Útvarpslög

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 16:13:15 (133)

1995-10-09 16:13:15# 120. lþ. 5.3 fundur 3. mál: #A útvarpslög# (Menningarsjóður útvarpsstöðva) frv., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á útvarpslögum, nr. 68/1996, á þskj. 3, 3. mál. Flutningsmenn auk þeirrar sem hér stendur eru hv. þingmenn Kristín Ástgeirsdóttir og Svanfríður Jónasdóttir.

Þetta frv. felur í sér, verði það samþykkt, að Menningarsjóður útvarpsstöðva verði lagður niður og er með ákvæði til bráðabirgða um að eignir sjóðsins, séu þær einhverjar, renni til Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Frv. þetta er samhljóða frv. er lagt var fram á 115. löggjafarþingi og flm. var sú sem hér stendur ásamt fleirum. Núgildandi útvarpslög tóku gildi 1. jan. 1996, en í þeim lögum er fyrst kveðið á um sjóðinn. Reglugerð um hann var síðan samþykkt 11. febrúar sama ár en sjóðnum ekki skipuð stjórn fyrr en 10 mánuðum síðar, í nóvember 1986.

Við setningu útvarpslaga árið 1985 kom skýrt fram í umræðum á Alþingi að tilgangurinn með Menningarsjóði útvarpsstöðva væri tvíþættur. Í fyrsta lagi að létta af Ríkisútvarpinu kostnaði sem það hefði af rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þ.e. 25% af rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar umfram tekjur, sbr. 11. gr. laga nr. 36/1982, en þessi kostnaður gerði samkeppnisstöðu þess erfiðari gagnvart einkareknum stöðvum sem báru ekki slíkar skyldur, og í öðru lagi að efla innlenda dagskrárgerð sem verða mætti til menningarauka og fræðslu.

Tekjur Menningarsjóðs útvarpsstöðva eru sérstakt gjald, menningarsjóðsgjald, sem er 10%, sem lagt er á allar auglýsingar í útvarpi bæði hljóðvarpi og sjónvarpi. Af þessu gjaldi greiðist hlutur Ríkisútvarps af rekstrarkostnaði sinfóníuhljómsveitarinnar áður en styrkjum er úthlutað til útvarpsstöðvanna. Vegna þessarar tíundar standa ljósvakamiðlar höllum fæti í samkeppni við aðra fjölmiðla á auglýsingamarkaðnum. En eins og kunnugt er hafa auglýsingatekjur mikla þýðingu í rekstri þessara fjölmiðla. Í útvarpslögum og reglugerð nr. 69 frá 1986, um Menningarsjóð útvarpsstöðva, er kveðið á um að framlög úr sjóðnum skuli aðeins veitt útvarpsstöðvum bæði til dagskrárgerðar viðkomandi útvarpsstöðvar sjálfrar og til kaupa útvarpsstöðvar á efni til flutnings frá öðrum innlendum aðilum sem að annast dagskrárgerð.

