Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 15:23:33 (119)

1995-10-09 15:23:33# 120. lþ. 5.92 fundur 26#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), GuðjG
[prenta uppsett í dálka]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Það er nú að koma í ljós sem ég varaði við á Alþingi í vor að þær breytingar sem þá voru gerðar á lögunum um stjórn fiskveiða mundu eyðileggja krókaleyfiskerfið. Talsmenn kvótakerfisins hafa lengi hamast gegn krókaleyfunum og viljað þau feig og því miður virðist draumur þeirra vera að rætast.

Þá varaði ég mjög við því ákvæði laganna að fela Byggðastofnun að úthluta 500 tonnum af þorski og greiddi atkvæði gegn því. Nú hefur það komið á daginn að þetta er óframkvæmanlegt ef það á að fara eftir því sem segir í lögunum, þ.e. að Byggðastofnun skuli árlega ráðstafa þessum aflaheimildum til krókabáta sem gerðir eru út frá byggðarlögum sem algjörlega eru háð veiðum slíkra báta og standa höllum fæti. Það kom nefnilega í ljós að ekkert byggðarlag uppfyllir þetta skilyrði laganna nema Mýrahreppur á fjörðum vestur, en þaðan voru á síðasta ári gerðir út tveir bátar sem drógu að landi 34 tonn að verðmæti 2 millj. kr. Ekkert annað byggðarlag kemst nálægt markmiði laganna. Ég lagði það því til í stjórn Byggðastofnunar að stofnunin skilaði þessu verkefni til hæstv. sjútvrh. en fékk því miður ekki nægan stuðning við þá tillögu þannig að trúlega verður kátt í Mýrahreppi á næstunni.

Á vorþinginu var samþykkt að ráðstafa 5 þús. lestum af þorski til þeirra sem hafa orðið fyrir mestri skerðingu aflamarks síðustu árin og að þessari viðbót skyldi deilt á öll aflamarksskip nema fullvinnsluskip, þannig þó að engir fengju meira en 10 lestir. Einhvern veginn tókst að klúðra þessari úthlutun þannig að örfáir smábátar fengu ekki neitt og það var skýrt með því að þeir hefðu aukið ýsukvóta sinn. Ég tel þetta ganga þvert á umræðuna í þinginu í vor. 5 þús. tonnin áttu að ganga til þeirra sem hafa orðið fyrir þorskskerðingu, ýsukvóti sem menn hafa eignast og yfirleitt ekki náð að veiða, skiptir þar engu máli. Mér skilst að þetta hafi verið leiðrétt við úthlutun nýs fiskveiðiárs en tel að þessir bátar eigi inni leiðréttingu fyrir úthlutun síðasta fiskveiðiárs. Þar er um nokkra tugi tonna að ræða sem ráðuneytið verður að leiðrétta.

Herra forseti. Það hefur verið skondið að fylgjast með málflutningi hv. þm. Alþfl. um þessi mál í vor og aftur núna. Það rifjast nefnilega upp sú mikla umræða sem varð um þessi sömu mál vorið 1994 þegar tekist var á um mál smábátamanna hér á Alþingi. Þá tóku þessir sömu þingmenn varla þátt í umræðunum og samþykktu með bros á vör þær breytingar sem þá voru gerðar og gengu allt of skammt fyrir smábátaútgerðina. Ég held að málflutningur þessara hv. þm. væri trúverðugri ef þeir hefðu sömu skoðun hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.