Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 16:16:40 (103)

1995-10-06 16:16:40# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Mig langar til þess að taka undir orð hv. 4. þm. Suðurl. þar sem hann hvetur okkur til að taka þátt í kóræfingunni. Ég er mjög glöð með svona ummæli en ég verð að játa að ég sem nýr þingmaður, í fjárlagaumræðu í fyrsta skipti, hef saknað þess hve fáir ráðherrar hafa séð sér fært að taka þátt í þessari sameiginlegu kóræfingu í umræðu. En þeim fjölgar, ég þakka hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. fyrir að gefa sér tíma til að taka þátt í þessari mikilvægu umræðu, svo ég tali nú ekki um félmrh. sem þarna situr. Ég verð að játa að ég sem er hér að ræða heilbrigðismál sakna sárlega hæstv. heilbrrh. í sölum Alþingis. Én ég vona að félagar hennar í ríkisstjórn beri þau skilaboð sem ég hef hér að færa til hennar.

(Forseti (GÁ): Forseti vill upplýsa að von er á hæstv. heilbrrh. innan skamms í þinghúsið).

Ég þakka það. Ég segi aftur að ég sem nýr þingmaður hef lesið fjárlög með öðrum augum en öll hin árin sem ég hef lesið þau. Ég hef reynt að kafa betur á bak við þær tölur og þær upplýsingar sem þar standa og ég verð líka að segja að ég er enn örlítið ráðvillt þegar ég hef farið í gegnum þessi fjárlög því að mér finnst margt þar vera ósagt og margar tölur á huldu og satt best að segja finnst mér þetta líkjast svolitlum leik. En markmið fjárlaganna eru góð. Eins og segir þar er það markmið að skapa skilyrði til hagvaxtar í landinu, aukinnar atvinnu og eins og hæstv. fjmrh. sagði hér í morgun, að renna stoðum undir velferðina. Markmiðið er eins og oftast áður að ná hallalausum fjárlögum. Mér finnst samt skjóta skökku við í þeim bjartsýnistón sem er þegar tekjur ríkissjóðs eru taldar fram og þeim áformum sem birtast okkur í fjárlagafrv. um niðurskurð og aðhald. Ég mun víkja að því aðeins síðar.

Það er áætlað að tekjur ríkissjóðs í ár verði að minnsta kosti 2,3 milljörðum hærri en var gert ráð fyrir í tekjuáætlun ríkisins. Skýringin sem gefin er er fyrst og fremst sú að það eru meiri umsvif í þjóðarbúskapnum og að minnsta kosti 4% kaupmáttaraukning vegna nýrra kjarasamninga. Enn er bjartsýni ríkjandi því það er áframhaldandi útlit fyrir bata í íslensku þjóðlífi. Árið 1996 munu aftur aukast tekjur ríkissjóðs verulega því að spáin er sú samkvæmt fjárlagafrv. að hér muni verða tæplega 6 milljarða kr. tekjuhækkun ríkissjóðs frá árinu í ár vegna aukinna umsvifa þjóðarbúsins. Spáð er að atvinnutekjur á mann hækki um 5% og enn fremur er gert ráð fyrir því að vegna þessara tekjuhækkana muni tekjuskattsgreiðslur einstaklinga og fyrirtækja aukast um hálfan milljarð kr. þannig að bjartsýnistónninn er mikill þegar talað er um tekjuhlið ríkisbúskapsins. Ég geri mér grein fyrir því að ábyrgð stjórnvalda er mikil. Vissulega þarf að fara vel með þetta fé og nota það á skynsamlegan hátt en um leið vil ég ítreka að það þarf að nota það af ábyrgðartilfinningu fyrir þeim sem standa höllum fæti. Ég tek undir margt af því sem hefur komið fram í framsögu hæstv. fjmrh. fyrr í dag um að viss skynsemi er í því að ríkisvaldið dragi úr framkvæmdum, t.d. ef stóriðja verður að veruleika á næsta ári. En ekki þola allar framkvæmdir bið og vissulega þarf að endurskoða markmið ríkisstjórnarinnar um að draga úr framkvæmdum eða stoppa allar framkvæmdir, t.d. ef ekki verður af stóriðjudraumnum á næsta ári. En ég mun víkja að þessu örlítið síðar því að ég tel að undantekningar séu sem menn verði að skoða af fullri sanngirni þegar talað er um að stöðva allar opinberar framkvæmdir á næsta ári.

