Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 15:29:10 (121)

1995-10-09 15:29:10# 120. lþ. 5.92 fundur 26#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Það er rétt sem hefur komið hér fram hjá fyrirspyrjanda og fleirum að við setningu laganna í vor um smábátana urðu hér mistök. Það er greinilegt að það urðu mistök. Ég hef fulla ástæðu til að ætla að það sé vilji ríkisstjórnar og vilji sjútvrh., eins og reyndar kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan, að breyta þessum lögum. Ég treysti því og þykist geta treyst því.

Ef menn líta á fjárlagafrv. sem liggur nú fyrir, þá geta menn séð að verulegir fjármunir eru ætlaðir til þess að endurskoða einmitt fiskveiðistjórnarkerfið. Til þess eru ætlaðir verulegir fjármunir. Það var gerð sátt um það meðal stjórnarflokkanna í upphafi að við skyldum endurskoða þetta kerfi, skoða hagkvæmni hinna ýmsu leiða við stjórnun fiskveiða. Á þetta var fallist.

Það hefur alltaf legið fyrir, herra forseti, að það eru miklar deilur meðal sjálfstæðismanna t.d. um það hvern veg við færum best að því að stjórna okkar fiskveiðum. Við erum ákveðnir í að endurskoða þetta og taka það fyrir. Enginn getur fullyrt það hér og nú að hann muni hafa meiri hluta á bak við sig eftir að endurskoðun hefur farið fram. Það væri rangt og það hefur enginn sagt. En við ætlum okkur að berjast fyrir breytingum á stjórn fiskveiða hvernig sem þeirri baráttu lýkur. Endurskoðun fer nú fram og á grundvelli hennar munum við breyta fiskveiðilögum eða ekki, eftir því hver verður ofan á. Ef þau sjónarmið verða ríkjandi að það eigi ekki að breyta þeim, þá er ekkert annað að gera en að hlíta því. Minni hlutinn getur ekkert annað gert. Það liggur fyrir.