga og ég veit að fleiri hv. þm. og ráðherrar hæstv. vilja einnig. Í dóms- og kirkjumrn. er lagt til að leggja niður tvö sýslumannsembætti. Ég dreg ekki í efa tillöguna sem slíka eða tilraunina til sparnaðar ef þá þjónustu sem embættin veita má sækja annað og ég mun ekki leggjast gegn því sem er í frv., fjarri því. En embættum, sem þjóna byggðum sem hafa verið einangraðar, verður að breyta með þeim hætti að ásættanlegur aðdragandi eigi sér stað við þær breytingar.

Þá vil ég nefna riftun samninga sem ég nefndi hér fyrr. Upplýst er að vegna eðlilegs niðurskurðar á framlögum til byggingar sjúkrastofnana hafi verið rift samningum sem gerðir höfðu verið á þessu ári. Riftun samninga er eitt en annað er að leita eftir frestun eða breytingum á samningum vegna breyttra aðstæðna. Ef við ætlum að skapa tiltrú og traust, sem við viljum svo sannarlega gera, þurfum við að vanda þær aðgerðir sem við verðum að ganga til. Ekki síst gagnvart sveitarfélögum sem ríkisvaldið stendur í samningum við um færslu grunnskólans og fleiri mikilvægra verkefna. Riftun skriflegra samninga er ekki farsælt innlegg í þá vandasömu vinnu sem fram undan er og við verðum að vinna á sviði ríkisfjármála og endurskipulagningar á stofnanakerfi ríkisins.

Á vegum fjmrn. og undir forustu hæstv. fjmrh. hefur verið unnið á liðnu kjörtímabili og enn er verið að vinna á mjög faglegan hátt að útgáfu leiðbeiningarrita um nýskipun í ríkisrekstrinum þar sem áhersla er lögð á vönduð vinnubrögð og að sjálfsögðu þarf að leggja ríka áherslu á það í ríkiskerfinu að vinnubrögðin hjá okkur séu vönduð og við beitum þeim bestu aðferðum við endurskipulagningu í ríkiskerfinu sem þekkjast á hinu stjórnunarlega sviði.

Milli stjórnarflokkanna hefur tekist gott og traust samstarf við að undirbúa fjárlögin. Því ber vissulega að fagna og er það augljóst merki þess að á kjörtímabilinu megi ná þeim markmiðum sem flokkarnir hafa hvor um sig og sameiginlega sett sér á næsta kjörtímabili. Í fjárlögum kjörtímabilsins, sem við eigum eftir að fjalla um, mun verða unnið að þeim málum sem stjórnarsáttmálinn nær til. Það ber því að varast að gera ráð fyrir því að öll áform okkar nái fram að ganga við afgreiðslu þessa fyrsta frv. stjórnarflokkanna.

Hæstv. forseti. Ég nefndi það að við verðum að gæta þess að verða ekki of bráð á okkur og ætlast til þess að allt gerist á fyrsta degi eða því fyrsta ári sem við stefnum nú inn í. Í fyrstu verðum við að takast á við hagræðingu og sparnað svo sem gert hefur verið en síðar mun verða tekið til við aðrar hugsjónir okkar. Og ég vil nefna, herra forseti, í stuttu máli og knöppu, helstu áhersluatriði í ríkisfjármálum sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu.

Sjálfvirkni innan ríkisútgjalda, það er gert ráð fyrir því að hún verði afnumin og það verði reynt að taka ákvörðun um hvert eitt atriði, af ábyrgð og festu að sjálfsögðu. Það er lögð rík áhersla á sparnað í rekstri ríkisins. Það er get ráð fyrir því að jaðarskattir lækki og það hlýtur að gleðja einhverja. Skatteftirlit verður hert og það hefur svo sannarlega komið fram í umræðum hér að rík ástæða er til þess. Lífeyrismál á að endurskoða, starfsmannastefnu ríkisins á að móta og ég veit, m.a. vegna þess að hv. 11. þm. Reykn. þekkir vel til starfsmannamála ríkisins, að hann mun leggjast á árar með ríkisstjórninni um að móta starfsmannastefnu sem skiptir vissulega miklu máli. Jafnréttismál verða sett í sérstaka skoðun því að við Íslendingar eigum auðvitað að hafa metnað til þess að hér séu jafnréttismál í heiðri höfð, ekki síst innan ríkiskerfisins. Við viljum efla atvinnulífið og fjölga störfum og ég er sannfærður um að þegar að fjárlög fara að virka þá mun það koma fram að störfum muni fjölga í þjóðfélaginu. Það þarf að styrkja samkeppnisaðstöðu atvinnulífsins og við leggjum ríka áherslu á það ásamt nýskipun í ríkisrekstrinum eins og ég hef komið hér inn á. Sömuleiðis þarf að móta upplýsingastefnu svo kerfið, ríkiskerfið, megi einfalda og koma í veg fyrir tvíverknað í þjónustu og gera ríkisreksturinn og alla þjónustu sem ríkið kostar markvissari.

Virðulegi forseti. Fjárlaganefnd Alþingis hefur nú þegar hafið vinnu við fjárlagafrumvarpið og tekið þar forskot á sæluna með viðtölum og yfirferð af hálfu starfsmanna úr fjrmrn. Það er ljóst, að hæstv. fjmrh. hefur lagt mikla vinnu í greinargerð frv. og sú langtímaáætlun sem hæstv. ráðherra hefur látið vinna er mjög mikilvægt innlegg og í raun forsenda þess að markmið frv. megi fram ganga. Okkur ber skylda til að horfa fram á veginn og gæta þess að aðgerðir okkar beri í sér farsæld og framfarir til lengri og skemmri tíma svo að tryggja megi atvinnu og afkomu barna okkar, m.a. með þeim fjárlögum sem hér verða væntanlega afgreidd fyrir jól.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Gísli S. Einarsson lagði fram eins konar fyrirspurn eða athugasemd til mín í sinni ræðu hér fyrr í dag varðandi framkvæmdir við Gilsfjarðabrú. Ég vil ljúka minni ræðu með því að svara honum þar um. Ég mun að sjálfsögðu eins og áður vinna að samgöngumálum á Vesturlandi á hinum pólitíska vettvangi. Ég mun hins vegar ekki gera það í gegnum fjölmiðla. Hins vegar vil ég segja honum það að að þessu máli verður unnið, fast og ákveðið. Framkvæmdir við Gilsfjarðarbrú eru á vegáætlun og við munum að sjálfsögðu vinna að málinu og ég vænti góðs stuðnings hans svo að sú framkvæmd megi komast í höfn sem fyrst.