Útvarpslög

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 16:40:44 (136)

1995-10-09 16:40:44# 120. lþ. 5.3 fundur 3. mál: #A útvarpslög# (Menningarsjóður útvarpsstöðva) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom hér í umræðunum að ég lýsti þeirri skoðun minni í sumar og er þeirrar skoðunar að Menningarsjóður útvarpsstöðva í núverandi mynd eigi ekki að halda áfram starfsemi sinni. Það ber að breyta þeim starfsháttum sem þar hafa verið og einnig ber að huga að endurskoðun á starfsemi sjóðsins og lagabreytingum sem því tengjast.

Eins og hér hefur komið fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni þá lagði fyrrv. menntmrh., sem nú er hæstv. forseti Alþingis, fram frv. á sínum tíma sem ekki hlaut afgreiðslu eða meðferð í þinginu. Þar segir í greinargerð, með leyfi hæstv. forseti:

,,Meginefni þessa frv. er m.a. að núverandi Menningarsjóður útvarpsstöðva verði lagður niður og þeirri kvöð, sem hvílt hefur á Ríkisútvarpinu og einkaútvarpsstöðvum að greiða 10% gjald af auglýsingatekjum til sjóðsins, verði aflétt. Þess í stað verði stofnaður nýr sjóður, dagskrárgerðarsjóður útvarpsstöðva, sem hafi að meginstefnu til sama hlutverk og Menningarsjóður útvarpsstöðva hefur haft, Þó þannig að Ríkisútvarpið hefur ekki heimild til að sækja um eða hljóta framlög úr sjóðnum. Tekjur hins nýja sjóðs verði tollar og/eða vörugjöld, áður aðflutningsgjöld, af innfluttum útvarpsviðtækjum eða hlutum í þau. Þá er einnig gert ráð fyrir að létt verði af dagskrárgerðarsjóðnum þeirri kvöð að greiða hlut Ríkisútvarpsins í rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.``

Þetta voru tillögur sem hér voru lagðar fram á sínum tíma og í sjálfu sér hefur ekki verið tekin ákvörðun um það í menntmrn. á þeim vettvangi þar sem þetta frv. var samið að breyta því. En eins og fram hefur komið er unnið að því að fara yfir þetta frv. sem hér var kynnt og velta fyrir sér breytingum á því. Þegar hafa verið teknar út nokkrar greinar þess og gerðar að lögum hér á þingi fyrr á þessu ári eins og menn muna varðandi myndlykla og þá vernd sem eigendum þeirra var veitt.

Ég tel að það sé skynsamlegt að velta því fyrir sér í hvaða formi á að standa að því að styrkja innlent útvarpsefni og ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði þegar hann ræddi þetta frv. sem hér liggur fyrir að það virðist vera næsta illa undirbúið að ýmsu leyti og ekki nægilega gengið frá ýmsum vandamálum sem hljóta að koma upp ef það yrði að lögum. Það ber því að líta á málið frá dálítið öðrum sjónarhóli og ekki stíga skrefið með þeim hætti sem hér er lagt til. A.m.k. er ég ekki reiðubúinn að lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv. eins og það er nú og tel að þegar menn endurskoða þessi ákvæði útvarpslaganna þá verði að huga sérstaklega að innlendri dagskrárgerð og velta því fyrir sér hvort það beri að hafa sjóð sem veitir þeim aðilum sem að henni starfa sérstakan stuðning.

Ég vil einnig taka það fram að það hefur verið gengið frá uppgjöri eins og fram hefur komið við Sinfóníuhljómsveit Íslands og það liggja fyrir tillögur í fjáraukalagafrv. sem hér hefur verið lagt fram um það uppgjör og varðandi frágang málsins þannig að í sjálfu sér er sjóðurinn nú þannig staddur að það væri auðvelt að gera þáttaskil í starfsemi hans. Einnig hefur komið fram að nýlega hefur verið úthlutað úr honum þannig að ýmsir hlutir hafa verði gerðir upp og málin skýrð og liggja skýrar fyrir heldur en áður.

Sjóðurinn er tilkominn vegna þess að þegar Ríkisútvarpið missti einkarétt sinn og einokun sína á útvarpsstarfsemi hér á landi þá töldu hv. alþm., og um það var samstaða hér á þingi, að það væri nauðsynlegt að koma á laggirnar slíkum sjóði til þess að vinna að því verkefni sem honum var ætlað lögum samkvæmt.

Ef viðhorf alþingismanna hafa hins vegar breyst á þann veg að þeir telja að það sé óþarft að hafa slíkan sjóð til að stuðla að gerð innlends dagskrárefnis, þá er það lengsta sem hægt er að ganga að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir. Það sem ég hef sagt um þetta er að ég tel að leggja eigi sjóðinn niður í núverandi mynd. Ég hef hins vegar ekki skuldbundið mig að neinu leyti varðandi framhaldið og minni aðeins á að hér liggja fyrir tillögur um niðurlagningu sjóðsins án þess að það sé gengið jafnlangt og flutningsmenn þessa frumvarps leggja til. Ég teldi skynsamlegast í þessu máli að því yrði vísað til menntmn. og síðan tæki nefndin afstöðu til þess á eigin forsendum, en í ljósi þess að það er fullur hugur á bak við þau áform að endurflytja frv. til laga um breytingu á útvarpslögunum þar sem yrði tekin afstaða til þessa máls hugsanlega á annan hátt en í þessu frv. og lokaniðurstaða yrði með hliðsjón af því.