Útvarpslög

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 16:26:50 (134)

1995-10-09 16:26:50# 120. lþ. 5.3 fundur 3. mál: #A útvarpslög# (Menningarsjóður útvarpsstöðva) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég kannast við að þetta mál hafi verið flutt hérna áður. Mér finnst satt að segja að málið sé ekki alveg nógu undirbúið núna frekar en þá. Það hefur ekkert verið gert í málinu síðan annað en að núv. hæstv. menntmrh. hefur bæst í hóp þeirra sem eru á móti þessum sjóði. Mér finnst örla pínulítið á því í málflutningi hv. flutningsmanns að sjónarmið Ríkisútvarpsins á bak við þann málflutning er dálítið eigingjarnt því að Ríkisútvarpið hefur af eðlilegum ástæðum borið sig illa gagnvart þessum sjóði. Það er eðlilegt sjónarmið vegna þess að Ríkisútvarpið hefur verið meira og minna eini aðilinn sem hefur borgað í þennan sjóð, hinir hafa vanrækt það og ekki sinnt því sem skyldi. Af þeim ástæðum hefur Ríkisútvarpið talið sig sárt leikið í málinu og ég held að það sé út af fyrir sig alveg rétt. En ég held að það þurfi að skoða málið pínulítið betur og það er tvennt eða þrennt, hæstv. forseti, sem að ég vil nefna.

Í fyrsta lagi að mjög víðtæk samstaða er um það, t.d. hér á Alþingi, og hefur verið meðal listamanna í landinu, dagskrárgerðarmanna í landinu, að það þurfi að vera til sjóður til þess að styrkja metnaðarfull verkefni af ýmsu tagi sem einstakar útvarpsstöðvar vilja leggja í. Mér finnst mikilvægt að stöðvarnar, t.d. einkastöðvarnar sem eru illa á vegi staddar fjárlagslega, geti hugsanlega átt möguleika á því að fá einhvern stuðning úr sjóði af þeim toga sem að hér hefur verið um að ræða. Mér finnst líka mikilvægt að hafa það í huga að þegar að sjóðurinn var stofnaður var hann niðurstaða af pólitískri samkomulagslausn milli Sjálfstfl. og Framsfl. að frumkvæði Framsfl., sérstaklega vegna þess að Framsfl. taldi þá að það væri varasamt að gera rekstur þessarar útvarpsstarfsemi algjörlega frjálsan eins og síðar varð nema gripið væri um leið til ráðstafana til að styrkja innlenda dagskrárgerð. Það voru allir sammála þessu sjónarmiði Framsfl. og mér fannst þá og finnst enn að þetta sjónarmið sé og hafi verið skynsamlegt. Það er líka alveg ljóst að þetta er ekki bara mikilvægt atriði frá sjónarmiði stöðva að svona sjóður sé til, það er líka mikilvægt frá sjónarmiði þeirra sem eru að framleiða dagskrárefni. Það er mjög mikilvægt að þeir séu ekki eingöngu háðir þeim sem eiga stöðvarnar þegar þeir fara af stað heldur geti þeir líka fengið stuðning til þess að framleiða efni af ýmsu tagi án þess að stöðvarnar hafi fengið stuðning til að framleiða efni af ýmsu tagi, án þess að stöðvarnar skrifi endilega upp á það í einstökum tilvikum. Og ég tel að með því að leggja þennan sjóð niður væri verið að gera dagskrárgerðarmenn enn háðari stöðvunum en þegar er. Ég tel nóg að gert í þeim efnum.

