Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 15:58:46 (98)

1995-10-06 15:58:46# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Vesturl. flutti hér um margt gott mál en mig langar til að gera athugasemd við eitt atriði þar sem hann fór að mér fannst nokkuð hörðum orðum um nýafstaðna deilu skurðstofuhjúkrunarfræðinga við sína yfirboðara. Það kann að vera að ég hafi eitthvað misskilið þá deilu. Ég taldi málið þannig vaxið að það hefðu verið yfirboðarar skurðstofuhjúkrunarfræðinganna sem tóku einhliða ákvörðun um breytingar á vinnufyrirkomulagi sem hafði mjög mikil áhrif á þeirra heildarlaun. Þegar það var gert gerðu hjúkrunarfræðingar strax athugasemd við það og létu vita að þar sem þetta hefði slík áhrif á þeirra laun, þá litu þær hreinlega á þetta sem uppsögn á starfssamningi. Viðsemjendum þeirra mátti því vera ljóst að þær mundu ganga út ef ekki yrði gert neitt frekar í þessum málum. Það var sem sagt ekki talað við skurðstofuhjúkrunarfræðinga fyrr en alveg á síðustu stundu og það er því miður nokkuð algengt að svo fari um deilur af þessu tagi. Mér fannst hv. þm. nokkuð harðorður þar sem hann meira að segja orðaði það svo, eða lét að því liggja, að þarna hefði fárveikum sjúklingum verið beitt fyrir þeirra kjaravagn. Mér þótti þetta harðort og ég leyfi mér að spyrja hv. þm. hvort honum finnist óeðlilegt að launafólk bregðist við þegar svo hart er vegið að þeirra launakjörum.