Réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 16:02:10 (129)

1995-10-09 16:02:10# 120. lþ. 5.2 fundur 13. mál: #A réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir ágætar undirtektir við málið. Hann spyr hvort um sé að ræða tæmandi úttekt eða tæmandi yfirlit yfir þau lagafrumvörp sem þyrfti að breyta til þess að ná hinu yfirlýsta markmiði laganna. Því er til að svara að ég notfærði mér hina nýfengnu tækni þingsins og lét gera tölvuleit á öllum þeim orðum sem mögulega tengdust fæðingarorlofi, ættleiðingu á kjörbörnum og öllum orðmyndunum þess. Það var á grundvelli þeirrar úttektar sem þetta lagafrv. var samið. Jafnframt er rétt að það komi fram að leitað var ráða hjá Íslenskri ættleiðingu sem hefur um nokkurra ára skeið barist fyrir því að ná fram sérstökum breytingum, aðallega þeim sem tengjast fæðingarorlofi en einnig ýmsum öðrum.

Þetta vildi ég að kæmi hérna fram. En mér finnst sú hugmynd sem hv. þm. Svavar Gestsson varpar hér fram um sérstaka markmiðsgrein afskaplega góð. Þó vil ég að að komi fram að á 117. löggjafarþingi lýsti hæstv. dómsmrh. því yfir í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að endurskoðun ættleiðingarlaga stæði yfir. Síðan hefur ekkert heyrst frá því. Þetta var 16. apríl 1994 en ég vænti þess að í slíkum lögum kynni markmiðsgrein af þessu tagi örugglega að eiga heima, en ég sé ekkert því til fyrirstöð að hún komi einnig inn í lög sem þessi.