Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 15:10:09 (116)

1995-10-09 15:10:09# 120. lþ. 5.92 fundur 26#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] Sighvatur Björgvinsson :

Herra forseti. Á hinu stutta vorþingi sl. vor var þráfaldlega tekið fram af ýmsum stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar að heildarendurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða mundi hefjast nú á þessu hausti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Það má öllum vera ljóst að þessi fjögur atriði sem hér eru tekin fyrir eru hin minni mál þó þannig vaxin að menn vildu ekki geyma þau til haustsins, þau voru þess eðlis. Stóru málin bíða, þau bíða til haustsins þegar menn telja sig hafa tíma til að ræða þau. Þar á meðal, eins og þeir sem hafa fengið verkefnaskrána geta séð, er endurskoðun á heildarlöggjöfinni um fiskveiðar.``

Ég ætla ekki, virðulegur forseti, tímans vegna að rekja frekari ummæli einstakra stjórnarþingmanna um þessi efni sem falla mjög í sama farveg og þau ummæli sem ég hef hér vitnað til en þar gæti ég bæði vitnað til annarra stjórnarþingmanna af Vestfjörðum, stjórnarþingmanna af Vesturlandi og stjórnarþingmanna af Reykjanesi.

Nú kemur það hins vegar í ljós við lestur fylgiskjals með stefnuræðu hæstv. forsrh. að þar á lista um þau frv. sem hæstv. sjútvrh. hyggst flytja er ekki frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Þannig er ljóst að hann mun a.m.k. ekki sjálfur hafa neitt frumkvæði að því að þessi mál verði tekin upp á haustþingi eins og þráfaldlega hafði komið fram hjá öðrum en honum á vorþinginu því ég vil taka það skýrt fram að þær yfirlýsingar sem ég hér vitna til fóru aldrei úr munni hæstv. sjútvrh.

Út af fyrir sig gætu menn virt það til vorkunnar að það skyldi ekki gert, að yfirlýsingar stjórnarþingmanna skuli ekki standast ef ekki hefði það gerst að smábátamönnum hafi verið gefin fyrirheit um það í sumar að þeim ágöllum, sem reyndust vera á lögum um stjórn fiskveiða er þá vörðuðu, yrði kippt í lag þegar endurskoðun fiskveiðistefnunnar færi fram nú í haust. Í því sambandi má t.d. nefna eftirfarandi sem fram hefur komið:

Í fyrsta lagi hefur fram komið að smábátar hafi ekki tryggða 86 sóknardaga eins og menn ræddu um heldur aðeins 82.

Í öðru lagi hefur komið fram að gerð voru þau mistök að í gildandi lögum segir að ekki megi færa á milli tímabila fyrr en 1. feb. 1997 en allflestir, þar á meðal hv. þm., stóðu í þeirri trú að þetta mætti gera 1. febr. 1996 en það verður ekki gert nema með breytingu á lögunum.

Ég hef heyrt hv. stjórnarþm. lýsa því yfir að þeir hafi ekki veitt þessu athygli fyrr en löngu eftir að lögin höfðu verið afgreidd og ég hef líka heyrt þá fara með stórar yfirlýsingar um það að þessu verði kippt í lag við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða nú þegar á þessu hausti.

Í þriðja lagi voru miklar heitstrengingar uppi um að með lagabreytingunni væri verið að færa sóknina af vetrartíma yfir á sumarið. Það kemur í ljós við athugun málsins að svo er ekki því að ef jafnað er á mánuðina þá er gert ráð fyrir því að sóknardagar geti verið allt að meðaltali 11 daga í mánuði í mánuðunum sept.--nóv., 7 daga í febr.--apríl, á milli 6--7 daga í maí og júní og 7 daga í júlí og ágúst, þannig að niðurstaðan er þveröfug við það sem sagði. Eins og lögin standa nú er verið að ýta sóknarþunga smábátaveiðinnar yfir á vetrarmánuðina með öllum þeim hættum sem því fylgja. Þá hefur líka komið fram að skilgreining á sóknardegi er ekki sú sama hjá hæstv. sjútvrh. og hjá einstökum þingmönnum í sjútvn. ef miða má við þeirra eigin yfirlýsingar. Og þá liggur ekki fyrir hvernig fara eigi með ef hafinn er róður. Ef smábátur lætur úr höfn en snýr til baka vegna veikinda eða bilunar þá liggur ekki fyrir hvernig fara á með þau tilvik.

Þessum mönnum var lofað því í sumar af mörgum stjórnarþingmönnum að það yrði gerð bragarbót á þessum mistökum sem þeir kölluðu svo nú þegar á þessu haustþingi þegar sjútvrh. legði fram það frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem þessir sömu stjórnarþingmenn lofuðu á vorþingi að lagt yrði fram nú í haust. Nú finnst þetta frv. ekki á frumvarpalista hæstv. sjútvrh. Með öðrum orðum: Hann tilkynnir með stefnuræðu forsrh. að hann hyggist ekki leggja slíkt frv. fram í allan vetur. Ég vil spyrja hann: Er þetta rétt? Hyggst hann ekki leggja umrætt frv. fram og hvernig eiga menn þá að standa við þau fyrirheit sem fjölmargir stjórnarþingmenn hafa gefið smábátamönnum í sumar?