Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 15:35:22 (124)

1995-10-09 15:35:22# 120. lþ. 5.92 fundur 26#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), SF
[prenta uppsett í dálka]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Ég vil að það komi alveg skýrt fram hér og það hefur margoft komið fram að það er sérstakur áhugi hjá okkur framsóknarmönnum í Reykjanesi að hafa áhrif á fiskveiðistjórnunina. Og þið vitið nákvæmlega í hverju okkar áhugi liggur. Við viljum að hlutur smábáta verði aukinn ef þess er nokkur kostur vegna þess að þær veiðar eru að okkar mati vistvænni og gefa af sér betra hráefni heldur en veiðar með stórtækari veiðarfærum. Það er hins vegar alveg ljóst að þetta er ekkert einfalt mál. Við höfum ekki orðið mjög vinsæl fyrir þetta í okkar flokki. Og það er líka alveg rétt að það er erfitt að taka af einhverjum ákveðnum flokki skipa og færa á milli. En til þess gæfist helst tækifæri núna ef kvóti eykst umtalsvert.

Ég vil sérstaklega fagna því og taka undir með Þorsteini Pálssyni, hæstv. sjútvrh., að þótt það felist ekki nein sérstök heildarendurskoðun í einhverju fylgiskjali með fjárlögunum, þá er ekkert lokað í þessu máli.