Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 15:39:08 (126)

1995-10-09 15:39:08# 120. lþ. 5.92 fundur 26#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Fyrst varðandi þau atriði sem hér hafa verið nefnd og lúta að löggjöfinni um smábáta, þá hef ég tekið það fram hér og reyndar áður í viðtölum við forustumenn smábátamanna að þau atriði þar sem um hrein mistök var að ræða og ýmis önnur sem reynslan kann að sýna mönnum að sé eðlilegt að breyta, þá er ráðuneytið fyrir sitt leyti tilbúið til þess að skoða þau og hafa frumkvæði að því að flytja hér brtt. þannig að það er rangt sem hv. 4. þm. Vestf. segir hér að slík yfirlýsing hafi ekki legið fyrir af hálfu ráðuneytisins.

Hins vegar varðandi fjölda veiðidaganna, þá urðu engin mistök við lagasetninguna um þau efni. Það voru settar alveg skýrar reglur um það hvernig finna ætti út fjölda veiðidaga á hverju ári og lá alveg ljóst fyrir á hvaða forsendum þar væri byggt því að þar eru menn að fjalla um veiðistjórnunina sjálfa, þ.e. hvernig hægt er að takmarka veiðarnar við það heildarmagn sem lögin ákveða.

Það er svo að við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða þá hefur stundum verið tekið fram og það beinlínis lögbundið að þau skuli endurskoðuð fyrir tiltekinn tíma. Það var gert í lögunum 1990. Við endurskoðunina og þær breytingar sem gerðar voru vorið 1994, þá voru engin slík ákvæði sett inn í lögin. Við umfjöllun um lögin sl. vor var flutt tillaga um það að binda í lög skyldu til þess að endurskoða lögin fyrir tiltekinn tíma. Sú tillaga var borin upp og felld hér í þinginu þannig að staðan í þessu máli er alveg skýr. Hitt liggur fyrir að ríkisstjórnin ákvað þegar hún var mynduð að setja af stað vinnu við mat á ýmsum kostum við fiskveiðistjórnun. Hagkvæmnirannsóknir við fiskveiðistjórnun eru alveg jafnmikilvægar og líffræðirannsóknirnar og á þeim grundvelli verður unnið.

Ég vil líka minna á að það er athylgisvert í þessum umræðum af hálfu þingmanna Alþfl., þá er fyrst og fremst verið að tala hér um tæknilegar breytingar á fiskveiðilöggjöf en ekki þörf á grundvallarbreytingum og það er kannski það athyglisverðasta við þessar umræður hér í dag.