Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 15:21:02 (118)

1995-10-09 15:21:02# 120. lþ. 5.92 fundur 26#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er vissulega gagnlegt að taka þetta hér fyrir og ég fagna þeim ummælum sjútvrh. út af fyrir sig að fjarvera breytinga á lögum um stjórn fiskveiða á forgangslista ríkisstjórnar þarf ekki að þýða að lagfæringar geti ekki orðið á þeirri löggjöf í vetur. Ég vil taka fram vegna orða hæstv. sjútvrh. að hafi einhver mistök verið gerð við lagasetningu hvað þetta varðar hér á Alþingi sl. vor, þá er auðvitað alveg ljóst að ábyrgðin á þeim mistökum ber hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar hér á Alþingi vegna þess að það var málamiðlun stjórnarflokkanna sem hér var lögfest á ábyrgð meiri hlutans í andstöðu við stjórnarandstöðuna þannig að það þarf að vera alveg ljóst hverjir bera hina pólitísku ábyrgð á þeim texta sem lögfestur var. Ég a.m.k. vil algjörlega þvo hendur mínar af því að bera pólitíska eða faglega ábyrgð á þeim lagatexta því að hann var soðinn saman í málamiðlun milli stjórnarflokkanna og lögfestur þannig óbreyttur.

Það er alveg ljóst að það eru tæknilegar ágallar á löggjöfinni varðandi yfirstandandi fiskveiðiár og því þarf að breyta. Það hlýtur þess vegna að þurfa að koma til skoðunar nú á allra næstu vikum að gera breytingar, a.m.k. varðandi ákvæðin um veiðar smábáta sem snúa að yfirfærslu róðrardaga. Mér er kunnugt um að það eru væntanleg erindi til sjútvn. frá forsvarsmönnum smábátaútgerðar fyrir norðan sem telja að af veðurfarsástæðum og öðru slíku komi þessir ágallar löggjafarinnar sérlega illa við útgerð á þeim slóðum. Þessi erindi hljóta menn að sjálfsögðu að taka til skoðunar. Þá stendur fyrir dyrum landsfundur Samtaka smábátaeigenda og það sem þar verður fjallað um og samþykkt hlýtur einnig að koma til skoðunar hér á Alþingi. Ég lít því svo á að þessi mál hljóti að verða hér á dagskrá á allra næstu vikum og ég vona að um það a.m.k. geti tekist pólitísk samstaða, hvað sem ágreiningi um málið líður að öðru leyti, að taka til skoðunar lagfæringu á augljósum tæknilegum ágöllum á löggjöfinni eins og hún er og snýr að yfirstandandi fiskveiðiári.