Hvernig ætlar ríkisstjórnin að ná fram markmiðum sínum um hallalausna rekstur og aðhald í ríkisbúskapnum? Auðvitað hefur vakið athygli allra sem hafa lesið þetta fjárlagafrv. og um það fjallað að það eru enn á ný sömu gömlu aðferðirnar sem eru notaðar og það eru tveir málaflokkar sem liggja vel við höggi í þetta sinn. Ég mun fjalla um það sem ég tel vera mjög alvarlegt í niðurskurði til heilbrigðismála og til félagslegra mála hér á eftir.

Við höfum öll fylgst með því að undanfarin ár hafa verið heilbrigðiskerfinu nokkuð erfið. Það hefur verið mikið aðhald, það hefur verið mikill niðurskurður og það hefur verið gætt hagræðingar í hvívetna og það er svo núorðið að þeir sem best þekkja til telja að niðurskurður á t.d. stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík muni ekki geta gengið lengra án þess að skera niður þjónustu. Við erum vissulega komin að þeim mörkum að þjónusta er skorin niður. Ég hef sagt áður í þingsal, í andsvari við stefnuræðu forsrh., að ástand á sjúkrahúsunum á Stór-Reykjavíkursvæðinu er komið á hættumörk. En eftir þessi undangengnu ár sem voru vissulega átakaár og tekist á um mörg erfið mál í heilbrigðisþjónustunni hefur tiltölulega góð sátt náðst í kjölfar þessara miklu breytinga. Við skulum ekki gleyma því að nánast er búið að leggja niður eitt bráðasjúkrahúsið á höfuðborgarsvæðinu og á undanförnum árum hefur legurými minnkað á t.d. Ríkispítölunum um allt að 12--15% frá því sem áður var.

Mig langar til þess að staldra aðeins við og leiðrétta hv. 2. þm. Vesturl. sem er því miður ekki í salnum en ég vona að hann heyri mitt mál þar sem hann er staddur. Hann vék að þeirri nýafstöðnu vinnudeilu sem hefur verið á Landspítalanum. Ég leyfi mér að tala um þetta mál hér þar sem mér er það skylt, þetta er vinnustaður minn daglega og ég er yfirmaður einmitt á þessari deild. Þetta var mjög erfið vinnudeila, þarna var tekist á um túlkun annars vegar stéttarfélaganna og hins vegar ríkissjóðs eða fjmrn. á því hver réttur starfsmanna væri þegar skipulagsbreytingar væru boðaðar. Sem betur fer get ég upplýst hv. 2. þm. Vesturl. um að það tókst að ná markmiðum þeim sem að var stefnt. Ég sé að hann hefur ekki verið upplýstur um það en sátt tókst um málið og yfirmenn á Ríkisspítölunum náðu flestöllum markmiðum sínum í þessu máli þar sem tókst að breyta vinnutíma starfsmanna og koma þeim vinnutíma á þau öryggismörk sem við teljum vera rétt. Þetta snerist ekki bara um krónur og aura, þetta snerist líka um það að veita þjónustu sem er í samræmi við þau markmið sem við störfum eftir í sjúkrahúskerfinu. En ég legg áherslu á að sátt hefur tekist og markmiðum stjórnenda á Ríkisspítölunum var náð.

Ég er farin að tala um heilbrigðismálin og ég segi aftur að ég sakna heilbrrh. Hugmyndir núverandi hæstv. heilbrrh. hafa vakið væntingar og því er ekki að leyna að mild ásýnd hennar hefur gefið fyrirheit um að aðgerðirnar sem verður gripið til í forgangsröðun ríkisfjármunanna yrðu mildar. Hæstv. heilbrrh. hefur orðið tíðrætt um þjóðarsátt, um að við verðum að ná þjóðarsátt um forgangsröðun verkefna í heilbrigðismálunum. Ég er henni hjartanlega sammála. En ég held að við ættum að staldra aðeins við og velta því örlítið fyrir okkur í hverju margumrædd forgangsröðun felst. Í rauninni felst hún ekki í öðru en að forgangsraða fólki frá. Um það snýst forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Fjármunum til heilbrigðisþjónustunnar er ráðstafað á hinu háa Alþingi og þegar við tölum um frekari forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni erum við hreinlega að segja að ákveðnir þjóðfélagshópar, ákveðnir aldurshópar eigi ekki að fá þjónustu í sama mæli og aðrir. Telur hæstv. heilbrrh. að við í þessu litla þjóðfélagi munum ná sátt um þetta?