Árið 1991 voru gerðar breytingar á eldri reglugerðum um sjóðinn og var hlutverk sjóðsins skilgreint að nýju þannig að íslenskir framleiðendur dagskrárefnis öðluðust einnig rétt til framlaga vegna innlendrar dagskrárgerðar er verða mætti til menningarauka og fræðslu eins og segir í reglugerðinni og lögunum. Sjóðurinn var sem sagt settur á laggirnar þegar rekstur útvarps var gefinn frjáls og tilgangurinn að losa Ríkisútvarpið eitt undan kostnaði við rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands auk þess að efla innlenda menningar- og fræðsludagskrárgerð. Ástæðan var sú að stuðningsmenn sjóðsins óttuðust að menningarefni yrði út undan á einkareknu útvarpsstöðvunum og vildu á þennan hátt tryggja gerð fræðslu- og menningarefnis. Það var einnig mjög skýrt í lögunum um sjóðinn að greiðslur til sinfóníunnar ættu að ganga fyrir veitingu styrkja. Hlutverk menningarsjóðsins og starfshættir voru oft til umræðu í útvarpsráði þau átta ár sem ég átti sæti þar. Enda óþolandi að horfa upp á þá vitleysu sem þar viðgekkst. Engar formlegar úthlutunarreglur voru til fyrir sjóðinn fyrr en í fyrra og takmarkað eftirlit með því að úthlutað fé væri nýtt með tilætluðum hætti. Milljónir hafa farið úr sjóðnum án þess að þær hafi nokkurn tíma skilað sér í dagskrárefni og væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hjá t.d. hæstv. menntmrh. hversu mikið fé úr sjóðnum, til hverra og hvaða verkefna, hafi ekki skilað sér í dagskrá þessarra miðla frá upphafi styrkveitinga. Með því fyrirkomulagi sem komst á eftir reglugerðarbreytinguna 1991 þegar að kvikmyndagerðarmenn gátu fengið úthlutanir úr sjóðnum auk útvarpsstöðva kom það fyrir að stöðvarnar voru að tvíborga fyrir dagskrárefnið. Fyrst með styrkjunum úr menningarsjóðnum, sem voru í raun auglýsingafé þessara stöðva, og síðan aftur með greiðslu fyrir að fá að sýna eða flytja dagskrána. Lýsandi dæmi um þetta er myndaflokkurinn Þjóð í hlekkjum hugarfarsins þar sem framleiðandi hlaut 9 millj. kr. styrk úr Menningarsjóði útvarpsstöðva og Ríkisútvarpið--sjónvarp greiddi síðan 3 millj. kr. fyrir sýningarréttinn. Það þýðir að alls voru greiddar 12 millj. kr. fyrir þættina. Þess má geta að meðalverð fyrir aðkeyptar fræðslumyndir hjá sjónvarpinu er 20.000 kr. á mínútuna og ef miðað er við það að þá hefði verið eðlilegt að greiða fyrir myndaflokkinn 4,9 millj. kr. Það er 245 mínútur sinnum 20 þús. kr. Reyndar hefur einn af okkar færustu kvikmyndargerðarmönnum sagt mér að þessi tiltekni myndaflokkur hefði ekki getað kostað meira en 2 millj. í framleiðslu þannig að þarna hafa 10 millj. farið einhvers staðar á milli laga.

Um áramótin 1994 voru skuldir sjóðsins við ríkissjóð u.þ.b. 175 millj. kr. Má rekja þessar miklu skuldir til þess að allt frá stofnun sjóðsins hefur verið tilhneiging til að greiða styrki án þess að framlag sjóðsins til Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafi verið fulluppgert og í þrjú ár, árin 1986, 1989 og 1992 rann ekkert af tekjum sjóðsins til hljómsveitarinnar. Hafa þessar skuldir reyndar nú verið gerðar upp og sinfóníuhljómsveitin hefur fengið sinn hluta úr sjóðnum sl. tvö ár en á þeim tíma var ekki úthlutað úr sjóðnum til dagskrárgerðar. Reyndar var úthlutað nú í haust, nú 3. október, og auglýsing um það birtist í dagblöðum um síðustu helgi.

Þessi sjóður hefur verið Ríkisútvarpinu þungur baggi. Á þeim níu árum sem liðin eru frá stofnun hans hefur Ríkisútvarpið greitt tæpar 400 millj. í sjóðinn en fengið til baka þriðjung í dagskrárgerð. Ríkisútvarpið--hljóðvarp hefur greitt í sjóðinn af auglýsingatekjum sínum rúmar 202 millj. kr. og sjónvarpið rúmar 193 millj. kr. Í staðinn fyrir þessar greiðslur hefur hljóðvarpið frá upphafi fengið til dagskrárgerðar 34,5 millj. kr. en sjónvarpið tæpar 93 millj. Þetta eru um rúm 32% af því sem að Ríkisútvarpið greiddi í sjóðinn.