Þetta er sjónarmið eitt sem ég vil halda til haga, hæstv. forseti. Það er sem sagt tiltölulega góð samstaða um að það þurfi að vera til dagskrárgerðarsjóður. Og þegar fyrrv. hæstv. menntmrh. lét endurskoða útvarpslögin þá flutti hann frv. um endurskoðun útvarpslaganna, sem varð reyndar aldrei að lögum, þar sem gert var ráð fyrir því að það yrði til dagskrárgerðarsjóður. Þar var gert ráð fyrir því að það yrði til ákveðinn dagskrárgerðarsjóður sem yrði að vísu fjármagnaður öðruvísi en gert er ráð fyrir með þennan sjóð, þ.e. að menningarsjóðurinn yrði lagður niður en dagskrárgerðarsjóður yrði samstundis stofnaður í staðinn. Það finnst mér allt önnur nálgun. Mér finnst það ábyrg nálgun. Mér finnst það ekki ábyrg nálgun að henda út þessum menningarsjóði án þess að ég sé að saka hv. flm. um ábyrgðarleysi. Ég veit vel að hún ber hag þessara stofnana fyrir brjósti og þekkir þetta vel sem útvarpsráðsmaður um langt árabil. Þetta er sjónarmið eitt.

Í öðru lagi er svo það sjónarmið að Sinfóníuhljómsveit Íslands verður að fá peninga. Og það gengur ekki að henda út peningum sinfóníunnar með þeim hætti sem hér yrði vegna þess að hér er bara talað um að eignir Menningarsjóðs útvarpsstöðva skuli við gildistöku laga þessara renna til Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þ.e. kröfurnar væntanlega eins og þær eru. En rekstrartekjurnar sem sinfónían hefur haft út úr þessu dæmi upp á 20--30 millj. kr. að ég held á ári, þær eru hvergi. Og ég spyr þá, hæstv. forseti: Telja menn líklegt að Alþingi yrði tilbúið til þess að útvega sinfóníuhljómsveitinni tafarlaust þessa peninga, 20--30 millj. kr.? Mitt svar er nei, hæstv. forseti. Vegna þess að það er ævinlega og hefur alltaf verið tregða til þess í þessari virðulegu stofnun að láta sinfóníuhljómsveitina hafa peninga. Það hefur alltaf verið mjög erfitt að berja hér fram fjármuni fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ætla ég ekki í því sambandi að vitna til þingmannsins sem flutti þá athyglisverðu munnlegu tillögu að hljóðfæraleikararnir væru þjálfaðir í að spila á fleiri en eitt hljóðfæri, kannski tvö til þrjú, til að einfalda og hagræða í rekstrinum hjá þessari ágætu stofnun.

Þannig að í fullri alvöru, hæstv. forseti, þá vil ég ekki samþykkja svona frv. fyrr en búið er að tryggja sinfóníunni peningana. Hvað mundi sinfónían gera ef hún missti þessa peninga? Hún mundi missa við það væntanlega ja, tíu manns eða svo úr sínu liði. Þar með er sinfónían orðin allt önnur stofnun en hún er í dag og allt of veik til að rísa undir því að vera sinfóníuhljómsveit þjóðríkis. Allt of veik. Hvað myndi þá sinfóníuhljómsveitin gera? Myndi forusta hennar gefast upp við svo búið? Svarið er nei, hún mundi ekki gefast upp. Hún mundi fara út á einkamarkaðinn og reyna að fjármagna sig með þeim hætti. Hún myndi með öðrum orðum grípa til ýmissa ráðstafana af því tagi eins og t.d. það að selja fyrirtækjum sæti eða þá hitt sem væri enn þá verra ef hljóðfæraleikararnir yrðu látnir spila í búningum frá kóka kóla eða Húsasmiðjunni, sem er út af fyrir sig athyglisvert en væri ekki til fegurðar eða menningarauka að mínu mati.