Það er ástæða til að staldra við margt sem er boðað í nýju fjárlagafrv. Ég er viss um að það hefur verið hæstv. heilbrrh. þungbært að leggja fram þetta frv. til fjárlaga. Ég veit að það getur ekki annað en verið svo. Það er margt sem hefur verið boðað á þessum fyrstu mánuðum ríkisstjórnarinnar. Það hefur verið boðuð heildarendurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni og ég er fullviss um að það eru flestir sammála því að það þurfi að endurskoða almannatryggingalöggjöf okkar frá grunni. En auðvitað þarf að gera það vel og það þarf að gera það af sanngirni og það þarf að gera það af þeim aðilum sem eiga að koma að þessu máli. Það er svo skrýtið að það er nýbúið að skipa nefnd, fjölmenna nefnd, sem hefur fengið það verkefni að endurskoða lög um almannatryggingar. En áður en þessi nefnd er kölluð til starfa er búið að endurskoða almannatryggingalöggjöfina. Það er búið með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin boðar núna, með því að kippa stoðum undan afkomu allra bótaþega Tryggingastofnunar ríkisins. Ég sagði í andsvari við stefnuræðu forsrh. að það er búið að rjúfa þá þjóðarsátt sem hefur ríkt um jöfnuð í samfélaginu ef útreikningar ASÍ um sparnað hjá Tryggingastofnun og sparnað í þessu afnámi á tengingu við verðlag og kaupgjaldsþróun í landinu er rétt en það er skoðun þeirra að það muni sparast 700 millj. kr. með þessum aðgerðum einum saman. Það þýðir auðvitað með öðrum orðum að það er verið að leggja 700 millj. kr. álögur á bótaþega í almannatryggingakerfinu. Hefur náðst þjóðarsátt um þessar aðgerðir? Það var ekkert sem benti til þess í vor þegar við gengum til kosninga að þetta skref yrði stigið. Auðvitað er verið að koma verulega aftan að því fólki sem er háð þessum greiðslum og er í skjóli þeirra samninga sem eru gerðir á almenna vinnumarkaðnum hverju sinni en með þessum aðgerðum er búið að kippa þeim grundvelli undan þessum bótaþegum. Enginn getur sagt mér að þjóðarsátt ríki um svona aðgerðir.

Hvernig hefur hæstv. heilbrrh. svo ætlað að ná fram öðrum sparnaði sem henni er gert á næsta ári? Þetta eru sömu gömlu aðferðirnar þannig að ekkert bólar á þeim nýju hugmyndum sem fólk átti von á eftir að hafa hlýtt á hæstv. heilbrrh. tjá sig um heilbrigðismál frá því að hún tók við embætti. Sjúkrahúsin eiga að spara enn á ný 250 millj. kr. að viðbættum halla á yfirstandandi ári. Enn á ný er höggvið í sama knérunn. Gert er ráð fyrir því að sjúkrahúsin auki sértekjur sínar um 100 millj. kr. Hvernig eiga þau að gera það? Það er sama gamla aðferðin. Það er auðvitað með því að auka álögur á sjúklinga sem sækja þjónustu þessara stofnana. Við getum tekið nokkur dæmi.

Á síðasta þingi talaði hæstv. heilbrrh. mjög fyrir því að efla deild um glasafrjóvganir á Landspítalanum. Hún taldi að við þyrftum að styðja vel við uppbyggingu þeirrar deildar og leggja til hennar aukið fjármagn. Hver meðferð, sem hjón sækja til þessarar deildar í dag, kostar 200 þús. kr. Þar afgreiða hjón 105 þús. kr. fyrir fyrstu meðferð og 60 þús. kr. fyrir aðra meðferð og þeir sem málið þekkja vita það að fólk getur þurft að leita þarna eftir þjónustu í nokkur skipti án árangurs.

Nú kemur fram í fjárlagafrv. að ríkisstjórnin ætlar að auka tekjur Ríkisspítalanna vegna glasafrjóvgunar um 24 millj. Ég les ekki annað úr þessu fjárlagafrv. en að það þýði að það eigi að velta öllum kostnaði vegna þessarar meðferðar yfir á þau hjón sem þurfa nauðsynlega á þessari þjónustu að halda. Þetta eru auknar álögur á hluta þjóðarinnar.