Það segir sig sjálft að útvarps- og sjónvarpsstöðvar hefðu haft mun meira dagskrárfé til ráðstöfunar án sjóðsins. Þær mundu einnig fylgja því betur eftir að dagskrárefni, sem greitt hefur verið fyrir, skili sér í dagskrá þeirra. Það er einnig mjög óeðlilegt fyrir útvarps- og sjónvarpsstöðvar að pólitísk kjörin sjóðstjórn úti í bæ ráðstafi hluta auglýsingatekna þeirra til ákveðinnar dagskrárgerðar. Á útvarps- og sjónvarpsstöðvunum er fagfólk sem er fullfært um að framkvæma dagskrárstefnu hvers miðils og leggja á ráðin um dagskrárgerð í samræmi við hana. Það þarf enga þriggja manna pólitíska sjóðstjórn til. Þetta fyrirkomulag er vanvirðing og vantraust á starfsfólk á stöðvunum og mundi flokkast undir miðstýringu. Útvarpsstöðvarnar eiga sjálfar að ákveða framleiðslu sína og nýta til hennar tekjur sínar hvort sem þær eru afnotagjöld eða fyrir auglýsingar. Stöðvarnar ættu síðan að ákveða hvort að þær eigi að framleiða efni sitt sjálfar eða fá sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarmenn eða þáttagerðarmenn til þess að vinna það. Ef sá háttur hefði verið hafður á hefði Ríkisútvarpið t.d. haft mun meira dagskrárfé úr að spila eins og ég nefndi áðan ef það hefði t.d. ekki þurft að greiða í sjóðinn og sama gildir reyndar um Stöð 2. Hjá Ríkisútvarpinu--sjónvarpi hefur á undanförnum árum yfir 25% af dagskrárefninu verið unnið af sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarmönnum og hlutur þeirra mundi aukast ef sjónvarpið ráðstafaði sjálft tíund þess til menningarsjóðsins. Verði frumvarpið að lögum ætti breytingin því að verða fagnaðarefni fyrir kvikmyndagerðarmenn.

Í umræðum um frumvarp þetta á 115. löggjafarþingi lýstu menn yfir áhyggjum sínum vegna framtíðar Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem fær 25% af hallarekstri sínum úr sjóðnum. Eins og komið hefur fram í máli mínu hér á undan fékk hljómsveitin ekki greiddan sinn hlut í þrjú ár þótt sú skuld hafi nú verið gerð upp. Sjóðurinn hefur því ekki verið það trygga bakland hljómsveitarinnar sem menn töldu þá. Ég tel ekki eðlilegt né virðingu sinfóníuhljómsveitarinnar samboðið að ljósvakamiðlarnir standi undir rekstri hennar með þessum hætti. Það er mun eðlilegra að ljósvakamiðlarnir hafi frjálsan samningsrétt við hljómsveitina.

Í máli forsvarsmanna Ríkisútvarpsins hefur komið fram að þeir séu reiðubúnir til að gera slíkan samning verði um breytta skipan mála að ræða. Með slíkum samningi fengist drjúgur hluti þeirrar upphæðar sem menningarsjóðurinn greiðir nú. Kæmi til samninga við aðrar stöðvar yrði hlutur ríkissjóðs í rekstri hljómsveitarinnar væntanlega lítill. Það á einnig að vera stolt hverrar menningarþjóðar að reka myndarlega sinfóníuhljómsveit og greiða úr sameiginlegum sjóði það sem upp á vantar við rekstur hennar á hverju ári.

Árið 1988 taldi Ríkisendurskoðun að réttast væri að leggja Menningarsjóð útvarpsstöðva niður þar sem markmiðin með stofnun hans hefði ekki náðst. Hafi það verið rétt þá á slíkt ekki síður við nú. Markmiðin með sjóðnum hafa ekki náðst eins sjá má af því að minna fé er til ráðstöfunar til menningardagskrárgerðar, til menningarauka og fræðslu og sinfónían hefur fengið sinn hlut bæði seint og illa. Engin rök eru fyrir því að halda áfram að færa fé frá Ríkisútvarpinu til Sinfóníuhljómsveitar Íslands í gegnum Menningarsjóð útvarpsstöðva. Ekki er eðlilegt að ljósvakamiðlarnir standi að rekstri sinfóníuhljómsveitar og nauðsynlegt að finna hljómsveitinni annan tekjustofn. Menningarsjóður útvarpsstöðva átti e.t.v. rétt á sér er hann var stofnaður en aðstæður hafa breyst og það hefur sýnt sig að markmiðin með sjóðnum hafa ekki náðst og því ekki ástæða til þess að hann starfi áfram. Ríkisstjórnin hefur fengið áskorun um að leggja Menningarsjóð útvarpsstöðva niður og sú áskorun er frá forsvarsmönnum ungra sjálfstæðismanna sem nú er stjórnarmaður í sjóðnum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem komið hafa fram óskir um að menningarsjóðurinn verði lagður niður, forsvarsmenn ljósvakamiðlanna hafa lýst þeirri skoðun sinni oftlega opinberlega.

Hæstv. menntmrn. lýsti því yfir í sumar að leggja bæri sjóðinn niður í framhaldi af áskorun hans ungu flokksbræðra. Ég fagna því og vona að hann leggi þessu frumvarpi lið svo að sjóðurinn geti heyrt sögunni til.

Að lokinni umræðunni legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hæstv. menntmn.