Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 16:48:45 (107)

1995-10-06 16:48:45# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÁÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Ásta B. Þorsteinsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær skýringar sem hann var að reyna að gefa í ræðustól um fjárframlög til málefna fatlaðra en ég verð að segja að þessi ummæli valda mér nokkrum vonbrigðum.

Ég átti þess kost að hlýða á hæstv. félmrh. á laugardaginn fyrir viku. Þar kynnti hann fyrir fjölmennri ráðstefnu þau fjárframlög sem hafa runnið til málefna fatlaðra undanfarin 15 ár. Þetta eru vissulega háar tölur. Það eru 4,3 milljarðar sem hafa verið settir í stofnframlög til framkvæmda í þágu fatlaðra á 15 árum. Fleirum hefur brugðið en mér vegna þess að ég hélt í raun að þetta væri mikið meira.

Við getum tekið ýmsa útgjaldaliði ríkisins og borið þá saman við þessi fjárframlög. Við getum leikið okkur með tölur endalaust. En staðreyndin er sú að það er svo sérkennilegt að þegar kemur að þessum málaflokki er þetta eini málaflokkurinn sem alltaf er fjallað um í ljósi fortíðar. Aldrei er litið á þennan málaflokk i ljósi nútímans og í ljósi þeirrar framtíðar sem við erum að byggja hér á landi. Nei, það er alltaf talað um aukin útgjöld í þennan málaflokk en ég skal minna á það og við munum við öll í dag að þessi málaflokkur var byggður upp frá engu og byrjað á þeirri uppbyggingu fyrir 15 árum og þeirri uppbyggingu er langt í frá lokið. Þegar talað er um útgjaldaaukningu vegna málefna fatlaðra þá mótmæli ég því, herra forseti, því að þegar við horfum til næsta árs verður einungis 22 millj. kr. varið í að bæta við rekstri í þágu fatlaðra. Ég er sammála hæstv. fjmrh. að við fáum ekki allt með steinsteypu en hefði ég gjarnan viljað sjá að hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. hefði tekist að koma nokkrum krónum í rekstur í þágu fatlaðra á næsta ári.