Mörgum hefur orðið tíðrætt um innritunargjaldið á sjúkrahúsin sem í fjárlagafrv. er sagt að sé til þess að jafna álögur á sjúklingahópa og til þess að jafna aðstöðu þeirra lækna sem vinna annars vegar á sjúkrahúsunum og hins vegar úti í bæ. Ég hef aldrei fyrr heyrt nokkra ríkisstjórn hafa hag lækna að leiðarljósi, að það væri talið mikilvægt að jafna aðstöðu þessara manna --- og það á að leggja innritunargjöld á sjúklinga til þess að það náist. Og enga smápeninga sem þarna á að ná í, það eru 80 millj. sem Ríkisspítölunum er gert að ná inn með þessum hætti. Aftur 80 millj. kr. aukaálögur á skattborgarana og þá sem standa höllum fæti.

Það er svo skrýtið að það er eins og þeir góðu menn sem hafa skrifað þetta fjárlagafrv. séu raunveruleikafirrtir. Halda þeir að það séu aðrir sjúklingar, önnur tegund af sjúklingum sem sækir t.d. göngudeildir sjúkrahúsanna í dag og svo allt önnur tegund sem leggst inn á sömu spítala? Nei, herra forseti, þetta er sama fólkið. Þetta er sama fólkið sem á að fara að borga fyrir þjónustuna núna aftur. Þegar það er búið að liggja inni á sjúkrahúsunum og borga reikning fyrir sjúkrahúsleguna á þetta sama fólk að borga fyrir hverja komu í göngudeildir þegar fylgja á því eftir til bættrar heilsu. Þarna er verið að skattleggja aftur sama fólkið og var gert síðast. Þetta er að mínu viti siðlaust. Það á sem sagt að leggja á þetta fólk að nú eigi það að fara að greiða aðgangseyri að sjúkrahúsunum.

Ég gæti talað í lengra máli um heilbrigðismálin og hér er aðeins drepið á stærstu málunum sem maður sér við fyrstu sýn í þessum fjárlögum því það er eins og ég sagði áðan, margt mjög hulið í þessum fjárlögum, miklu fremur en í öðrum fjárlögum fram til þessa. Þar er svo margt sem er óskrifað en maður getur lesið á milli línanna ef maður hefur réttu gleraugun á sér.

Ég hef áður nefnt í ræðu minni, herra forseti, að ég hef saknað heilbrrh. hér í sölum Alþingis. Hún hefur eins og áður sagði talað skynsamlega um breyttar áherslur í heilbrigðismálum. Hún hefur talað um einfaldara stjórnkerfi, verkaskiptingu á milli sjúkrahúsanna og að það eigi að láta fjármagn fylgja með sjúklingum. Þetta eru allt athyglisverðar hugmyndir sem vissulega á að skoða með opnum huga. En það verður að gæta fyllstu varúðar engu að síður við að útfæra þessar hugmyndir því að þetta gæti snúist upp í andhverfu sína ef ekki er vel að gáð. Þetta gæti nefnilega snúist upp í það að í stað þess að jafna aðstöðu fólksins á landsbyggðinni yrði þetta til þess að setja á fólk slíka átthagafjötra að það eigi ekki völ á að sækja bestu þjónustu til höfuðborgarinnar þegar á þarf að halda.

Ég sagði áðan að skynsamlegt gæti verið að fresta fjárfrekum framkvæmdum sem kalla á aukið rekstrarfé úr ríkissjóði. Það eru undantekningar á þessum málum engu að síður og ég hef gert að umtalsefni hér áður málefni Barnaspítala Hringsins. Barnaspítali var á stefnuskrá síðustu ríkisstjórnar og var þar gengið til ákveðinna samninga við Ríkisspítala um að hrinda framkvæmdum af stað. Ekkert varð úr því. Aðstaða veikra barna og aðstandenda þeirra á Íslandi er afleit. Barnaspítali Hringsins starfar í húsnæði sem er ekki hannað fyrir börn. Við gerum okkur öll grein fyrir þessu. Og það sem meira er, ef af þessari framkvæmd yrði væri það ekki bara hagkvæmt fyrir börnin og foreldra þeirra heldur fyrir Ríkisspítalana því að þetta eitt og sér gæti leitt til hagræðingar þar innan veggja. Þessi fjárfesting kallar ekki á aukinn rekstrarkostnað og ef grannt er að gáð mun slík fjárfesting ekki kosta ríkissjóð nema um 350 millj. kr.