Ég held sem sagt að menn þurfi að gera sér grein fyrir því að Sinfóníuhljómsveit Íslands er viðkvæm stofnun. Hún er ekkert sem maður kastar til rétt sí svona og segir: Þetta bjargast. Það verður auðvitað að viðurkenna það að Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur kannski ekki verið, ja, það hefur ekki verið mikill málflutningur í hennar þágu á pólitískum vettvangi. Ég er búinn að vera örfá ár í stjórnmálum, eins og kunnugt er, og ég man ekki til þess að menn hafi haldið miklar ræður fyrir kosningar um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég man ekki til þess að menn hafi verið að gera sig vinsæla með þeirri stofnun. Satt að segja held ég að það hafi nú frekar verið þannig að menn hafi ekki fjallað mjög mikið um hana. Og það er ekki bara vegna þess að það hafi verið góð sátt um sinfóníuna, sem út af fyrir sig er, heldur er það líka vegna þess að menn hafa talið að það væri kannski ekki sérstaklega til fylgis fallið að vera að rífa upp stórræður í þágu sinfóníuhljómsveitarinnar á þeim tímum kreppu og aðþrengingar og erfiðleika í ríkisfjármálum sem nú eru og alltaf hafa verið reyndar hér í þessu landi. Þannig að af þessum tveimur ástæðum, því að ég vil sjá dagskrárgerðarsjóð og ákvörðun um hann og hinni að ég vil ekki kasta þessum peningum fyrir sinfóníuna út um gluggann þá finnst mér málið þannig að ég gæti ekki stutt það eins og það er. Ef frv. kæmi núna til atkvæða eins og það lítur út hér þá mundi ég greiða atkvæði á móti því. Ég er ekkert að skafa utan af því, ég er ekki vanur því, og gerði það heldur ekki síðast þegar um málið var fjallað en þá vorum við fjögur hér í salnum að ræða um þetta mál. En það hefur fjölgað gríðarlega síðan þannig að áhugi á Menningarsjóði útvarpsstöðva hann hefur vaxið um 100% frá síðasta kjörtímabili. En þá var nú hv. þm. líka í öðrum flokki þannig að þannig að það skiptir (ÖS: Hvaða flokkur var það?) Við skulum ræða það sérstaklega, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem þekkir svona ferðalög á milli flokka líka. Sem getur oft gefist vel og þingmanninum sé ég líður vel í sínum núverandi flokki. (ÖS: Vertu velkominn.) Takk fyrir kærlega en ég býst við að bið verði á því, hv. þm.

Varðandi það að það sé pólitískt kjörin stjórn fyrir menningarsjóðnum þá er hún í sjálfu sér ekkert pólitískt kjörin stjórn. Hún er skipuð af ráðherra, hún er ekki kjörin hér. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að auðvitað er það allt rétt sem hv. þm. sagði um sjóðinn og reksturinn á honum. Þar hafa mönnum verið mislagðar hendur. Það er alveg klárt mál. Og þegar ég kom að þessu máli þann tíma sem ég vann í menntmrn. þá var innheimta á sjóðnum í raun og veru meira og minna í óreiðu að mínu mati. Við fórum í nokkuð mikinn leiðangur, sem hafði það m.a. í för með sér að það þurfti að hóta lokunum á ákveðnum sjónvarps- og útvarpsstöðvum á þessum tíma. Og það bar einhvern árangur. En síðan var þessum hlutum ekki haldið við. Þannig að það er allt rétt að þetta er slæmt. Það hefur illa verið haldið á þessum málum. En það er alveg eins með Menningarsjóð útvarpsstöðva og Alþigi, þó Alþingi sé slakt á köflum og lélegt stundum, að því er þjóðin segir oft, þá er ekki þar með sagt að við viljum leggja það niður. Við viljum laga það. Eins er með þennan sjóð, ég vil laga hann. Ég vil að það verði til dagskrárgerðarsjóður með heiðarlegri, faglegri stjórn og ég vil að sinfóníunni séu tryggðir þessir peningar áður en frv. yrði samþykkt eins og það lítur hér út þó ég vilji að sjálfsögðu þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, 18. þm. Reykv. fyrir það að vekja athygli á þessu máli og láta Alþingi ræða það. Það er mikilvægt og staðreyndin er sú að Alþingi hefur ekki fengist til að ræða þetta mál. Það hefur ekki fengist til að horfast í augu við þann veruleika hvernig Menningarsjóður útvarpsstöðva hefur í raun og veru verið á undanförnum árum og þá ætla ég ekki að fara út í einstakar úthlutanir úr honum sem væri svo sem kapítuli út af fyrir sig og gæti kannski verið alveg sérstakt skemmtiatriði. En hitt má kannski nefna til fróðleiks að það var geysilega víðtæk samstaða um þá reglugerð sem ég gaf út um þennan sjóð vorið 1991, a.m.k. lýstum við stuðningi við hana báðir, ég og Hrafn Gunnlaugsson, kvikmyndagerðarmaður.