Áhugamenn um velferð barna, Kvenfélagið Hringurinn, sem hefur allra best sinnt hagsmunum veikra barna á Íslandi, hefur lagt þessum hugmyndum verulegt fylgi og ekki bara það heldur ætlar að láta fylgja verulega fjármuni með til verksins. Ég vil gjarnan, af því að ég sé að hæstv. heilbrrh. er komin í hús, heita á hana að taka höndum saman með þeim sem láta sig velferð barna varða og beita sér í ríkisstjórninni fyrir því að barnaspítali rísi, ég heiti á hana og ég veit að þó hún sé ein kvenna í ríkisstjórn hlýtur hún að geta talað þessu máli.

Hæstv. heilbrrh. hefur sagt að það vanti alla heildarlangtímaáætlun í heilbrigðismál þjóðarinnar og það er vissulega rétt. Grunnur að þeirri vinnu lá fyrir í vor. Það hefði e.t.v. verið gæfulegra að nota eitthvað af forvinnunni til þess að byggja undirstöður heilbrigðiskerfisins betur og treysta þær, byggja þær á bjargi en ekki á sandi eins og flatur niðurskurður í þessum málaflokki leiðir til. Það þarf auðvitað að vinna að heilbrigðisáætlun í friði og um það þarf að nást þjóðarsátt. Þar er ég henni sammála.

Það er annar málaflokkur sem ég get ekki látið hjá líða að tala um hér í dag við 1. umr. fjárlaga. Við höfum séð hvernig á að rjúfa þjóðarsáttina um tekjutengingu lífeyrisgreiðslna til öryrkja og aldraðra. Það er annar málaflokkur sem fær óneitanlega að kenna á niðurskurðarhnífnum að þessu sinni og þar er líka verið að rjúfa þjóðarsátt. Þegar merkur mannvinur og fyrrv. alþm. sá þetta fjárlagafrv. og sá að það ætti að stórskerða framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra sagði hann, með leyfi forseta: ,,Þetta hafa piltarnir í fjmrn. gert.`` Já, sennilega hafa piltarnir í fjmrn. komið þarna við.

Samkvæmt fjárlagafrv. eru tekjur erfðafjársjóðs áætlaðar tæplega 400 millj. kr. á yfirstandandi ári. Það eru lög sem segja að þessar tekjur skuli renna óskertar í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Þarna ætlar ríkisstjórnin að brjóta lög og ekki bara brjóta heldur ætlar hún að ganga lengra en nokkur önnur ríkisstjórn hefur gert frá því að lög um málefni fatlaðra voru sett í að skerða framlög til þessara þjóðfélagshópa. Þarna er aftur á nýjaleik leikinn þessi talnaleikur sem strákarnir uppi í fjmrn. hafa leikið því að það þarf að lesa þessa útreikninga með mörgum gleraugum til þess að sjá hvað að baki þeim býr. Staðreyndin er nefnilega sú þrátt fyrir tölur í frv. til fjárlaga að þegar búið er að draga frá þann rekstrarkostnað, sem er væntanlega búið að skuldbinda sig til þess að taka úr sjóðnum enn á ný og standa við fyrri skuldbindingar sem sjóðurinn hefur gert, eru aðeins rúmar 70 millj. eftir til ráðstöfunar í þágu fatlaðra á næsta ári. Aldrei hefur nokkur ríkisstjórn verið svo skammarleg í meðferð sinni á þessum þjóðfélagshópi að skerða framlög til þeirra með þessum hætti. Ég vona að hæstv. félmrh. hafi ekki vitað hvað hann var að gera. Og ég spyr: Var hann að hugsa eða var hann hugsaður, eins og skáldið sagði, af piltunum í fjmrn.? Ég held að svo hljóti að hafa verið og ég vona að hann af sinni sanngirni sjái sér fært að rétta þetta af og bæta inn í fjárlagafrv. áður en það verður afgreitt frá hinu háa Alþingi þeim tekjum sem verið er að taka af fötluðum, þeim réttmætu, lögboðnu tekjum.

Herra forseti. Ég gæti auðvitað talað um þær áherslur sem núv. ríkisstjórn hefur lagt og þá forgangsröðun sem hún hefur fundið sér í þessu fjárlagafrv. og það að höggva í sama knérunn en ég veit ekki hvort það er ástæða til að draga fleiri slíkar staðreyndir fram í dagsljósið. En ég held að allir sanngjarnir menn hljóti að sjá að þessi fjárlög eru með þeim hætti að hið háa Alþingi geti aldrei samþykkt þau. Alþingismenn geta aldrei samþykkt að skerða með þessum hætti kjör þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu. Ég heiti á alla réttsýna menn á Alþingi að forða þeirri ógæfu.